Trú og traust eru samofin hugtök

Trú og traust eru samofin hugtök

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

„Æskuárin mín einkenndust af ótta og von um betra líf,“ sagði nýstúdentinn. „Það komu dagar þegar við áttum hvorki húsaskjól né peninga fyrir mat og vissum ekki hvað morgundagurinn bæri í skauti sér.“ „Þegar ég var yngri hefði mér aldrei dottið í hug að ég myndi fá tækifæri í lífinu til að mennta mig og hvað þá standa hérna fyrir framan ykkur og flytja þessa ræðu,“ sagði Biljana Boloban í útskriftaræðu sinni í Borgarholtsskóla þann 18. maí síðast liðinn. Hún kom hingað til lands þegar hún var níu ára gömul og þá segist hún í fyrsta skipti hafa fengið öruggt húsaskjól. 

Hún sagðist vera þakklát fyrir þann stuðning sem kennarar hefðu sýnt henni og öðrum nemendum skólans. Þeir hafi verið hvetjandi og sagt henni að hún gæti gert allt sem hún vildi taka sér fyrir hendur. „Við tökum venjulegum skóladegi sem sjálfsögðum hlut og áttum okkur ekki beint á því hversu margir eiga hlut í að halda skólanum gangandi fyrir okkur,“ sagði Biljana.

Þarna talaði ung stúlka sem bjó fyrstu ár ævinnar í stríðhrjáðu landi og þakkaði fyrir allt það jákvæða og góða sem landsmenn hefðu gert fyrir hana, án þess þó að hugsa til þess daglega. Hún hafði lært að treysta fólki að nýju og eignast góða vini og samferðarfólk hennar á Íslandi hafði reynst henni vel.

Þær eru ólíkar skoðanirnar sem landsmenn hafa á flóttamönnum eða þá sem kallaðir eru af hinu opinbera, hælisleitendur. Margir vilja ekkert af þeim vita, svo eru aðrir sem vilja leggja þeim til smá stuðning svona rétt til að koma þeim áleiðis. Enn aðrir vilja hjálpa þeim sem mest og gera allt sem hægt er, til að þeir fái og finni að þeir séu velkomnir hingað til lands. Umræðan undanfarna daga í hinum ýmsu fjölmiðlum hér á landi hefur mest mótast af að sýna hversu flóttamenn geta verið útsmognir við að komast hingað og þeir noti jafnvel landið sem stökkpall yfir til vesturheims. Nokkru áður fengum við heyra af grátandi fólki sem flutt var með flugvél héðan til Króatíu. Málefni flóttafólks er erfiður málaflokkur og svo sannarlega vildum við geta gert miklu meira fyrir þá er hingað koma og hafa mætt miklu óréttlæti í heimalandinu og jafnvel verið hneppt í þrældóm.

Sá sem hér talar hefur persónulega kynnst mörgum hælisleitendum því stærsti samverustaður þeirra hér á landi er innan marka þeirra sókna sem ég þjóna sem prestur. Margar eru sögurnar sem ég hefi fengið að heyra og sumar þeirra nánast með ólíkindum. Sumt af því fólki sem leitar til Íslands hefur þurft að þola pyntingar og limlestingar. Einn sagði mér frá því að hann hefði verið þræll og unnið á plantekru og var húðstrýktur ef hann vann ekki eins og húsbóndinn ætlaðist til. Hann sýndi mér bakið á sér og það var bar þess örugg merki að hann sagði satt. Hann bar ekki mikið traust til þeirra er hann umgekkst og reyndi að bjarga sér sjálfur. Líf hans hafði mótast af ótta við aðra. Ég tók eftir því að hann hafði bók eina, ekki mikla vexti og komst fyrir í vasa hans, sem hann strauk. Hann sagði mér að bókin væri Biblían og hann treysti aðeins á einn en það væri Jesú Kristur.

Í guðspjalli dagsins fylgjumst við með Jesú þar sem hann horfir í átt til hinnar helgu borgar og einsetur sér að halda til hennar. Á leiðinni þarf hann að koma við og fá gistingu og mat. Því sendir hann sendiboða á undan sér til að kanna hvort einhver muni taka við honum. Samkvæmt frásögn guðspjallsins vilja menn það ekki því hann var á leið til Jerúsalem, en leið pílagrímsins lá um lönd Samverja, ef hann vildi sækja borgina helgu heim. Venjulega tók ferðalag þetta um þrjá daga. Óvild mótaði samskipti gyðinga og Samverja á þessum tíma og venjulega tóku gyðingar með sér nægjanleg matvæli sem áttu að endast ferðina, því þeir töldu að matvæli Samverja væru óhrein. Eins og sagan ber með sér var ekki um slíkt að ræða hjá Jesú, enda gerði hann ekki mannamun og hafði samskipti við fólk af öllum stigum þjóðfélagsins og öðrum þjóðarbrotum. Enginn varð útundan. Lærisveinarnir vilja bregðast við af hörku og hefna fyrir þá miklu óvirðingu sem Samverjar sýndu, en Jesú var trúr eigin boðskap og fylgdi eftir þeirri meginreglu, að leita ekki hefnda heldur bjóða hinn vangann.

Í seinni hluta guðspjallsins fer Jesú að útskýra hvert á að vera hið rétta eðli lærisveinsins. Þeir sem ætla sér að fylgja honum og vera sannir lærisveinar verða að vera undirbúnir undir það að deila mörgum af þeim kjörum sem leiðtoginn gerir sjálfur. Þeir geta orðið heimilislausir því þeir setja kröfur hans ofar öllu öðru. Fjölskyldan þarf jafnvel að víkja og þeir þurfa að þrauka með honum allt til enda. Krafa hans er takamarkalaus skuldbinding og miklu víðtækari en þær sem þeir þekktu áður og var á milli rabbínans og nemenda hans. Það var eitthvað nýtt sem þeir þekktu ekki áður enda mótaðir af gyðinglegum hefðum. Undir lokin fer hann síðan að útskýra hvað verður um þá sem fylgdu honum ekki eftir, þá taldi hann vera andlega dauða og þeir urðu að sjá um sig sjálfir ef þeir kusu slíkt. Eftirfylgd við Jesú er ofar öllum mannlegum skyldum. Hann endar síðan á að hvetja þá til að læra af honum hjálpa honum með hans starf og boðskap, en seinna meir fengju þeir alfarið þetta verkefni. Sá sem ekki þekkist verkefni skilyrðislaust er ekki hæfur í Guðs ríki. Þeir sem ætluðu sér að verða sannir lærisveinar áttu að treysta Jesú algjörlega og fylgja honum eftir. Þannig fengju þeir anda Guðs. Hin hræðilegi dauðdagi andleysis biði þeirra ekki.

Hvernig áttu lærisveinarnir að skilja þessi orð hans? Þeir voru aldir upp við allt aðra menningu. Siðir og venjur hins gyðinglega samfélags hafði mótað þá. Þeir áttu samkvæmt boði Jesú að taka við öllu fólki og umgangast það eins og bræður og systur, jafnvel þá sem þeir töldu óvinveitta. Hann bannaði þeim að leita hefnda, bjóða heldur hægri vangann væri sá vinstri sleginn. Þessi boðskapur var þeim framandi. Hvernig er þessu háttað í okkar samfélagi og öðrum þeim utan úr heimi sem við fáum fréttir af á öldum ljósvakans? Má þar nefna Ísrael nútímans. Hvernig bregðast þeir við ef á þá er ráðist? Það mætti nefna fleiri lönd í þessu sambandi. Styrjöldin á Balkanskaganum sem ungi nýstúdentinn minntist á sýndi það óumdeilt að fólk gat ekki fyrirgefið og ráðandi öfl notuðu ástandið til þjóðernishreinsana.

Í nútímanum virðist lítið hafa breyst á þessum landssvæðum því íbúar þaðan streyma til annarra landa í leit að betra lífi. Ef makinn er af öðru þjóðarbroti er hjónum ekki vært saman í landinu. Fá ekki vinnu og aðstoð frá hinu opinbera. Ber okkur sem hér búum einhver skylda til að hjálpa þessu fólki?

Við höfum tekið á móti mörgum frá stríðshrjáðum löndum og margt hefur verið vel gert. Frásaga Biljönu Boloban undirstrikar það. En hvað með þá sem við vísum frá okkur?

Á sunnudagskvöldum er áhugaverður þáttur í sjónvarpinu hjá Rúv sem ber nafnið Call the Midwife eða Ljósmóðirin á okkar ástkæra ilhýra máli og er myndaflokkur frá BBC um unga ljósmóður sem starfar í fátækrahverfi í austurborg London árið 1957. Hún lendir í mörgum óvæntum uppákomum og samskipti hennar eru við fólk á öllum aldri, mest þó við konur á besta aldri sem ganga með börn og eru komnar að því að eiga. Í lok þáttanna er sögumaður, sem í þessu tilfelli er ljósmóðirin á efri árum, látinn segja nokkur orð sem dregur fram efni viðkomandi þáttar. Í einum þeirra segir hún þessa setningu: " Það er til betri og meiri gjöf en traust annarra manna en það er að treysta á sjálfan sig". Ljósmóðirin unga hafði komast að þeirri niðurstöðu á efri árum eftir langt starf hennar á meðal fólks af öllum stéttum að þrátt fyrir góðan vilja ættingja, vina og þeirra sem bjuggu í nágrenni við það, væri þrátt fyrir allt best að treysta á sjálfan sig. Traust var í hennar huga stórt og merkilegt hugtak og alla ævi reyndi hún að átti sig á því hvernig væri hægt að útskýra það. Við erum í öllu lífi okkar að reyna að finna út hverjir það eru sem við getum treyst og skiptir þá engu máli hvort við treystum öðrum fyrir litlum eða stórum atriðum í lífi okkar.

Traust er eitthvað sem við lærum og ávinnum okkur í samskiptum við aðra. Það kemur í ljós í dagfari okkar og hvernig þeir sem samferða eru okkur í erli dagsins upplifa okkur sem persónur. Erum við traustsins verð? Sögumaðurinn í sjónvarpsþættinum hafði komist að ákveðinni niðurstöðu og það lært á lífsins göngu, þegar öllu hafði verið á botninn hvolft, var hin stærsta gjöf í lífi hennar að treysta fyrst og fremst á sjálfan sig. Þar talaði sögumaður með mikla reynslu, en vissulega hafði hann þrátt fyrir allt lært að treysta sumum en ekki nægjanlega. En þá má spyrja sig hvort það hafði ekki verið slæm reynsla? Er hægt að lifa lífinu án þess að leggja það einhverju sinni hendur í annarra?

Daninn Knud Ejler Christian Løgstrup og ritað bækur undir nafninu K. E. Løgstrup, þjónaði fyrst sem prestur í heimalandinu, en varð seinna prófessor í siðfræði og trúarheimspeki við háskólann í Árhúsum, skrifaði mikið um traust og hina siðferðilegu kröfu. Løgstrup sem fæddur var árið 1905 og lést 1981 fékk að reyna hvernig var að búa í landi sem var hersetið af óvinaþjóð, en það gerðist þegar Þjóðverjar hertóku Danmörku. Í bók hans um hina Siðferðilegu kröfu er kom út fyrst árið 1956 reynir hann að gera grein fyrir því hvar hin siðferðilega krafa liggi í samskiptum fólks. Að hans mati er manneskjan sköpun Guðs og sem slík er hún ekki strengjabrúða herrans heldur er henni gefin frjáls vilji. Henni eru gefin ákveðin lífsskilyrði og til þess að halda í það að vera manneskja verður hún að bera virðingu fyrir þeim lífsskilyrðum sem henni eru gefnar og ef henni mistekst að skapa menningu sem mótuð er af kærleika og réttlæti þá glatar hún þeim eiginleika að vera mannleg. Eigin menningu getur hún ekki skapað sjálf, hún verður að eiga samskipti við aðrar manneskjur til að geta gert það. Sá sem er of upptekinn af sjálfum sér og telur sig geta skapað sína eigin menningu verður beygður inní sjálfan sig og þar notar Lögstrup orðfæri frá Martin Lúther.

Løgstrup telur að manneskjan geti ekki lifað án þess að eiga samskipti við aðrar manneskjur. Við erum heimur hvers annars og ráðum einnig yfir örlög hvers annars. Manneskjan getur aldrei verið óháð annarri manneskju heldur er hún háð öðrum og aðrir háðir henni. Hún hefur líf annarra í höndum sér og ber því ábyrgð, en í gegnum ábyrgðina læðist að hin siðferðilega krafa sem er hljóð og ræðst af því sambandi sem er á milli manna og þeim aðstæðum sem þar eru ríkjandi. Það er ekkert sem réttlætir það fyrir manneskjunni að afneita henni og gera ekki neitt. Henni ber að framkvæma og þar kemur trúin á Jesú Krist til hjálpar, því sá sem trúir á Jesú Kristi og er mótaður af kristinni menningu þ.e. trúir á Jesú Krist og hefur umgengist aðrar kristnar manneskjur, nær að lesa í hina hljóðu kröfu og veit hvað hann á að gera.

Lærisveinarnir hlustuðu á Jesú og treystu honum. Hin siðferðalega krafa sem hann lagði á þá var mótuð af eftirfylgdinni við hann og seinna þegar hann var upprisinn skildu þeir hvað hann hafði verið að segja við þá. Fram að þeim tíma höfðu þeir verið óöruggir og stundum fundið til sama öryggisleysis og Biljana í gamla heimalandinu. Eftir það varð traust lærisveinanna á Jesú, að trú. Hann hafði sagt sannleikann. Hann var sonur Guðs. Í hina siðferðilegu kröfu var lesið með gleraugum trúarinnar. Þannig héldu þeir síðan út í lífið, fullvissir um að hann upprisinn hefði sent anda sinn yfir þá. Þeir voru því ekki andlega dauðir, heldur lifandi. Siðferðilega krafan er hljóð og á sér stað og stund þegar við mætum annarri manneskju, náunganum og því er hún ef til vill fjarri þegar við hugsum til flóttafólks frá öðrum löndum sem leitar hingað til lands og eigum að mynda skoðun á því hvernig farið er með umsóknir þeirra sem hælisleitenda. Lærisveinarnir fengu að greina hana í samskiptum við Jesú, en hún var sú að fylgja honum allt til enda veraldar því hann ætlaði að vera við hlið þeirra á því ferðalagi.

Er hægt að lifa án þess að bera traust til annarra? Ljósmóðirin unga hafði komist að því að það væri stór og dýrmæt gjöf að treysta á náungann, en fyrst og síðast að treysta á sjálfan sig. Flóttamennirnir sem hingað leita treysta á okkur, því megum við ekki horfa á þá alla með sama hugarfarinu, sumir koma hingað koma hingað á fölskum forsendum og vilja jafnvel nota landið sem stökkpall yfir til vesturheims. Frásaga nýstúdentsins staðfestir að Íslendingar gerðu rétt þegar þeir tóku á móti Biljönu og samlöndum hennar. Trú og traust eru samofin hugtök. Við getum ekki lifað án þess að treysta og það er góð gjöf. Einnig verðum við að treysta á okkur sjálf. Að fylgja Jesú eftir og fara eftir boðum hans byggir á trausti sem grundvallað er í trúnni á hann. Flóttamaðurinn sem bar ör á baki sér eftir húðstrýkingu treysti Jesú, en hann var sá eini sem ekki hafði brugðist honum. Jesús vill að við tökum afstöðu til allra okkar verka og því sem fram fer í kringum okkur. Þar má ekki ríkja nein hálfvelgja eða doði. Stærsta krafa hans er að fylgja honum eftir og til þess er ekki hægt að taka afstöðu nema hún sé mótuð af trúnni og boðskap hins krossfesta og upprisna, byggð á kærleika hans og réttlæti gagnvart öllum. Sé það leiðarljósið í lífi manneskjunnar er hún að boða Guðs ríki. Amen. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Baldur Rafn Sigðurðsson.