Hvað er kirkja?

Hvað er kirkja?

Koinonia, samfélag kristins fólks, er samfélag í kærleika og andlegri einingu og birtist á sýnilegan hátt til dæmis og einkum í máltíðinni sem við eigum saman. Máltíð er fjölskyldusamfélag, yfirlýsing um að við tilheyrum hvert öðru, og gestgjafinn er Jesús Kristur sem gefur okkur sjálfan sig.
Mynd


Biðjum: Heilagi faðir, helga þú oss í sannleikanum. Þitt orð er líf, andi og sannleikur. Amen.

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hvað er kirkja? Er kirkja stofnun, skipulagsheild? Er kirkja bygging? Er kirkja prestarnir og organistarnir? Er kirkja fólkið sem mætir á helgidögum? Já og nei og jú. Líklega allt þetta - en meira til. Einfaldasta skilgreiningin á kirkju sem ég hef heyrt eru orð Jesú í Matteusarguðspjalli, 18. kafla (vers 19-20): „Ef tveir yðar verða einhuga hér á jörð í bæn sinni mun faðir minn á himnum veita þeim allt sem þeir biðja um. Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra.“ Kirkja er sem sagt bæn. Kirkja er einhuga bæn. Kirkja er samfélag fólks í bæn.

Með því er ekki sagt að Guð sé ekki með okkur þegar við biðjum í einrúmi. Auðvitað er Guð þar. Guð er með okkur, alla daga, allt til enda veraldar. Guð er með meira að segja þegar við stöndum við vaskinn og burstum í okkur tennurnar. Eins gott að gera það vel – eins og allt annað sem okkur er trúað fyrir.

En það er sem sagt eitthvað alveg sérstakt á ferð þegar fólk kemur saman til að biðja í Jesú nafni, jafnvel þó þau séu bara tvö eða þrjú. Systkini okkar í orþódoxu kirkjunum eru dugleg að benda á líkinguna við heilaga þrenningu. Guð er þrí-einn, faðir og sonur og heilagur andi, eins og messuformið okkar í dag minnir sífellt á. Samfélag heilagrar þrenningar er kærleikssamfélag, persónuleg tengsl ólíkra persóna guðdómsins í órjúfanlegri einingu. Í samkirkjulegri guðfræðiiðkun er gríska orðið koinonia oft notað til að nefna þessi tengsl og þau tengsl sem eru á milli kristins fólks.

Koinonia, samfélag kristins fólks, er samfélag í kærleika og andlegri einingu og birtist á sýnilegan hátt til dæmis og einkum í máltíðinni sem við eigum saman. Máltíð er fjölskyldusamfélag, yfirlýsing um að við tilheyrum hvert öðru, og gestgjafinn er Jesús Kristur sem gefur okkur sjálfan sig. Við tölum stundum um kirkjuna sem líkama Krists og byggjum það orðfæri á Biblíunni. Við erum líkami Krists, byggð upp af ólíkum hlutum og hæfileikum, í öllum stærðum og gerðum. Í máltíð Drottins verður líkaminn heill þegar við „þiggjum og neytum og nærumst“ eins og segir í einum af góðu sálmunum hans Sigurbjarnar Einarssonar.

Það er hins vegar sorgleg staðreynd að líkami Krists er ekki heill, ekki þessi sýnilegi á jörð. Kirkja Krists hefur ekki enn náð að græða þau sár sem opnuðust á fyrstu þúsund ára vegferðinni þegar fólk gat ekki komið sér saman um orðalag og guðfræði og valdakerfi. Og aftur bættust við sár á miðri leið inn í seinna árþúsundið.

Sárast er að við getum ekki gengið saman til altaris. Við getum bætt úr ýmsu, til dæmis sleppum við í dag umdeildu orðalagi í Níkeujátningunni þar sem hluti kirkjunnar bætti við orðum - orðunum „og syni“ (filioque) í sambandi við uppruna Heilags anda - í óþökk annars hluta kirkjunnar. Lútherska heimssambandið lagði til árið 1984 að sleppa þessum orðum þegar það á við og það ætti ekki að vera okkur um megn að koma til móts við eitthvað sem er kristnum systkinum okkar svona mikilvægt. Heilagur andi er samt sem áður sendur í nafni Krists, eins og Ritningin vitnar um (Jóh 14.26).

Og vissulega getur stór hluti kristninnar neytt sakramentisins saman, þau og þau og svo við og þau og hin og hin. Við skiljum líka skírnina á mismunandi hátt. Samt erum við þar miklu nær hvert öðru. Við játum öll að skírnin sé innganga í ríki Guðs, í kirkjuna, í söfnuðinn. Það er frekar hvernig – með niðurdýfingu eða ádreifingu - og hvenær – sem börn borin fram af trúaðri fjölskyldu eða sem meðvitaðir játendur trúarinnar - við skírum sem skilur að.

Nú skírði Jesús ekki sjálfur en sagði okkur að gera það eins og við lesum í síðustu orðum hans í Mattheusarguðspjalli: Farið til að gera fólk um allan heim að lærisveinum, skírið og kennið. En Jesús þáði iðulega boð um að taka þátt í máltíðum hér og þar og með þessum og hinum, bæði góðborgurum þess tíma en sannarlega líka hinum. Það er svo stór hluti af eðli manneskjunnar að borða með öðrum. Og Jesús var og er sannarlega raunveruleg manneskja af holdi og blóði, maður með mönnum, á sama tíma og hann var og er raunverulegur Guð, sonurinn í heilagri þrenningu, sá sem frelsar og endurnýjar og gefur frið við Guð og menn. Hann sem var sendur.

Þegar við borðum saman verður eitthvað nýtt til. Við erum ekki söm á eftir. Maturinn meltist í maganum til að næra líkamann allan og samtalið og samfélagið hefur vonandi haft góð áhrif á það hver við erum, hvað við hugsum og hvernig okkur líður. Þetta á líka við um máltíðarsamfélagið sem Jesús Kristur stofnaði. „Gerið þetta í mína minningu,“ sagði hann og meinti áreiðanlega hebresku leiðina að minnast. Hún felst í því að endurlifa það sem gerðist, vera viðstödd þar sem hlutirnir áttu sér stað, finna hvernig staður og stund rennur saman handan tíma og rúms. Þetta gerðu hebrearnir í eyðimörkinni þegar þeir minntust sinna fyrstu páska og við heyrðum um áðan í fyrri ritningarlestrinum. Þetta gerðu Gyðingarnir á tímum Jesú og gera þann dag í dag.

Að minnast þýðir að samsama sig stað og stund þess sem minnst er og þannig er það líka með altarisgönguna, brauðsbrotninguna, kvöldmáltíðina, máltíð Drottins eða hvaða orð við nú notum um þetta stórmerkilega fyrirbæri. Þegar við brjótum brauð og blessum vín í minningu Jesú erum við þar með komin aftur í loftstofuna með vinum hans og vinkonum og það er Jesús sjálfur sem þakkar og blessar og gefur okkur hlutdeild í sjálfum sér. Hvernig það gerist nákvæmlega er leyndardómur, sakramenti, og við nálgumst það hvert á okkar hátt og notum um það mismunandi orð. Eitt er víst: Jesús er raunverulega nálægur. 

Og það er er mikilvægast. Guð er með. Guð er hér, einmitt hér og nú, með þér og mér og okkur öllum og líka hinum sem skilja þetta öðruvísi en finna samt Heilagan anda Guðs, heilaga nærveru Jesú Krists í brauði og víni. Þess vegna finnst okkur mörgum að altarisgangan sé ekki einkaathöfn heldur samfélagsathöfn, ekki bara af því að það er svo miklu meira nærandi á allan hátt að borða saman – það sýna vísindalegar rannsóknir – heldur vegna þess að Jesús sagði okkur að gera þetta saman.

Hvenær við getum brotið okkur í stykki hvert gagnvart öðru og hvert með öðru til að vera fær um að hætta að láta aldagamla múra aðskilja okkur veit ég ekki. Guð einn veit. En við skulum sannarlega leyfa okkur að vona að sá dagur komi að við getum öll drukkið af kaleiknum saman, kaleik nýja sáttmálans, kaleik lífgjafarinnar, kaleik kærleikssamfélagsins. Maranata, kom þú Drottin Jesús.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Rísum úr sætum og förum saman með trúarjátninguna sem kennd er við samkirkjulegu kirkjuþingin í Níkeu/Konstantínópel á fjórðu öld eftir Krist. 

Prédikun í samkirkjulegri útvarpsmessu í kirkju Óháða safnaðarins á skírdagsmorgun 18.4.19, tekið upp 4.4.2019.