Hverjir eru heilagir?

Hverjir eru heilagir?

Það er allra heilagra messa. Hverjir eru heilagir? Við játum: Ég trúi á heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra. Er kirkjan heilög? Er hún samfélag heilagra? Er ekki yfirlæti fólgið í þeirri staðhæfingu. Jú, það er það, ef hugtakið heilagur er álitið sömu merkingar og hugtakið fullkominn. Í þeirri merkingu er kirkjan ekki heilög, hún er ekki samfélag fullkominna.
fullname - andlitsmynd Sigurður Pálsson
03. nóvember 2002
Flokkar

Þegar hann sá mannfjöldann, gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann, og lærisveinar hans komu til hans.Þá lauk hann upp munni sínum, kenndi þeim og sagði: Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki. Sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða. Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa. Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða. Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða. Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá. Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða. Sælir eru þeir, sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir, því að þeirra er himnaríki. Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður. Matt 5.1-12

* * *

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Það er allra heilagra messa. Hverjir eru heilagir?

Við játum: Ég trúi á heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra.

Er kirkjan heilög? Er hún samfélag heilagra? Er ekki yfirlæti fólgið í þeirri staðhæfingu. Jú, það er það, ef hugtakið heilagur er álitið sömu merkingar og hugtakið fullkominn. Í þeirri merkingu er kirkjan ekki heilög, hún er ekki samfélag fullkominna. Þetta er heldur ekki merking orðsins heilagur þegar talað er um samfélag heilagra. Heilagir eru þeir sem safnast saman um hinn heilaga, um Krist. Þar sem safnast er saman um Krist og komið til fundar við hann þar er samfélag heilagra. Hvorki í sögu eða samtíð er kirkjan fullkomin, enda eru þeir sem safnast um Krist ekki fullkomnir. Það voru þeir ekki sem söfnuðust að honum á jarðvistardögum hans, það eru þeir heldur ekki nú á dögum.

Við játum trú á almenna heilaga kirkju. Hún er almenn vegna þess að hún er öllum opin, hún er ætluð fólki af öllum þjóðum og tungum. Enginn er lokaður úti, nema hann loki sjálfan sig úti, telji sig of góðan eða of sérstakan til að heyra til þeim hópi sem safnast um Krist. Kirkjan er almenn, vegna þess að söfnuður hennar verður ekki sýnilega greindur frá öðrum mannsöfnuði. Þekktur þýskur guðfræðingur hefur sagt: Söfnuðurinn kemur ekki saman til að menn geti kynnt sig sem trúaða hver fyrir öðrum, heldur til þess að þeir séu kynntir fyrir fagnaðarerindinu. Samkvæmt þessu er samfélag heilagra þar sem menn safnast að Kristi til að þiggja það sem hann hefur að gefa í fagnaðarerindi sínu.

Þegar barn er borið til skírnar er það á táknrænan hátt merkt Kristi á enni og brjóst til merkis um að það tilheyri honum, það verður hluti af samfélagi heilagra. Hvítur skírnarkjóllinn er tákn um heilagleika Krists, tákn um þann skrúða réttlætisins sem við heyrðum um í pistli dagsins og þeir sem eru hans skrýðast frammi fyrir honum.

En orðið heilagur hefur einnig verið notað um þá sem taldir eru hafa lifað svo helguðu lífi að þeir hafi safnað sér verðleikum sem þeir geti síðan látið aðra njóta og því verið teknir í helgra manna tölu. Mótmælendakirkjurnar hafna þessum skilningi og ákalla ekki dýrlinga sér til hjálpar. Við höfnum þeim hins vegar ekki sem dæmum til eftirbreytni og þökkum hvern þann sem með lífi sínu, breytni og þjónustu hefur birt okkur Krist með helguðu líferni sínu.

* * *

Allra heilagra messa er þakkar og minningardagur um þau öll. En einnig og ekki síður minningardagur þeirra mörgu nafnlausu píslarvotta sem goldið hafa fyrir trú sína með lífi sínu. Á síðustu öld voru þau sem létu lífið fyrir trú sína fleiri en nokkru sinni frá upphafi.

Allra heilagra messa er í sívaxandi mæli að verða minningardagur í kirkjunni okkar um þau sem gengin eru á undan okkur. Í sýn Jóhannesar sem við heyrðum í pistlinum sem lesinn var úr 7. kafla Opinberunarbókarinnar fengum við að skyggnast inn í þá framtíð sem bíður hinna heilögu, þ.e. hinna heilögu í merkingunni þeirra sem safnast um Krist. Þar fengum við að sjá mikinn múg sem enginn gat tölu á komið lúta hinum heilaga í lofgjörð og tilbeiðslu í þeim heimi sem kemur, þetta er sýn til þeirrar framtíðar sem bíður hinna heilögu.

Hverra minnist þú á þessum degi. Hver eru þau sem gengin eru á undan þér og þú getur minnst með þakklæti á þessum degi. Settu þau þér fyrir sjónir. Vísast gerir hann vart við sig söknuðurinn vegna alls þess sem þú misstir með þeim. Vísast finnurðu sviðann í hjartanu vegna þess sem þú varðst að sjá á bak. Vísast þyrlast þær upp í hugann spurningarnar sem þú færð aldrei svör við: Hvers vegna?

Ef til vill leita á þig aðrar minningar, sárar minningar, minningar um vonir sem brustu, sættir sem ekki urðu, sár sem þér voru veitt, höfnun sem þú sættir. Minningar um þau sem þú vildir svo innilega að hefðu reynst önnur en þau voru, minningar um þau sem þú vildir svo gjarnan hafa reynst öðruvísi en raun varð á.

Þetta er ekki aðeins dagur minninga og þakklætis. Þetta er einnig dagur sársaukans. Leyfðu þér að rifja það allt upp á þessum degi og berðu það fram fyrir Guð með bænum þínum fyrir þeim sem þú minnist á þessum degi og í bænum fyrir sjálfum þér eða sjálfri þér.

* * *

Ég sagði að pistill dagsins hefði brugðið upp sýn til framtíðar. Kristin trú er trú á framtíðina, en hún er einnig með báða fætur í nútíðinni. Framtíðarvon hins kristna manns er ekki flótti undan sárri nútíð. En nútíðin er borin uppi af von um það sem verður þrátt fyrir það sem er. Sælir eru,.... því þeir munu. Hvers konar sælu var Jesús að boða í sæluboðununum. Var það eitthvert algleymi þeirra sem losaðir hafa verið undan því sem lífið leggur á þá. Nei, þvert á móti. Þeir eru sælir þrátt fyrir það sem er, vegna þess sem verður. Sæluboðanirnar miðla þessari von, þessari trú.

Þegar barn er borið að skírnarlaug og þegar látinn er kvaddur hinstu kveðju eru höfð yfir sömu orðin úr Fyrra Pétursbréfi: „Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum.“

Dauðinn er ógnvaldur. Hverjum heilbrigðum manni er eðlislægt að varðveita lífið öllu öðru fremur. Kristin trú tekur dauðann alvarlega, rétt eins og hún tekur lífið alvarlega. Jesús Kristur tók dauðann alvarlega, svo alvarlega að hann gekk á hólm við hann og hafði sigur. Þess vegna játar kirkjan trú á upprisu og eilíft líf. Upprisa hans er lykillinn að von hins kristna manns.

Ólík trúarbrögð og lífsskoðanir hafa margvísleg viðhorf til lífs að loknu þessu. Sumir trúa því að við séum send hingað aftur og aftur til að læra meira og meira, þar til við náum einhverskonar fullkomnun. Aðrir ímynda sér líf að loknu þessu sem hliðstæðu við það sem við lifum hér og nú. Sumir reyna að skyggnast bak við þessa hulu sem skilur milli lífs og dauða, reyna að ná sambandi við þá sem á undan eru gengnir til að fá leiðsögn, til að fá vitneskju um hvernig þeim líður og þannig mætti lengi telja. Biblían er fátæk af bollaleggingum um þetta allt. Hún talar í líkingum um það sem koma skal, þær líkingar eiga það sameiginlegt að vísa til þess að Jesús Kristur muni gera lífið heilt, víkja því frá sem ógnar, græða sárin, lækna sviðann, þagga grátinn og breyta honum í gleðisöng. Hún staðhæfir það eitt að það er Jesús Kristur sem muni taka sína sér við hönd og leiða þá inn til fagnaðar þar sem hin lifandi von verður nútíð.

Ég tek það gilt.

Ég hvorki get né vil rökræða við þig um trú mína og von. Ég get aðeins sagt þér að þegar ég hugsa til þeirra sem ég hef þurft að sjá á bak nægir mér að vita að Jesús Kristur hefur tekið þá sér við hönd og þess vegna held ég göngunni áfram í þeirri von og trú að þegar minn tími kemur sleppi hann ekki af mér þeirri hönd sem hann hefur þegar rétt mér og ég reiði mig á heldur muni hann leiða mig inn til fagnaðar síns. Ég held áfram að spyrja, ég held áfram að sakna og finna til og mig svíður í gömul sár og ný. En í fylgd hans, í trú og von á hann, held ég göngunni áfram stundum léttstígur, stundum við það að örmagnast en þessi hönd heldur þeim mun fastar sem mitt handtak linast og sleppir ekki, sleppir aldrei.

* * *

Allra heilagra messa á að minna þig á að hann hefur ekki sleppt hönd sinni af þeim sem þú fólst honum þegar þau hurfu þér og hann sleppir þér ekki heldur.

Sýn postulans sem við heyrðum í pistli dagsins á sér framhald: „Þessir sem skrýddir eru hvítu skikkjunum, hverjir eru þeir og hvaðan eru þeir komnir?

Hann sagði við mig: Þetta eru þeir sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa þvegið skikkjur sínar í blóði lambsins Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans, og sá sem í hásætinu situr mun tjalda yfir þá. Eigi mun þá framar hungra og eigi heldur framar þyrsta og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur hiti. Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda, amen.

Sigurður Pálsson (sigurdur.palsson@hallgrimskirkja.is) er sóknarprestur í Hallgrímskirkju. Þessi prédikun var flutt á allra heilagra messu, 3. nóvember 2002.