Vinátta Guðs á jólanótt

Vinátta Guðs á jólanótt

Það er orðið heilagt. Þannig er tekið til orða þegar klukkurnar hafa hringt inn jólin. Við þekkjum kaflaskilin, allt í einu hættum við að gera allt sem þarf að gera, asinn hverfur, streytan líður hjá, nú verður ekki meira gert,
fullname - andlitsmynd Bára Friðriksdóttir
24. desember 2010
Flokkar

Það er orðið heilagt.

Þannig er tekið til orða þegar klukkurnar hafa hringt inn jólin.

Við þekkjum kaflaskilin, allt í einu hættum við að gera allt sem þarf að gera, asinn hverfur, streytan líður hjá, nú verður ekki meira gert,

nú eru komin jól.

Nýr tónn er sleginn, tónn hins helga, tónn þess dýrmæta, tónn friðar, ljóss og gleði.

Fjölskyldan snæðir saman, það er ið í smáfólkinu og eftirvænting liggur í loftinu. Eftirvænting gjafa og börnin ráða varla við sig af spenningi. Hjá þeim fullorðnu ríkir einnig eftirvænting vináttunnar, gleðinnar, hvíldarinnar.

 

Já, kæri söfnuður, það eru jól, gleðileg jól.

 

Þegar slæða hins himneska kvölds leggst yfir er skynjun hins heilaga nær en ella.

 

Allt verður kyrrt og rótt

og það er sem tíminn hverfi

inn í óendanlega stutt

andartak

sem virðist líða hjá, áður

en það hefst.

 

Þannig lýsir Svava Strandberg jólanótt í ljóði og ég veit að við könnumst mörg við þetta heilaga andartak sem hvelfist yfir um stund en í minningunni er það aðeins andrá.

Þar ríkir djúpur og hvílandi friður svo að áhyggjur hversdagsins þokast út fyrir svið skynjunarinnar. Tær gleðin og vonin sem fylgir litlu Jesúbarni í jötu tekur yfir.

 

Við skulum hugleiða mynd jólanætur um stund.

Það er eitthvað töfrandi við þessa látlausu sögu.

Öll heimsbyggðin var á þönum við árslok vegna kröfu  Ágústusar keisara um skrásetningu allra sinna þegna.  Ungur maður af ætt Davíðs konungs, þurfti að fara til Davíðsborgar Betlehem til að láta skrásetja sig. Þar var kominn Jósef og með honum fór María, unnusta hans er var þunguð og komin að fæðingu.  

 

Sagan af komu frelsarans í heiminn er látlaus. Í tveimur setningum er sagt frá fæðingu frelsarans. María ól son sinn í gripahúsi, vafði hann reifum og lagði í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.

Þrátt fyrir einfaldleika frásagnarinnar þá segir hún svo margt. Jesús var í fyrstu ekki boðinn velkominn í heiminn af mörgum.

Í dimmu gripahúsi voru aðeins María og Jósef. Það sá enginn ástæðu til að skjóta yfir þau skjólshúsi þó að hún væri komin að fæðingu. Það var ekki reynt að rýma til á gistihúsum og setja í forgang verðandi móður og barn. Og hvar voru ættmenni Jósefs? Kannski þekkti hann ekki frændlið sitt.

Við fæðingu sjálfs frelsarans voru einungis viðstödd dýrin og náttúran auk Jósefs og Maríu.

Hver eru skilaboðin?

Það segir okkur að Kristur er líka frelsari dýranna.

Útskúfun Jesú frá mannlegu samfélagi og atlæti minnir á að Guð sjálfur tók sér stöðu með manninum í aðstæðum hans í litlu barni sem fæddist við Betlehemsvelli fyrir tvöþúsund árum.

Guðs sonur er við hlið þeirra sem fæða barn inn í allsleysi, af því hann var þar sjálfur. Guð skilur aðstæður hinna útskúfuðu af því honum var úthýst. Guð stendur með eineltisbarninu af því Jesús veit hvernig er að vera lagður í einelti. Með því að taka á sig allskyns erfiðar aðstæður í lífinu umfaðmar hann hvern mann sem finnur til undan byrðum lífsins. Jesús var ekki bara í þeim sporum í eina tíð, heldur gengur hann með okkur einu og sérhverju, tekur undir byrðina, blæs okkur friði í brjóst, lífi og von.

Það var elska Guðs sem kom í heimin í litlu barni sem lagt var í jötu.

Það er elska Guðs sem vitjar þín í kvöld. Vinátta Jesú Krists frá Nasaret er nærri.

 

Ó, Jesúbarn, þú kemur nú í nótt, og nálægð þína ég í hjarta finn. Þú kemur enn, þú kemur undra hljótt, í kotin jafnt og hallir fer þú inn.

                        Jakob Jóhannesson Smári  

Það eina sem þú þarft að gera er að bjóða vináttu Jesú velkomna. Baða hugann í ljósi frelsarans sem fæddist í heiminn eins og þú og ég. Þannig er hann orðinn bróðir okkar allra.

Hann gekk sinn lærdómsveg í umhyggjusömu uppeldi foreldranna. Hann lifði, kenndi, læknaði og hughreysti alla sem til hans komu. Honum var hafnað, hann var hæddur, húðstrýktur og líflátinn.

En dauðans vald gat ekki haldið Jesú því hann er lífið sjálft. Dauðinn hafði ekkert tangarhald á honum og Guð sendi heilagan anda sinn til að reisa hann upp frá dauðum.

Þess vegna köllum við hann frelsara. Hann var ekki bara góð fyrirmynd í lífinu. Jesú kom í heiminn til að birta Guð. Hann gerði meira. Hann kom í heiminn til að leysa synduga menn undan valdi dauðans og leiða þá í eilíft ríki Guðs. Hann kom sem frelsari, von heimsins fyrir þig og mig.

Við þurfum bara að opna hugann fyrir birtu barnsins við Betlehemsvelli. Leyfa honum að vera vinur okkar og leyfa okkur að vera vinir hans.  Þá höfum við óheftan aðgang að andartakinu dýrmæta, friðinum djúpa sem bægir burt sérhverri ógn hugans og vonin víkur ekki frá okkur.

 

Sem ljós og hlýja' í hreysi dimmt og kalt þitt himneskt orð burt máir skugga' og synd. Þín heilög návist helgar mannlegt allt - í hverju barni sé ég þína mynd.

Jakob Jóhannesson Smári  

Jesús umfaðmar alla okkar ævi með fæðingu sinni, lífi, dauða og upprisu. Hann er með okkur frá vöggu til grafar. Hann einn fylgir okkur inn í dauðann og út úr honum aftur til lífsins eilífa.

Í kvöld erum við á mærum þess jarðneska og himneska. Barnið í jötunni, frelsari heimsins er hér og vill finna þig.

 

Þú kemur enn til þjáðra' í heimi hér með huggun kærleiks þíns og æðsta von. Í gluggaleysið geisla inn þú ber, því guðdómsljóminn skín um mannsins son.

Jakob Jóhannesson Smári