Hinn óbærilegi húmor Guðs ríkis

Hinn óbærilegi húmor Guðs ríkis

Það er hinn óbærilegi húmor Guðs ríkis að Jesús Kristur er heiminum gefinn í eitt skipti fyrir öll, og hversu mjög sem veröldin vill hrista hann af sér og reynir sífellt að krossfesta hann, þá birtist hann alltaf á nýjum og óvæntum stöðum, standand í röðinni næst þér.

Í dag blasir Jesús Kristur við okkur þar sem hann stendur í röð. Jesús í röð!

Ég hef alltaf haft lúmskt gaman af Jesúbröndurum þótt ég reyni stundum, stöðu minnar vegna, að hlægja ekki að þeim þegar aðrir heyra til. Jesúbrandarar ganga allir út á það sama, þeir sýna Jesú í óvæntum kringumstæðum. Síðast sá ég í sjónvarpinu svona senu þar sem maður liggur á bekk og er að tala við sálfræðinginn. Maðurinn lætur móðan mása um allt og ekkert og sefandi rödd sálans heyrist annað slagið uns linsunni er snúið og í ljós kemur að þar situr frelsarinn sjálfur í stóli sálfræðingsins vel hærður í sandölum og síðum kufli. Ég hló eins og krakki. Sagan af skírn Jesú í ánni Jórdan er í ætt við þetta. Menn koma í hópum og standa í röð til að komast að hjá Jóhannesi skírara, sem fyrir sitt leyti hefur þetta ævarandi skemmtanagildi klæddur í úlfaldaskinn sem aldrei og hvergi hefur verið í tísku og lifir á sínu sérstaka hráfæði; engisprettum og villihunangi. Í röðinni ægir saman allskyns fólki, sjómönnum og búandliði í bland við flækinga og rómverska hermenn og svo er Jesús allt í einu kominn í halrófuna. Jesús í röð. Hversu margar altaristöflur skyldu vera til í veröldinni þar sem Jesú er sýndur standandi í röð? Ég efast um að slík finnist nokkurs staðar.

Hið óvænta samhengi er inntak allrar fyndni og frá því sjónarhorni má segja að fagnaðarerindi Biblíunnar, góða fréttin um Jesú, sé í eðli sínu fyndin. Sagan er ágæt um soninn sem liggur grátandi undir rúmi og segir við mömmu sína: “Ég vil ekki fara í skólann. Krakkarnir stríða mér og kennararnir eru á móti mér.” Mannan svarar: “En Vilhjálmur minn, þú verður að fara í skólann!” “Já en ég vil það ekki!” „En þú ert nú einu sinni skólastjórinn!” ansar þá mamman.

Sagan er fyndin vegna þess að myndin af drengnum undir rúminu stökkbreytist í höfði okkar við hina óvæntu rökfærslu mömmunnar. Það er hið óvænta sem er fyndið. Hvað er óvæntara en Guð í jötu? Guð búandi með fólkinu sínu í litlu merkingarlausu þorpi talandi einhverja málýsku á merkingarlausu landsvæði eins og Galíleu? Hversu fyndið er það að fyrsta kraftaverk Jesú hafi verið það að redda brúðkaupsveislu með því að breyta vatni í vín af því að mamma hans vildi það!? Eða þegar þorpsbúar í Nasaret horfa hver á annan og spyrja í forundran: „Er þetta ekki hann Jesús, sonur Jósefs? Við þekkjum bæði föður hans og móður. Hvernig getur hann sagt að hann sé stiginn niður af himni?“ (Jóh. 6.42) Í inngangskaflanum að Jóhannesarguðspjalli er þetta vandamál viðrað með ljóðrænu orðalagi þegar Jesús er kynntur svona til sögunnar: „Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki.” (Jóh. 1.10)

Hugmyndin um Guð standandi í röðinni næst þér er bara svo óvænt að hún verður varla tekin alvarlega. Fólki er ekki og hefur aldrei verið sama um guðsmynd sína og það vill ekkert fleipur og vitleysisgang þegar kemur að sjálfri heimsmyndinni. Einmitt þess vegna, - vegna þess að fólk tekur lífið alvarlega - þá eru algeng viðbrögð við Jesú Kristi hneykslun og reiði, hvort heldur fólk á veraldlega eða trúarlega heimsmynd. Lái mönnum hver sem vill.

Páll postuli nálgast þetta í upphafi Korintubréfsins þegar hann segir: „Enda þótt speki Guðs sé í heiminum gátu mennirnir ekki þekkt Guð með sinni speki. Þess vegna ákvað Guð að boða það sem er heimska í augum manna og frelsa þá sem trúa. Gyðingar heimta tákn og Grikkir leita að speki en við prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku.” (1. Kor. 1.21.-25)

Nei, fólk er ekki vitlaust. Fólki er alvara með líf sitt og sína heimsmynd og það er ekki hægt að ætlast til þess að nokkur lifandi sál trúi því að almáttugur guð hafi gerst maður á meðal manna. Það væri bara ósanngjarnt að ætlast til þess. Jesús Kristur og guðspjallasagan öll er og verður heimska og hneyksli í augum heimsins - og einmitt þar liggur styrkur trúarinnar.

„Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki.” segir Jóhannes og heldur áfram: „Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd.” (v.10-13)

Trúin á Jesú, sá veruleiki sem Kristin kirkja er í þessum heimi er ekki náttúrulegt fyrirbæri. Trúin á Jesú er himnesk opinberun og hver sem hana á er endurfæddur af Guði.

„Og Orðið varð hold,” útskýrir Jóhannes. Það merkir að hugurinn sem í upphafi mælti fram veruleikann, sá hugur sem allt ljós öll fegurð og skynsemi á upphaf sitt í gerðist maður. „Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.” (v.14) Átt þú þessa trú? Hefur dýrð þessa hneykslanlega og heimskulega guðs blasað við innri augum þínum? Velkomin(n) þá í hóp hinna hlægilegu Guðs barna.

Guðs börn! Hvað er það? Það er eitthvað svona álíka skynsamlegt og Jesús í röð.

Ef við segjum um okkur sjálf að við séum Guðs börn, þá erum við að segja að við eigum sameiginlegt foreldri, séum systkin. Við erum að segja það sem Jesús var að segja með því að stilla sér upp í röðina með búandliðinu, sjómönnunum, flækingunum, útlensku hermönnunum og öllum hinum til þess að játa sig syndugan í hópi syndugra manna. Við erum að segja að við séum hvorki meira né minna en manneskjur. Hvorki meira né minna. Manneskjur af holdi og blóði í hópi annara sem einnig eru af holdi og blóði. Að við séum fólk. Að við séum háð aðstæðum okkar, háð hvert öðru, háð fyrirgefningu annara, háð þjónustu og hjálp annara, bundin eigin takmörkunum, samofin öllum mönnum og öllu sem lifir... og á sama tíma horfandi til himins í hjartans þrá af því að við vitum að föðurland okkar er á himni og að þaðan væntum við frelsarans Jesú, svo hlægilega sem það hljómar í eyrum veraldarinnar.

Þegar Jóhannes sá Jesú í röðinni vildi hann varna honum þess að taka skírn og sagði: „Mér er þörf að skírast af þér og þú kemur til mín!“ Jesús svaraði honum: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“ Og Jóhannes lét það eftir honum. En þegar Jesús hafði verið skírður sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“

Þessi lýsing sem er svo öskrandi fyndin í eyrum heimsins hljómar kunnuglega í eyrum Guðs barna. Þau sem eiga eyru til að heyra og augu til að sjá fagna yfir þessari mynd því hún rímar við reynslu þeirra. Milljónir manna um allan heim sem þekkja rödd Guðs og ljós himinsins vita veruleikann sem hér er lýst. Það er nóg.

-„Þegar Jesús hafði verið skírður sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“-

Fögnuður okkar sem köllum okkur systkini Jesú eða Guðs börn er gleðin yfir þessari rödd. Röddinni sem lýsir yfir velþóknun á Jesú Kristi og öllum mönnum í leiðinni. Það er hin djúpa undirliggjandi vissa um að allt muni fara vel, að allt muni samverka til góðs af því að góður Guð er með okkur og hjá okkur og í okkur. Og þegar heimurinn hlær að okkur er eitthvað sem hlær innra með okkur. En þegar heimurinn stærir sig af sigrunum sínum, öllum háu turnunum og máttugu kerfunum þá grætur hjarta okkar, því að við vitum að allt sem er veraldlegt er bara á leiðinni fram hjá. Enginn sigur er endanlegur í þessum heimi. Allir turnar og öll kerfi eiga eftir að hrynja.

Loks skulum við hlýða aftur á textann sem lesinn var hér áðan úr Jesajabók. Í honum hafa kristnir menn í aldanna rás þóst heyra lýsingu á Jesú sjálfum og leyndardómi Guðs í honum. Þar er berum orðum talað um Jesú-andúðina sem við m.a. þekkjum svo vel í okkar samfélagi: „Sjá, þjónn minn mun giftusamur verða, [segir Guð] hann mun verða mikill og veglegur og hátt upp hafinn. Eins og marga hryllti við honum, svo afskræmdur var hann ásýndum að vart var á honum mannsmynd, eins mun hann vekja undrun margra þjóða og konungar munu verða orðlausir frammi fyrir honum því að þeir munu sjá það sem enginn hefur sagt þeim og verða þess áskynja sem þeir hafa aldrei heyrt. (Jes 52.13-15)

Það er hinn óbærilegi húmor Guðs ríkis að Jesús Kristur er heiminum gefinn í eitt skipti fyrir öll, og hversu mjög sem veröldin vill hrista hann af sér og reynir sífellt að krossfesta hann, þá birtist hann alltaf á nýjum og óvæntum stöðum, standand í röðinni næst þér.

Amen

Textar dagsins: Jes 52.13-15 1Pét 3.18-22 Matt 3.13-17