Þakklæti

Þakklæti

Svo leið helgin og mánudagur og þriðjudagur. Það var svo ekki fyrr en um miðjan miðvikudag að læknirinn hringir í hann og tilkynnir honum að hann sé að svara meðferðinni vel. Gildin hafi ekki aðeins staðið í stað eða lækkað lítillega heldur séu þau nú hreinlega komin niður í NÚLL!

Náð og friður Guðs sé með ykkur öllum, kæru vinir, í Jesú nafni!

Vá, það er eins og mér finnist einhvern veginn að ég hafi komið hérna áður. - Takk fyrir boðið. Það er mér heiður og mikil ánægja að vera hérna með ykkur í dag.

Þú sem fæðst hefur inn í þennan heim, hvort sem þér svo líkar það síðan betur eða ver, hefurðu raunverulega gert þér grein fyrir því að þú hefur verið valin í lið lífsins af sjálfum höfundi þess og fullkomnara. Þú hefur verið valin í sigurliðið.

Jafnvel þótt á stundum geti kreppt að og þú upplifað dimma daga, heilsan kunni að hafna þér og þú gengisfelldur af samfélaginu. Já jafnvel þótt einstaka viðureignir kunni að tapast þá ertu samt í liðinu sem vinnur, liðinu sem hefur sigur að lokum, vegna þess sem gerðist á föstudaginn langa forðum og þess undurs sem átti sér stað á páskadagsmorgun.

Í augum Guðs ert þú óendanlega dýrmæt manneskja, sem verður ekki skipt útaf og sett á bekkinn, jafnvel ekki þótt þér kunni að vera mislagðar hendur. Hann hefur komið því þannig til vegar að þú munt lifa um alla eilífð því hann ætlar þér að lifa og vill viðhalda lífi þínu að eilífu.

Hann valdi þig ekki til að sitja á bekknum og því síður sem áhorfandi uppi í stúku. Hafðu bara hugfast að allra síst valdi hann þig til leiks sem dómara. Spurningin sem við hinsvegar stöndum frammi fyrir hvert og eitt alla daga er sú hvort við gefum kost á okkur í liðið?

Gott er að eiga sér góðar fyrimyndir í lífinu og sannarlega er það þakkarvert að hafa átt kærleiksríka foreldra og góða afa og ömmur í báðar ættir. Það er reyndar ómetanlegt. Því það er því miður ekki sjálfgefið og eitt er víst að ekki velur maður sér foreldra og því síður ömmur eða afa.

Ég er svo lánsamur að hafa átt í foreldrum mínum, ömmum og öfum bestu fyrirmyndir lífs míns.

Ég minnist þess til dæmis að á hverjum laugardagsmorgni heimsóttum við feðgarnir eftir að hafa farið í útréttingar afa minn og alnafna, Sigurbjörn Þorkelsson í Vísi og Unni stjúp ömmu mína sem var síðari kona hans. En þess má geta áður en lengra er haldið að síðar á þessu ári verða 130 ár frá fæðingu hans en afi minn þessi var virkur og áberandi í bæjarlífinu á sínum tíma. Var einn af drengjunum hans sr. Friðriks sem stofnuðu KFUM 1899, sat í sóknarnefnd Dómkirkjunnar í 20 ár, var fyrsti formaður sóknarnefndar Hallgrímskirkju og tók fyrstu skóflustunduna að því mikla og heilaga mannvirki og Guðshúsi, sem nú er hin mesta borgarprýði.

Það brá svo við einn laugardagsmorguninn að ég var eitthvað illa fyrir kallaður sem ég vona að hafi verið frekar óvanalegt því ævinlega fór mjög vel á með okkur nöfnunum. Hefði ég líklega frekar kosið að vera heima við í fótbolta að þessu sinni eða í öðrum leikjum með vinum mínum.

Vegna þess hve fáskiptin og fúll ég var þennan morguninn varð heimsóknin í styttri kantinum og fann ég að pabbi var mjög leiður yfir þessu.

Þegar við afi kvöddumst svo við útidyrnar hjá honum dró hann upp úr vasa sínum þetta líka freistandi Malta-súkkulaðikex í nýju umbúðunum og réttir mér sem gjöf í nestið að skilnaði. Með von um að gjöfin kæmi til með að mýkja mig eitthvað. Ég gerði mér hinsvegar lítið fyrir og hrifsaði þessa annars góðu gjöf úr hendi hans án þess að segja eitt einasta orð. En þar sem afi minn var ákveðinn maður í góðu formi, einkar fimur og snöggur upp á lagið, þreif hann súkkulaðistykkið af mér aftur og sagði: "Svona tekur maður ekki á móti gjöfum nafni. Annað hvort tekur þú við gjöfinni og þakkar fyrir hana eða þá að þú bara afþakkar hana kurteisislega."

Þetta atvik fékk nokkuð á mig og tók ég að skammast mín verulega. Má segja að hann hafi gjörsamlega mátað mig á staðnum. Ég var við það að gera mig að algjöru fífli. Hvað átti ég nú að gera eða segja? Annað hvort var að strunsa út og halda fýlunni áfram eða eða að ganga í mig og segja: "Fyrirgefðu afi, ég ætlaði ekki að gera þetta, ég ætlaði ekki að bregðast svona við. Sem betur fer bráðnaði ég og valdi síðari kostinn. Mér þótti jú óendanlega vænt um afa minn og alnafna, var stoltur af honum og þakklátur fyrir hann. Afi náði mér og Guði sé lof þá gekk ég í mig og sá eftir hegðun minni. Auðmýktin varð hrokanum yfirsterkari.

Þetta litla atvik hefur oft skotið upp kollinum í huga mínum, einkum í seinni tíð.

Hann afi minn var nefnilega enginn rugludallur. …(Mikki refur – Lilli klifurmús…) Hann vissi að lífið er gjöf og að allt hið góða sem við þiggjum eru Guðs gjafir. Við getum einfaldlega ekki tekið okkur neitt og því síður hrifsað það til okkar, því að ekkert er sjálfgefið, sjálfsagt eða sjálftekið. Við eigum skapara okkar, höfundi og fullkomnara lífsins allt að þakka. það vissi afi mæta vel og mótaði það allt hans lífsviðhorf. Við einfaldlega hrifsum ekki til okkar því sem að okkur er rétt í væntumþykju og kærleika.

Þótt afi hafi verið barnslega einlægur bæna- og trúmaður þá var hann hvorki barnalegur einfeldningur né yfirborðskenndur, öðru nær. Honum þótti himneskt að fá að lifa og þakkaði hann Guði fyrir hvern dag því að hann vissi að ekkert væri sjálfsagt.

Árið 1918 þá þrjátíu og þriggja ára gamall missti hann ástkæra fyrri eiginkonu sína í spænsku veikinni, frá sjö börnum á aldrinum eins til níu ára. Var það honum að sjálfsögðu gríðarlegt áfall og mikill missir, reynsla sem markeraði hann alla tíð. Síðar missti hann svo 10 ára gamla dóttur af slysförum, sem hann átti mei síðari konu sinni. Hann gafst þó ekki upp á að þakka Drottni fyrir lífið og hélt áfram að fela honum vegu sína í því trausti að hann myndi vel fyrir sjá, jafnvel þótt syrti að og torfærur ævinnar virtust illfærar um stundarsakir.

Afa þótti himneskt að fá að lifa af því að hann sá lífið í samhengi við tilgang sinn. Hann treysti því nefnilega að ævinnar ljúfustu og bestu stundir væru aðeins sem forréttur að þeirri dýðlegu veislu sem koma skyldi.

Góður Guð blessi minningu allra þeirra sem vitnað hafa um fegurð lífsins og skilja þannig eftir sig dýrmæta arfleifð trúar og vonar, kærleika og friðar.

Og minnumst orða frelsarans okkar Jesú krists sem sagði: "Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraust því ég hef sigrað heiminn. - Ég lifi og þér munuð lifa."

Það er nefnilega eftir allt saman þannig að það er himneskt að fá að lifa. Missum ekki af því.

Í Davíðssálmum segir: "Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu."

Þess vegna er svo mikilvægt að temja sér að lifa í þakklæti:

Bara það að komast af sjálfstáðum í sokkana á morgnana og geta jafnvel klippt á sér táneglurnar þegar því era ð skipta er sannarlega þakkarvert. Að ég tali nú ekki um að geta yfir höfuð risið upp úr ríminu. Og það er svo got tog þakkarvert að geta og mega leggja sjálfan sig, allt sit tog alla sína, áhyggjur, hugsanir, drauma og þrár fram fyrir okkar kærleiksríka skapara og frelsara, höfund og fullkomnara lífsins.

Sólin kemur upp að morgni og fagnar okkur án þess að við höfum nokkuð í því gert eða unnið til þess. Að loknum hausti þegar allt visnar og hrörnar kemur vetur svo kemur vorið og sumarið án þess að við höfum neitt til þess unnið eða að því unnið. Eins er með náð Guðs. Hún er ný með hverjum morgninum, án þess að við höfum nokkuð unnið fyrir henni, lagt drög að henni eða eigum hana skilið.

Þakklæti er ekki eitthvað sem maður getur keypt eða selt. Þakklæti er í rauninni spurning um hugarfar, lífsafstöðu. Það er meðvituð ákvörðun að ákveða að njóta þess að lifa í þakklæti. Það gefur frið í hjarta og veldur andlegri vellíðan. Þú ert ekki það sem þú hefur heldur það sem þú gefur, metur og þiggur. Þakklæti er því gjöf sem við skulum óspart gefa áfram, svo gjöfin smitist frá hjarta til hjarta.

Annars langar mig til þess að segja ykkur frá því að nýlega kynntist ég manni nokkrum. Reyndar samferðamanni til margra ára sem mér fannst ég kannast eitthvað við frá fyrri tíð. Ég tek fram að hann er afar velviljaður blessaður en jafnframt veiklundaður á stundum og skelfing vesæll, svo að ég á oft á tíðum hreinlega í mesta basli með hann. Oft reyni ég að hvetja hann til að líta í spegil og láta sér síðan þykja vænt um manninn sem hann þar sér. En það gengur misjafnlega.

Reyndar er hann svo líkur mér blessaður að ég ruglast stundum næstum því á okkur. Mér finnst hann oft nánast eins og skugginn af sjálfum mér. Karl kvölin hefur verið að ganga í gegnum vægast sagt erfiða tíma. Því er ekki endilega alltaf auðvelt að dragnast með kauða. Hann greindst nefnilega óvænt með krabbamein um mitt ár 2013, þá ekki fimmtugur, sem nú er sagt ólæknanlegt.

Eftir að hafa farið í allskonar læknisæfingar og leiki, bæði innanlands og utan þ.e. á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn, ómskoðanir, sneiðmyndatökur, segulómun og beinaskann, jafnvel oftar en einu sinni í hvert tæki og síðan í uppskurð sem skilaði ekki tilætluðum árangri. Við tók löng og ströng geislameðferð sumarið 2014 sem engu skilaði. Gildin héldu bara áfram að hækka. Biðin var endalaus og reyndi verulega á. Dýfurnar hafa verið margar og miklar og vonbrigðin verið algjörlega ósegjanleg.

Nú hefur hann hafið lyfjameðferð með tilheyrandi aukaverkunum. Allt þetta ferli hefur breytt honum all nokkuð og gert hann sannarlega reynslunni ríkari. Hann hefur glímt mikið, fyrst og fremst þó við sjálfan sig en einnig við kerfið og við Guð, sem hann segist ekki skilja en hefur engu að síður sett alla sína von og trú á í trausti þess að hann myndi vel fyrir sjá hvernig sem allt færi.

Ég veit að eftirfarandi orð Páls postula úr Rómverjabréfinu eru í miklu uppáhaldi hjá honum:

“Ég lít svo á að þjáningar þessa tíma séu ekki neitt í samanburði við þá dýrð sem á okkur mun opinberast.

Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort heldur mun hann ekki líka gefa okkur allt með honum?

Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann situr við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur með andvörpum sem ekki verður komið í orð. Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð?

Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur. Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist okkur í Kristi Jesú, Drottni vorum.”

Okkur var einfaldlega aldrei lofuð auðveld ævi. Það eina sem öruggt var þegar við fengum dagsbirtuna í augun var að fyrr eða síðar myndu augu okkar bresta og hjartað hætta að slá. það eina sem okkur var lofað var eilíf samfylgt af höfundi og fullkomnara lífsins.

Þessi umræddi vinur minn ákvað ungur að árum að ásetja sér líkt og Páll postuli forðum að vita ekkert mikilvægara manna á meðal, en Jesú Krist og hann krossfestann og upprisinn frelsara mannkynsins og eilífðan lífgjafa allra þeirra sem það vilja þiggja. Ég hef nefnilega tekið eftir því að hann fyrirverður sig ekki fyrir fagnaðarerindið um frelsarann því það er honum allt. Fyrir það lifir hann og fellur ef því er að skipta. Fagnaðarerindisins sem hjómar í eyrum heimsins sem dæmalaus heimska en er í hans hjarta leiðin til eilífs lífs.

Því hefur hann ávallt reynt að miðla því þótt í veikum mætti hafi vissulega verið. En í einlægni með auðmýkt og í trausti til Guðs. Að hann finndi hans fátæklega erindi, erindi kærleikans, farveg svo það bærist frá hjrta til hjarta. Yrði ljós af litlum loga, sem um síðir yrði e.t.v að miklu óslökkvandi báli.

Föstudaginn 31. október sl. átti hann að mæta í rannsóknir þar sem kanna átti hvernig hann svaraði lyfjagjöfinni, sem var í raun síðasta hálmstráið. Annað hvort virkaði hún í einhvern tíma eða hann gæti einfaldlega farið að pakka saman og tekið til við að velja sálmana.

Kvöldið áður hafði hann brugðið sér á útgáfutónleika kórs Lindakirkju, sem er ekkert venjulegur kirkjukór. Þar gerðist það undur í einu laginu, Dýrð sé Guði, en textinn byggir á bæn frelsarans, Faðir vor, að vinurinn komst ekki aðeins við heldur lygndi aftur augum með útréttar hendur. Áður en hann vissi af tóku tárin að streyma niður kinnar hans. Hann tók allur að hristast og skjálfa og grét einlægum bænatárum svo lítið bar á. Blessunardöggum sem tjáðu þakklæti fyrir lífið, náð Guðs og blessun. "Þín sé dýrðin! Verði þinn vilji að eilífu.”

Þarna gerðist eitthvað, sem hann var ekki í nokkrum vafa um hvað var. Hann hafði aldrei áður upplifað neitt þessu líkt. Hann er þess fullviss að á þessari stundu hafi hann verið snertur með sérstökum hætti af Heilögum anda Guðs. Svo leið helgin og mánudagur og þriðjudagur. Það var svo ekki fyrr en um miðjan miðvikudag að læknirinn hringir í hann og tilkynnir honum að hann sé að svara meðferðinni vel. Gildin hafi ekki aðeins staðið í stað eða lækkað lítillega heldur séu þau nú hreinlega komin niður í NÚLL! Já, dýrð sé Guði!

Já hvað veist þú merkilegra en það að vera valinn í lið lífsins og fá að spila með til sigurs? Og þótt einstaka viðureignir kunni að tapast, muntu alltaf að lokum standa uppi sem sigurvegari.

Já, dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda og að eilífu. Amen.