Mannasiðir - fyrsta orðið

Mannasiðir - fyrsta orðið

Kannski er grjótið sem kastað er í saklausa lögreglumenn þessa dagana flísar úr lögmálshellum sem brotnuðu í dansinum kringum gullkálfinn. Nú þarf að sækja orð á guðsfjallið að nýju fyrir nýtt siðferði og nýjan sáttmála. Boðorðin eru ljómandi grundvöllur fyrir mannasiði og boðskort til réttláts þjóðfélags.

Hefur einhver brotið öll boðorðin samtímis? Rökhugsunin segir nei, það er ekki mögulegt. Ísrael, þjóð Móse, gleymdi bæði Guði og mannasiðum við fjallsrætur Sínaí og dansaði í kringum gullkálfinn og þá molnuðu orðin tíu. Móses mölvaði báðar steintöflur boðorðanna og braut þar með öll boðorðin! En það eru ekki margir svo margbrotnir sem Móses. En öllum verður þó einhvern tíma hált á freistingasvellinu.

Í vikunni benti sr. Árni Svanur Daníelsson okkur Neskirkjuprestum á skondna stuttmynd sem hægt er að sjá á vefnum. Myndin fjallar um mann, sem tókst að brjóta öll boðorðin frá því að hann vaknaði og áður en hann var fullklæddur. Þetta er kostulegulegt myndband. Maðurinn varð meira að segja öðrum manni að bana fyrir algera slysni, vegna þess að hann var á röngum stað á röngum tíma, þar sem hann átti ekki og mátti ekki að vera. Eitt brot leiðir af öðru. Ef þið efist um hvort svo altækt raðbrot sé mögulegt bendi ég á myndbandið.

Boðorðin - hvaða skoðun hefur þú á þeim bálk? Manstu fimmta boðorðið og manstu alla röðina? Fyrstu þrjú boðorðin varða afstöðu manna til hins guðlega, en seinni sjö boðin, seinni taflan, eru um mannheim. Boðorðin eru í heild á tveimur stöðum í Biblíunni, í annari Mósebók tuttugasta kafla og síðan í fimmtu Mósebók í fimmta kafla. Og kaflarnir eru ólíkir og áhugavert að bera þá saman.

Boðorðin eru sett inn í söguframvindu eyðimerkurgöngunnar, en þau endurspegla siðferði ekki siðfræði og siðferði umreiknandi þjóðflokks heldur þroskaðs borgarsamfélags. Boðin eru hluti af regluverki þjóðar og eins og við vitum elur heilbrigt þjóðfélag víðtækt regluverk - hömlulaust frelsi er ógnvænlegt og skaddar. Boðorðin eru aðeins brot mikils boðabálks og samtals eru boð Hebrea mörg þúsund. Í miðju þeirra eru þessi orð til lífs og fyrir lífið. Það er ekki aðalatriði, að þú munir hvort bann við morðum sé á undan eða eftir banni við hjúskaparbrotum. Mikilvægast er auðvitað að andi boðorðanna verði innræti okkar og hafi áhrif til góðs?

Boðorð - guðspjall

Í dag er brugðið út af prédikunarvenjunni. Í stað þess að leggja út af guðspjalli dagsins ræðum við boðorðin og einnig næstu sunnudaga. Boðorðin hafa verið kölluð umferðarreglur lífsins. Þau eru dýrmæti - ekki aðeins milljörðum trúmanna heldur líka uppistöður siðfræði og siðferðis vestrænnar menningar. Boðorðin hafa verið eins konar vegprestar og kennileiti við lagagerð og samræðu um hið réttláta þjóðfélag. En hvert er gildi þeirra þegar eldar brenna og ópin bergmála daga og nætur um ríkisstjórn og nýjar kosningar? Á Íslandi æpir fólk á breytingar. En til hvers og á hvaða grunni? Ekkert er unnið ef aðeins er breytt um flokka og fólk ef siðferðið batnar ekki.

Kristnir menn hafa um aldir kennt, að boðorðin eru mikilvæg en þó ekki skuldbindandi reglur. Lög, boð og skyldur eru ekki miðja kristins átrúnaðar heldur Guð. En gruflandi trúmaður spyr hins vegar um afleiður sambandsins við þennan Guð sanngirni og réttlætis. Trú er tengsl við heimshönnuðin og því er eðlilegt að spurt sé hvernig kerfið, sem þessi Guð hefur skapað, virki best. Trú er ekki sprikl í mórölskum möskvum, heldur afstaða sem elur af sér mannskilning og þjónustusýn. Trú er ekki tæki í þágu eigin dýrðar heldur samband við Guð. Guð er ekki sjálfhverfur heldur tengslavera, sem elskar veruleikann, fólk, veröld og umhverfi. Þar með er gefið, að trú elur siðferði, trú hvetur til réttlætis og trú kallar á siðfræði. Trú varðar þjóðfélag, stjórnmál, samskipti á heimili, uppeldi og skólamál.

Hvers konar mannasiði hvetur trúin til? Auðvitað er atferli trúmanna með ýmsu móti og ekki allt gott. En trúin verður ekki dæmd af mistökum, frekar en góð löggjöf af glæpamönnum, eldur af brennuvörgum eða þjóðir af áföllum.

Jesútúlkunin frábær boðorðaleiðsögn

Nei, boðorðin og reyndar ýmsar reglur Ísraels eru ekki bindandi. En hvert er gildi þeirra þá? Jesús Kristur var ekki aðeins frelsari í almennri merkingu, heldur hafði afslappaða eða leysandi afstöðu gagnvart reglum. Hann benti mönnum gjarnan á, að lífið þjónar ekki reglum heldur eigi reglur að þjóna lífinum, mannúð og réttlæti. Þannig ætti að nálgast lög, form og kerfi manna. Þannig brást Jesús við boðorðum og regluverki þjóðar sinnar.

Afstaða hans kemur skýrt fram í því sem við köllum tvöfalda kærleiksboðorðið, sem er eiginlga samantekt eða þjöppun Jesú Krists á öllum boðorðunum. Hvernig er það nú aftur? Tvöfalda kærleiksboðorðið fjallar um að elska Guð og elska fólk og það hljóðar svo:

“Elska skalt þú, Drottin, Guð þinn, af ölu hjarta þínu, allri sálu þinni, og öllum huga þínum. … og náunga þinn eins og sjálfan þig.”
Þetta er hin elskulega túlkun Jesú á boðorðunum og við megum læra af. Annars vegar uppstefnan og hins vegar þverstefnan. Krossinn er tákn þessa, elska til Guðs er himinstefna og himintenging hins trúaða eins og langréð eða uppstólpinn. Hins vegar er trúin einskis virði án þess að hún varði líf og hamingju fólks, einstaklinga og samfélags. Það er þvertréð. Trú sem aðeins varðar stefnu inn í eilífð er á villigötum. Trú sem aðeins sér menn hefur tapað áttum. Guð og menn, Guð og veröld. Allt í senn og sameinað. Þegar þú sérð kross + máttu muna Guð og menn, að Guð elskar þig og þú mátt elska Guð og menn.

Guðselska eða I-god

Hvernig var aftur fyrsta boðorðið? Það hljóðar svo:

"Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig."
Þetta hljómar einfalt en er afar snúið, líklega það allra erfiðasta, sem við komumst í. Letingjar veraldar forðast alltaf þetta boðorð. Ísraelar bjuggu til gullkálf og allir menn hafa tilhneigingu til að búa sér til sinn eigin smáguð, sitt eigið guðsríki. Sumir trúa blint á flokkinn sinn eða málstaðinn. Aðrir lúta fíknarguðinum með því að missa tökin á áfengisnotkun sinni eða efnanotkun. Fæðufíkn, neyslufíkn nær tökum á mörgum. Margir óttast svo yfirmenn sína, flokksræðið, harðstjórnir alls konar að menn tapa áttum, hugrekki og heilindum og leyfa þeim að verða litlir hjáguðir af óttataginu. Síðan er sjálfsdýrkun í ótal útgáfum sem er líkast til algengasta hjáguðadýrkun í okkar heimshluta.

Það er I-god eða ég-um-mig-frá mér-til-mín-afstaðan, sem á sér síðan ótal spilingarútgáfur. Þessi smáguðaafstaða er það sem hefur opinberast í hruni síðustu mánaða, hefur valdið blekkingu og spillingu. Stærsta hrunið síðustu mánuði er siðferðishrun. Það hrun er eins og illvígt innanmein sem hefur búið um sig í leynum og lengi.

Það sem við þurfum að læra og skilja er að við erum hluti heildar. Hlutverk okkar er að þjóna, ekki bara að sjálfum okkur - heldur líka öðrum. Og fyrsta boðorðið segir, að ég verði ekki raunverulegt ég nema Guð sé þar, fái aðgang að sjálfinu og hjáguðirnir fari úr hásætinu. Viskan og innsæið er þetta: Ef litlu guðirnir fá of mikið vægi skaddast lífið og lífsgæðin. En ef Guð fær að vera miðja lífs og sjálfs þá getur sjálfið lifað vel, guðsflæðið virkað rétt og samfélag manna, þjóðfélagið, græðir stórlega. Guð og gildin fara saman.

Í messuhópnum nú í vikunni töluðum við um eðli boðorðanna. Öll könnuðumst við að einhvern tíma ruglast maður á röð, en við vorum sammála um að andi boðorðanna væri aðalatriðið, að við temdum okkur inntak þeirra. Takmarkið væri, að þau yrðu okkur töm og innræti okkar, n.k mynstur sálarinnar, sem stýrði viðbrögðum okkar í lífinu.

Uppþot og mannasiðir

Móses braut töflurnar, molarnir voru við fætur fólks, siðferðið var brotið. Þegar eldar loga á götum, veist er að fólki í opinberri þjónustu og efast er um meginstofnanir samfélagsins, já þá er ráð að íhuga kúrsinn því traustið er rofið.

Samfélagsverkefni okkar Íslendinga næstu misserin er endurnýjun, að ákveða snið og gildi þjóðar handan kreppu. Hvað viljum við? Hvaða grunn þörfnumst við undir byggingu samfélags, menningar og samskipta? Margt hefur reynst illa og hefur ekki þjónað almannahagsmunum. Mörg kýli þarf að stinga og taka þjáningarfullar ákvarðanir. Ekkert verður auðvelt næstu misseri. Hvers konar leikreglur þarf að setja? Hvaða gildi viljum við að stofnanir og skólar þjóðarinnar hafi?

Þegar samfélagsbygging okkar hefur skaddast svo auðveldlega og þegar svo margir verða fyrir barðinu verður að spyrja um stefnu og leiðir. Þegar gildagliðnun hefur hremmt svo marga ber okkur skylda til að grandskoða siglingakort þjóðarskútunnar. Eru þau rétt eða röng? Hvernig á að gera upp við lygar og sjálfsblekkingar sem við höfum komið okkur upp? Hrófatildur af ýmsu hugmyndatagi, ýmsar kenningar og starfshættir hafa reynst slysagildrur. Þær verðum við að rífa, eyða og læra af. Og þegar dýpst er skoðað hvers konar gildi viljum við og hvers konar mannasiði?

Töflugrjót og nýir siðir

Kannski er grjótið sem kastað er í saklausa lögreglumenn þessa dagana flísar úr lögmálshellum sem brotnuðu í dansinum kringum gullkálfinn. Nú þarf að sækja orð á guðsfjallið að nýju. Nýjar töflur fyrir fólk, fyrir nýtt siðferði, nýtt uppgjör, nýjan sáttmála. Gerðu upp við hjáguðina og lifðu fyrir og í kærleika Guðs. Boðorðin eru ljómandi grundvöllur fyrir mannasiði og boðskort til réttláts þjóðfélags.

Amen.

“…mannfjöldinn hlýddi á og undraðist mjög kenningu hans. Þegar farísear heyrðu að Jesús hafði gert saddúkea orðlausa komu þeir saman. Og einn þeirra, sem var lögvitringur, vildi reyna hann og spurði: „Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“ Jesús svaraði honum: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“ Matt. 22.34-40
"...Guð talaði öll þessi orð og sagði: Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín eða skepnur þínar, eða nokkur útlendingur, sem hjá þér er innan borgarhliða þinna, því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í þeim er, og hvíldist sjöunda daginn. Fyrir því blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann. Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér. Þú skalt ekki morð fremja. Þú skalt ekki drýgja hór. Þú skalt ekki stela. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á." Boðorðatextinn í 2. Mósebók 20
"Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig." "Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni." "Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín." "Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma." "Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín eða skepnur þínar, eða nokkur útlendingur, sem hjá þér er innan borgarhliða þinna, því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í þeim er, og hvíldist sjöunda daginn. Fyrir því blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann." "Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér." "Þú skalt ekki morð fremja." "Þú skalt ekki drýgja hór." "Þú skalt ekki stela." "Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum." "Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns." "Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á." Boðorðin 10