Unga fólkið hefur áhrif til góðs!

Unga fólkið hefur áhrif til góðs!

Stundum hættir mér til þess að tala um unga fólkið sem tekur þátt í kirkjustarfinu sem framtíð kirkjunnar. Þegar mér verður það á, gleymi ég því að þau hafa stórkostleg áhrif á kirkjuna í dag. Þau eru kirkja dagsins í dag, samtíð kirkjunnar.
fullname - andlitsmynd Pétur Björgvin Þorsteinsson
16. október 2010

Stundum hættir mér til þess að tala um unga fólkið sem tekur þátt í kirkjustarfinu sem framtíð kirkjunnar. Þegar mér verður það á, gleymi ég því að þau hafa stórkostleg áhrif á kirkjuna í dag. Þau eru kirkja dagsins í dag, samtíð kirkjunnar. Ég var minntur á snjóboltaáhrifin sem krakkarnir hafa hvort á annað og samfélagið allt þegar ég fylgdist með mótsetningu landsmóts æskulýðsfélaga á Akureyri í gærkvöld.

Í bréfi Páls postula til Tímoteusar (1. Tim. 4:12) skrifar Páll:

Lát engan líta smáum augum á æsku þína en ver fyrirmynd trúaðra í orði og hegðun, í kærleika, trú og hreinlífi.
Þannig hvetur Páll Tímoteus til þess að halda góðu verkunum áfram og láta það ekki trufla sig þó einhverjum þyki hann of ungur. Sjálfur velti ég því fyrir mér, hvort að við sem erum orðin eitthvað eldri séum hrædd við kraftinn sem býr í æskunni og því hætti okkur til að svara ungu, metnaðargjörnu fólk sem vill og getur breytt heiminum með setningum eins og ,,æi, þú ert svo ung(ur)" eða ,,já þegar ég var á þínum aldrei, hélt ég líka að ég gæti breytt heiminum (en nú er ég vitrari)". Orð í þessum stíl eru til þess fallin að draga kjark úr unga fólkinu.

Lítill hópur ungmenna úr Glerárkirkju tók þátt í ungmennaskiptaverkefni á vordögum með þýskum krökkum. Yfirskrift verkefnisins var ,,We're human, right?" og unnu þau með ýmiss mannréttindastef og horfðu þar sérstaklega til Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.  Hluti þeirrar vinnu var að fara út á götur og torg og leggja á sig ýmsa vinnu til þess að vekja athygli á mannréttindum almennt. Eitt af því sem þau gerðu var að semja texta sem þau sungu m.a. fyrir framan 150 jafnaldra sína í Glerárskóla á Akureyri. Textann sungu þau við lagið ,,Satellite" sem hafði nýverið unnið í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.

Og nú aftur að snjóboltaáhrifunum: Mér hlýnaði þvílíkt um hjartaræturnar þegar ég heyrði þetta lag flutt aftur í gærkvöldi á landsmótssetningunni, nú í endurbættri útgáfu með lengri texta. Það sem kviknaði sem lítil hugmynd í hópi fárra ungmenna var nú komið á svið fyrir framan 700 ungmenni sem mörg hver tóku undir af bestu getu:

Er við sjáum fréttirnar af fátæklingum hér og þar. Finnum kannski til með þeim en gerum ekki neitt í því.

Við ættum kannski að íhuga að setja okkur í þeirra spor. Vera góð við náungann og hjálpa þeim sem eiga bágt.

Þú og ég við höfum bæði sama réttinn. Því ég og þú Við erum bæði heimsbúar.

Erum heimsins ljós Vinnum saman – gerum heiminn betri Frelsum þrælabörn Gefum litlum hjörtum von á ný

Nú þegar þessi texti birtist á trú.is eru mörg þessara 700 ungmenna upptekin af því að safna fé til þess að leysa börn úr þrælaánauð á Indlandi. Þau eru sjálfstæð og komast langt á eigin vilja. Okkar sem erum eldri er falin sú ábyrgð og ég vil segja skylda að styðja við þetta unga fólk sem er mikilvægur hluti samfélagsins í dag! Við þurfum að játa - kannski með orðum Heru Bjarkar, að unga fólkið ,,have a special something" - kannski með eigin orðum, að þau eru kraftmikill og ómissandi hluti samfélagsins.

Krakkarnir 700+ sem mætt eru á landsmót æskulýðsfélaga eru mér fyrirmynd. Takk ÆSKÞ fyrir að standa fyrir svona frábæru móti.