Óskirnar

Óskirnar

Alls staðar þar sem hetjuhugur, fórnarlund og mannkærleikur eru að verki, þá er verið að framkvæma óskir þessa barns sem fæddist í jötunni og átt hefur fylgjendur og aðdáendur á jörðunni í 2000 ár.
fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
24. desember 2006
Flokkar

En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu. Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu: Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á. Lúkasarguðspjall 2:1-14
Guð gefi okkur öllum gleðileg jól í sál og sinni. Megi friður helgra jóla finna sér leið að hjarta sérhvers manns um þessi jól, ekki síst þeirra sem eiga erfitt um þessar mundir af ýmsum ástæðum. Nú er Kristur kominn. Hann stendur þögull við hjartadyr okkar og knýr dyra. Aldrei erum við eins nær því en á þessari stundu þegar  hátíðin er gengin í garð að opna hjörtu okkar upp á gátt fyrir honum. Það er alveg einstakt andrúmsloft sem ríkir í kirkjunni okkar í kvöld. Við erum óvenju hrifnæm fyrir hverju orði og ekki síst tónunun sem berast okkur til eyrna. Við tökum undir hvert orð jólaguðspjallsins og syngjum jólasálmana fullum hálsi ef okkur langar til. Ég vona að þið séuð ekki gjörsamlega búin á sál og líkama eftir allt umstangið á aðventunni því að það er ekki gott að gleyma sjálfum sér, að rækta sinn innri mann í öllu áreitinu í nánd jólahátíðarinnar. En  jólaumstangið er að baki og við höfum hér í kirkjunni á aðfangadagskvöldi gengið inn í nýja veröld þar sem fagrir ómar hljóma frá orgeli og kór, já englaraddir í mannsmynd syngja Guði dýrð hér í kirkjunni í kvöld og taka undir raddir himnesku englanna á Betlehemsvöllum forðum, boðbera Guðs sem færðu fjárhirðunum tíðindin góðu um að þeim væri frelsari fæddur sem væri Kristur Drottinn í borg Davíðs, Betlehem.

 Við höfum slegist í för með fjárhirðunum forðum sem fundu barnið liggjandi í jötu  í fjárhúsi og gengið til kirkju. Á altari þessa fagra helgidómis hvílir dúkur sem minnir á reifarnar sem Jesú barnið var reifað í áður en það var lagt í jötuna. Rétt eins og fjárhúsð var tekið frá fyrir Guð þá hefur þessi helgidómur verið reistur Guði til dýrðar og staðið hér í miðjum kaupstaðnum í nærfellt hundrað ár. Eins og kunnugt er fögnum við aldarafmæli kirkjunnar 2. júní á næsta ári. Kirkjuklukkurnar í turni kirkjunnar hafa jafnan kallað sóknarbörn til fundar við Guð í gegnum áratugina. Þau hafa sótt hingað á gleði og sorgarstundum. Þá einn fer, annar kemur en Kristur er þó hinn sami. Hans nýtur við innan sem utan veggja þessa helgidóms og á sér þá ósk heitasta að góðu fréttirnar sem hann flutti mönnum á sínu jarðneska tilveruskeiði nái til allra jarðarbúa frá einni kynslóð til annarrar. Þessar góðu fréttir eru fluttar mann fram af manni vegna þess að til er fólk sem er reiðubúið að hlýða kalli hans og gerast lærisveinar hans og bera kærleikanum vitni í orði og verki. En rétt eins og lærisveinar hans á hverjum tíma þarfnast jarðneskrar fæðu þá þurfa þeir einnig á andlegri næringu að halda sem fæst með daglegu samneyti við frelsarann upprisna, að morgni sem að kvöldi á degi hverjum. Slíkt atferli, slíkur lífsmáti veitir okkur hugsvölun og Kristur gefur okkur frið til þess að takast á við það áreiti sem við verðum alla jafna fyrir í daglegu lífi.

Einn er sá helgidómur sem eigi verður af mönnum reistur en það er hjarta sérhvers manns. Sá sem opnar hjartadyr sínar fyrir frelsaranum vex og þroskast í sinni trú vegna samfélagsins við hann. Sá sem ræktar samfélagið við hann finnur gjörla hversu gjöful þau samskipti eru vegna þess að þau leiða af sér fallega breytni sem sérhvert mannsbarn skilur, nærgætni, góðvild, umhyggju og kærleika svo nokkuð sé nefnt.  Það eru gjafir af þessu tagi sem taka gjöfum vitringanna fram vegna þess að það er ekki hægt að kaupa þær fyrir peninga. Góðvildin er mál sem hinn daufi og blindi skilur. Við sem leggjum stund á þessar jákvæðu og uppbyggilegu dyggðir framkvæmum óskir barnsins í jötunni sem óx og dafnaði fyrir Guði og mönnum og gekk um og gerði gott. Það er mikilvægt að við bregðumst ekki óskum þessa barns sem þráði það eitt að sérhvert mannsbarn ætti möguleika á lífi, lífi í fullri gnægð.

Jólin eru uppsprettulind lífs og ljóss, friðar og fagnaðar og kallar fram í dagfari mannsins göfugt atferli sem einkennist af ræktarsemi í þágu náungans. Allar helgustu athafnir manna stjórnast af anda Jesú Krists og orku. Við finnum kraft hans í fari samferðafólks okkar, í   sölum Sameinuðu  Þjóðanna, í röðum sjálfboðaliða Rauða krossins jafnt sem í fámennum deildum slysavarnarfélaga og hjá Hjálparstarfi kirkjunnar. Hann gengur um ósýnilegur eða í mannlegum myndum á sjúkrastofum, dvalarheimilum, í skólastofum, leikskólum,  öryrkjabústöðum, sambýlum fatlaðra, hjúkrunarheimilum aldraðra og innan veggja kirkjunnar. Alls staðar þar sem hetjuhugur, fórnarlund og mannkærleikur eru að verki, þá er verið að framkvæma óskir þessa barns sem fæddist í jötunni og átt hefur fylgjendur og aðdáendur á jörðunni í 2000 ár. Hvergi finnum við hann þó fremur en í vitund og hjartslætti maka okkar, barna og vina, í augum móður okkar og föður ef allt hefur gengið að óskum barnsins sem gefið var nafnið Jesús sem merkir frelsari.

 Við vitum mæta vel að víða er verk að vinna til að allir eigi lif í fullri gnægð. Á fáum áratugum hafa kjör íslendinga tekið stakkaskiptum, nærsamfélag okkar til sjávar og sveita hefur tekið stakkaskiptum og kaupmáttur landsmanna hefur margfaldast. Við búum við góða heilsugæslu þar sem andlegum og líkamlegum þörfum landsmanna er mætt eftir föngum. Það er skoðun mín að aldrei megi skera niður fjárframlög til þessa málaflokks svo að það komi niður á þjónustu gagnvart notendum hennar. Það er fagnaðarefni að ríkisvaldið hefur ákveðið að veita auknu fjármagni til þeirra sem búa við slaka geðheilsu en þó vekur það vissar áhyggjur að fjármagnið að mestu leyti virðist ætla að fara til uppbyggingar í Reykjavík  en ekki til uppbyggingar á landsbyggðinni.  Þá hefur menntamálum landsmanna fleygt fram. Allir eiga lögvarinn rétt til að stunda nám frá leikskólanámi til háskólanáms sem hefur haft ómetanleg jákvæð áhrif á samfélagsuppbyggingu í landinu. Fyrirtæki í landinu hafa í auknum mæli fundið til samfélagslegrar ábyrgðar sinnar gagnvart þeim sem búa við kröpp kjör. Þannig mætti lengi telja

Annað fagnaðarefni er það að við íslendingar höfum í auknum mæli litið okkur fjær með auknum fjárframlögum til þróunarmála í fjarlægum heimsálfum og neyðaraðstoð í kjölfar náttúruhamfara. Þannig höfum við í auknum mæli leitast við að uppfylla skyldur okkar sem lítil þjóð í þjóðasamfélagi heimsins. Við höfum  miðlað þekkingu okkar á sjávarútvegi til samfélaga á suðlægum slóðum og stuðlað þar að sjálfbærri nýtingu vannýttra fiskistofna. Á undanförnum árum höfum við verið að kenna Kínverjum að nýta jarðvarma sem þar liggur í jörðu til að hita upp húsakynni. Þróunarhálp af þessu tagi er svar við óskum barnsins í jötunni sem á sér þá óskasta að allir eigi líf sem er skaparanum að skapi, gott, fagurt og fullkomið. Að þessu stefnum við íslendingar í sameiningu ásamt kristnum þjóðum í heimi hér. Þannig erum við í rauninni ábyrgir þátttakendur í framhaldssögu helgra jóla kynslóð fram af kynslóð.

 Megi Guð gefa að enginn gleymi að rækta samband sitt við barnið í jötunni, manninn á krossinum, hinn upprisna Jesú Krist sem er hjá okkur hér í kirkjunni í kvöld. Og þegar við kveikjum kertaljósið á hátíðarborðinu í kvöld þá skulum við muna eftir því að hann sagði: “Ég er ljós heimsins”. Megi ljósið hans verma og lýsa okkur á vegferð okkar í gegnum lífið. Megi það einnig ná til þeirra Guðs barna sem búa í fjarlægum heimsálfum.

 Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú Drottni vorum. Amen.