Jesús er hinn sanni vínviður

Jesús er hinn sanni vínviður

Við skulum leyfa okkur að hverfa aðeins inn texta dagsins. Við erum stödd í hitanum við Miðjarðarhaf. Það hreyfir örlítið vind, en varla nóg til þess að lyfta blöðum vínberjatrjánna, svo nokkru nemi. Steikjandi sólin bakar okkur, ein og ein fluga truflar á meðan við hlustum á Jesú. Hann er að tala um vínberjaakurinn sem við sjáum í hitamistrinu.
fullname - andlitsmynd Bára Friðriksdóttir
12. október 2005
Flokkar

Ég er hinn sanni vínviður, og faðir minn er vínyrkinn. Hverja þá grein á mér, sem ber ekki ávöxt, sníður hann af, og hverja þá, sem ávöxt ber, hreinsar hann, svo að hún beri meiri ávöxt. Þér eruð þegar hreinir vegna orðsins, sem ég hef talað til yðar. Verið í mér, þá verð ég í yður. Eins og greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér, nema hún sé á vínviðnum, eins getið þér ekki heldur borið ávöxt, nema þér séuð í mér. Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt, sem er í mér og ég í honum, en án mín getið þér alls ekkert gjört. Jóh.15.1-5

Við skulum leyfa okkur að hverfa aðeins inn texta dagsins.

Við erum stödd í hitanum við Miðjarðarhaf. Það hreyfir örlítið vind, en varla nóg til þess að lyfta blöðum vínberjatrjánna, svo nokkru nemi.

Steikjandi sólin bakar okkur, ein og ein fluga truflar á meðan við hlustum á Jesú. Hann er að tala um vínberjaakurinn sem við sjáum í hitamistrinu. Hann er að segja eitthvað alveg sérstakt um sjálfan sig og vínberjatrén. Hann líkir sér við hinn sanna vínvið þar sem Drottinn sjálfur er vínyrkinn. Til að auka dýpt okkar á textanum verðum við að geta sett okkur í spor Gyðinga þess tíma. Þeir töldu sig hafa meira tilkall til Guðs almáttugs en aðrir menn. Þeir höfðu siðinn og hefðina sín megin. Oft er Ísraelsþjóðinni líkt við víngarð Drottins í G.t. Spámennirnir draga upp mynd af víngarði þar sem hann er oftar en ekki kominn í órækt eða orðinn úrkynjaður. Þann garð þráir Drottinn að rækta. Þegar Jesús vísar í þessa mynd hefur hann bakgrunn Gyðinga í huga. Hann er að vísa í myndlíkingu af Ísraelsþjóðinni, víngarðinum, þar sem hann er mitt á meðal, og hann er hinn sanni vínviður. Hann er fulltrúi Guðs á jörðinni, sá eini sem er í réttu samhengi við Guð. Hann er stofn hins sanna vínviðar og hver sem á hann trúir er grein á þeim stofni.

Vissulega eru orð Jesú gagnrýni á Gyðingana sem héldu sig vera í réttu samhengi við Guð, en voru kræklóttir vínviðir umvafðir arfa, víðsfjarri vilja Guðs.

En í orðum Jesú voru líka fyrirheit til Gyðinganna og til okkar sem á hann trúum fyrir orð þeirra.

Jesús hreinsar

Við skulum taka við þeim orðum og leyfa þeim að verka á okkur eins og lífgefandi næring frá vínviðnum sanna.

Jesús sagðist hreinsa greinarnar með orði sínu. Þegar við tökum við boðskap hans og hugleiðum hann með okkur, verkar það hreinsandi fyrir hug og hjarta. Á einhvern leyndardómsfullan hátt breyta orð Jesú okkur hið innra. Áhrif hans eru heilnæm inn í líf okkar, verka með græðslu, uppbyggingu og áminningu. Hann sagði: „ Hverja þá grein á mér, sem ber ekki ávöxt, sníður hann af, og hverja þá, sem ávöxt ber, hreinsar hann, svo að hún beri meiri ávöxt.“ Jóh.15.2

Þegar Kristur hreinsar líf okkar hið innra, þarf hann stundum að draga upp myndir úr fortíðinni og hjálpa okkur að horfast í augu við fortíðina svo að hann geti hafið græðsluferlið. Í myndlíkingunni þarf að klippa af visnandi greinar svo að plantan geti lifað í blóma. Það er sárt fyrir tréð þegar klipptar eru af því gamlar og visnandi greinar. En það er hins vegar staðreynd að grein eða blóm sem er að visna tekur mjög mikla orku frá plöntunni. Á meðan hefur plantan minni næringu fyrir heilbrigðu greinarnar. Út frá myndlíkingunni á Jesús reyndar næga orku fyrir okkur öll, en ef við hugsum um okkur sem plöntu, þá fer of mikil orka í það sem er sjúkt eða bæklað innra með okkur.

Af þeirri staðreynd er nauðsynlegt að sniðla tréð, klippa í burtu það sem er að skemmast, svo að annað fái að dafna og lifa í fullum blóma. Jesús þarf að hreinsa til í lífi okkar og skera í burtu það sem vill skemma okkur svo að við megum lifa í fullri gnægð eins og hann býður okkur að gera.

Það getur verið sárt að horfast í augu við sjálfan sig, það getur verið sárt að viðurkenna að eitthvað sé brogað innra með okkur. En það verður að gerast ef við ætlum að leyfa Jesú að hreinsa það burt.

Þegar okkur langar að hlaupa frá sársaukanum eins langt og við getum, reynum þá að muna að Jesús elskar okkur meir en nokkur móðir og meir en besti faðir getur gert. Það er ást Jesú til okkar sem vill hreinsa og græða það sem gerir okkur kræklótt og vansæl. Það er af umhyggju vínyrkjans við plöntuna sem hann sker af visnaðar greinar.

Verum í Kristi

Jesús hvatti áheyrendur sína til að vera í sér, þiggja næringu af hinum sanna vínviði. Hann blessaði áheyrendurna með því að segja að þeir væru greinar á hinum sanna vínviði. Það er mikill heiður að fá að vera grein á þeim sanna vínviði sem Kristur er.

Við erum áheyrendurnir ásamt Gyðingunum til forna. Páll postuli sagi þá sem tækju trú vera eins og ágræddar greinar á lífsstofn hins sanna vínviðar. Skírnarþegum hefur verið líkt við þessar greinar sem eru græddar á lífsstofn Krists í skírninni.

Við njótum þeirra réttinda að þiggja næringuna frá Guði sem streymir til okkar í gegnum Krist fyrir heilagan anda. Við njótum þess af brauðinu og vínþrúgunni í altarissakramentinu að fá fyrirgefningu syndanna, líf og sáluhjálp.

Ávextir kristninnar séu öðrum til blessunar

Kristnu lífi fylgja líka ábyrgð og skyldur.

Við eigum að halda okkur við Krist og vera lifandi greinar á honum. Við eigum að bera ávöxt, en það getum við ekki gert nema að við þiggjum jafnan næringuna frá Jesú og leyfum honum að hreinsa okkur þegar það á við. Þannig berum við ávöxt samboðinn trúnni.

Tökum eftir því að ávextir trjánna eru ekki fyrir þau sjálf, heldur fyrir aðra. Við eigum að skapa þau skilyrði í lífi okkar að við getum borið ávöxt. Og við eigum að leyfa náunga okkar að njóta þeirra ávaxta.

Við getum það af því að elska Jesú hjálpar okkur til þess og við megum lifa í þeirri sælu von sem Páll postuli boðar í Fil.1.6 „... ég fulltreysti einmitt því, að hann, sem byrjaði í yður góða verkið, muni fullkomna það allt til dags Jesú Krists.“

Í þeirri von og gleði lifum við og látum hreinsast og uppbyggjast í Kristi sjálfum okkur og öðrum til blessunar.

Amen.