Þannig týnist tíminn

Þannig týnist tíminn

„Þannig týnist tíminn.“ Þessi óræðu orð eru á gulnuðu blaði Bjartmars Guðlaugssonar í laginu hans góða sem var valið óskalag íslensku þjóðarinnar í gærkvöldi eftir mikla kynningu og tónlistardagskrá RÚV í allt haust.

„Þannig týnist tíminn.“ Þessi óræðu orð eru á gulnuðu blaði Bjartmars Guðlaugssonar í laginu hans góða sem var valið óskalag íslensku þjóðarinnar í gærkvöldi eftir mikla kynningu og tónlistardagskrá RÚV í allt haust. Þetta voru valdar söngperlur Íslendinga allt frá stofnun lýðveldisins til dagsins í dag. Og þjóðin valdi lagið og ljóðið hans Bjartmars einmitt þetta kvöld í gær þegar hann var á mussunni að spila og syngja lögin sín hérna í Alþýðuhúsinu í Eyjum. Það er svo margt merkilegt við þetta að maður gæti fabúlerað heil ósköp og jafnvel rifnað hér og hvar úr stolti. En mest er um vert hvernig hann tók þessu sjálfur: „Það er yndislegt að þjóðinni þyki vænt um þetta lag,“ segir Bjartmar. „Mér þykir vænt um þessa þjóð og finnst gott að geta búið til eitthvað sem henni þykir vænt um.“ Í stuttri skýringu á ljóðinu segir Bjartmar að það merki nánast að það eigi að færa ömmu gömlu blóm á meðan hún er á lífi. Svo týnist tíminn. Ég veit eiginlega ekki hvort við ættum að vera stoltust af því að hann er héðan úr Eyjum og við eigum þessi lifandis býsn í honum sem þykir svo vænt um að þjóðinni þyki vænt um ljóðin hans af því að honum þyki svo vænt um þjóðina, eða hvort við ættum að fagna með honum í einurðinni að semja sín eigin lög alla tíð og syngja bara þau og leyfa aldrei nokkru sinni að nokkurt þeirra yrði notað í auglýsingaskyni og að hafa sýnt alla þessa staðfestu allt frá fyrstu tíð, alveg frá tíma blómabarnanna. Það er all nokkurt fagnaðarefni að eiga svona mann í okkar samfélagi og njóta þess að svona menn eru til. Aldrei seldi hann lögin sín til stórfjármagnara eða gerði úr þeim fyrirtæki. Hann er að semja og syngja lög fyrir fólk sem honum þykir vænt um og þykir vænt um að þeim þykir vænt um þennan söng. En hvað er annað hægt en láta sér þykja vænt um það sem talar svona til okkar allra á svo einfaldan hátt en samt með heilmikla merkingu.

„Líkt og mynd sem bjó í vonarlandi þínu, eins og æskuþrá sem lifnar við og við, býr þar sektarkennd sem að ennþá nær að særa, þar er ég, þar ert þú, þar er allt það sem ástin okkur gaf.“

Líf án trega eða eftisjár er ekki líf sem hefur verið lifað heldur aðeins draumsýn. Sá sem elskar fólk og þekkir það veit þetta og skynjar að við búum öll að atvikum sem eiga góðan möguleika á því að úr þeim spretti og vaxi sektarkennd. Og við getum látið það særa okkur. Týna okkur í því.

Getur verið að tíminn okkar týnist í því að þrátt fyrir vonarlandið, sem við eigum, og þrátt fyrir æskuþrá sem lifnar við og við, grípum við ekki tækifærið heldur drepum umsvifalaust þann tíma með logandi sektarkennd? Og hér notaði ég logandi af því að það svíður undan sektarkenndinni sem stelur frá okkur tímanum, stelur öllum góðum stundum. En í ljóðinu er gulnað blað sem geymir óræð orð. Gulnað blað er þó blað og á því eru þó orð en af því þau eru óræð, eigum við enn í því tilefni til að draga þetta gulnaða blað fram og lesa það upp aftur og aftur og íhuga hvað felst í þessum óræðu orðum. Ekki hef ég hugmynd um hvað höfundurinn var að fara með þessu en þetta er samt svo flott samlíking að það er hreinlega ekki hægt að sleppa henni. Þið fyrirgefið mér en ég sé hér samlíkingu við gamla texta sem hafa ennþá eitthvað að segja við okkur. Úr vonarlandinu er enn sú birta, þrátt fyrir allt, sem er þess megnug að lýsa í lífinu okkar fram á veginn fyrir næstu skref. Tíminn hefur borið margt atvikið einsog straumþung á sem ber burðinn sinn undir allar brýr og að ósi og útá haf. Þannig líður tíminn. Þannig týnir hann líka því sem er liðið nema það sé sett í orð á blað sem gulnar og geymist þar til orð þessa blaðs verða að óræðum minningum. Í þeim getum við pælt til hins óendanlega en á endanum stendur það uppúr að við erum svo undarleg að við viljum hvorki týna tímanum sem geymir ástina né sjáum við eftir því að fá að týna þeim tíma sem geymir söknuð og eftirsjá. Hann má týnast. Hið fyrra ekki.

Satt að segja gæti þetta óskalag og ljóð þjóðarinnar verið eftirtektarvert dæmi um það hvernig hugsun jólaföstunnar er sílifandi hefð sem við viljum ekki brjóta. Við eigum svo margt í þeirri hefð sem tengist ömmum og öfum og löngu liðnum tíma að hann er löngu orðinn sá fjársjóður sem aldrei má týnast - en gerir það samt of oft. Við vitum að það getur verið of seint að færa ömmu gömlu blóm, einsog Bjartmar sagði, en það er einmitt það sem við eigum að hafa í huga núna. Tíminn getur týnst. Fái ég minnsta hugboð um að vitja einhvers á ég ekki að fresta því meðan það er ennþá hægt. Við eigum að vera sérstaklega vakandi yfir þessu á aðventunni. Það segja hin gulnuðu blöð fagnaðarerindisins við okkur einmitt á þessum tíma. „Gætið yðar, vakið! Þér vitið ekki nær tíminn er kominn.“ Það segir jú Jesú. Og þessi orð munu ekki hverfa þótt gulnaða blaðið verði að dufti, enda eru þau eilíf. Og það merkilega er að Frelsarinn okkar segir þetta við þá sem hann elskar af því hann elskar fólk. Og honum þykir óumræðilega vænt um það þegar fólkið sem hann elskar elskar það sem hann er að boða þeim af kærleika sínum. Enn er verið að stappa í okkur stálinu í Hebrabréfinu og það er einsog talað til okkar í tíma. Við eigum ekki að varpa frá okkur þeirri djörfung sem felst í þessari von og þessu fagnaðareindi heldur sýna endalausa þolinmæði í því sem er gott og fagurt og elskuvert í þessum heimi á meðan við fáum enn þennan tíma.

Tími aðventunnar er þannig tími. Hann er tími sem má ekki týnast í erli dagsins og ég vona að hann verði alltaf varðveittur hjá okkur öllum sem elskum þetta líf og þessa trú og þessa von í þeim kærleika sem Guð hefur þegar sýnt okkur og sýnir enn með komu Frelsarans. Við munum eftir þolgæði og ást Maríu guðsmóður og við munum eftir djörfung Jóhannesar skírara og við munum eftir staðfestu og ást sem sagt er frá af blöðum Biblíunnar hjá öllum þeim sem eru fagnaðarboðar meðal þjóða og tapa sér ekki í tímans þunga flaumi heldur halda höfðinu uppúr og gleyma ekki sundtökunum sem við eigum öll að þekkja. Þá erum við áfram í vonarlandi aðventunnar sem ástin okkur gaf. Amen.