Stöldrum við

Stöldrum við

Guðspjall: Lúlkas 2. 1-14 Lexia: Pistill:

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Gleðileg jól

Það voru hirðarnir sem fyrstir fengu að heyra fagnaðarboðskap heilagra jóla á Betlehemsvöllum er engillinn vitjaði þeirra og sagði: ,,Yður er í dag frelsari fæddur sem er Kristur Drottinn í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks. Þér munuð finna ungbarn, reifað og liggjandi í jötu”.

Hirðarnir sammæltust um það að fara þegar af stað og þeir fundu ungbarn liggjandi í jötu í fjárhúsi. Þar skynjuðu þeir að það sem engillinn hafði sagt þeim var satt og rétt. Ekkert var sem áður. Allt var orðið breytt. Kannski ekki í hinu ytra en innra fyrir slógu hjörtu þeirra í takt við þessi ánægjulegu tíðindi. Þegar þeir komu heim til sín þá tóku fjölskyldur þeirra eftir því að þeir voru ekki samir eftir þessa lífsreynslu. Það var svo bjart yfir þeim. Þeir voru fyrstu pílagrímarnir.

Pílagrímur er sá einstaklingur sem ákveður að vitja helgistaðar og er tilbúinn að leggja á sig töluverðan tíma, erfiði og kostnað til þess. Á vegferðinni eru bænir beðnar, helgir textar íhugaðir um leið og holdið er tyftað með líkamlegri áreynslu. Það er þekkt í öðrum trúarbrögðum að pílagrímar vitja með þessum hætti helgistaða a.m.k. einu sinni á ævinni. Kristnir hafa um aldir vitjað fæðingarkirkjunnar í Betlehem á jólum.

Þannig hafa þeir farið í pílagrímaferð til Betlehem þegar ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs hefur verið nokkuð tryggt. Sumir hafa ekki látið það á sig fá og hafa farið þrátt fyrir ófriðarbál sem ríkt hefur. Þegar ég fór til Betlehem forðum þá var ástandið nokkuð gott en mér eru minnisstæðar hríðskotabyssurnar undir borðum á veitingahúsum sem hermenn sóttu. Minnisstæðust er þó stjarnan í gólfi kapellunnar undir gólfinu í fæðingarkirkjunni þar sem talið er að fjárhúsið hafi verið. Það var áhrifaríkt að fá að kyssa þessa stjörnu sem þúsundir pílagríma höfðu kysst á undan mér. Þá slógu hjartans hörpuslættir í brjósti mér. Lífið hélt áfram en mér var hlýrra innanbrjósts en oftast áður. Ég hafði fetað í fótspor hirðanna í bókstaflegum skilningi og gengið frá Betlehemsvöllum til fjárhússins þótt aldir skildi mig og fjárhirðana að.

Fjárhirðarnir voru síður en svo vitgrannir menn. Þeir lögðu sig fram um að gæta fjárins og voru tilbúnir að leggja líf sitt í sölurnar fyrir féð þegar hætta steðjaði að því. Þeir nutu virðingar í samfélaginu fyrir störf sín. Þeir voru hugrakkir. Þeir höfðu ugglaust fyrir fjölskyldum að sjá sem þurftu sitt viðurværi og sköffuðu ágætlega til heimilisins.

Ég sé þá fyrir mér á Betlehemsvöllum sitjandi við snarkandi varðeld í næturmyrkrinu. Varðeldinn höfðu þeir kveikt til að ylja sér og halda dýrbítum fjarri. Þeir voru líka ljósþyrstar sálir sem sést best á því að engillinn birtist þeim í himnesku ljósi sem verður ekki lýst með orðum. Birtan sem skar næturmyrkrið í sundur var ekki þessa heims. Það lék við andlit þeirra svo andlitsdrættirnir komu vel í ljós, markaðir striti og erfiði lífsins.

En birtan náði líka í gegnum húðina, brjóstkassann, hjartapokann sem umlykur hjartað og þangað inn. Hjörtu þeirra fóru þannig að brenna í óeiginlegum skilningi. Það var engin fyrirstaða í veginum fyrir því að þeir skynjuðu að eitthvað stórkostlegt hafði komið fyrir þá. Það voru engir rimlar fyrir skilningarvitum þeirra, hugum, eyrum, augum, hjörtum. Það var ekkert sem kallaði á athygli þeirra nema það að gæta fjárins sem best. Þess vegna náði birtan himneska og orð engilsins til þeirra eins og hendi væri veifað og þeir fóru skyndi til að leita jötunnar.

Þótt aldir skilji þá og okkur að þá erum við líka fólk eins og þeir með skilningarvitin í ágætu lagi. Við eigum kannski erfiðara með að sjá og skynja og hlusta. Linnulaus hávaðinn í samfélagi okkar og kröfurnar sem gerðar eru til okkar úr öllum áttum gera það að verkum að blóðþrýstingurinn og kólesterólið fer upp úr öllu valdi ef við gætum ekki að eigin heilsu til líkama og sálar. Það er samband milli líkamlegrar heilsu og andlegrar heilsu. Ef okkur líður illa á sálinni þá segir það til sín í líkamanum með vöðvabólgu og jafnvel magasári, hækkuðum blóðþrýsting sem veldur svima og höfuðverk. Þannig mætti lengi telja.

Það sem mér finnst skipta mestu máli er að það náist jafnvægi milli líkamlegrar og andlegrar heilsu. Við eigum þennan eina líkama og þessa einu sál sem einnig þyrstir í ljósið himneska þegar allt kemur til alls. Þess vegna erum við hér saman í kvöld og fögnum fæðingu frelsarans en altarið táknar jötu lausnarans og altarisdúkurinn táknar værðarvoðina sem Jesúbarnið var reifað í. Við sjáum þessi tákn fyrir augum okkar en merking þeirra er okkur kannski ekki alltaf kunn eða gleymd.

Af hverju setjum við alltaf upp jólatré í stofunni heima og hengjum á það margvíslegt skraut? Ég hafði ekki hugmynd um það þegar ég var ungur drengur og skildi ekki hvers vegna pabbi var að drösla risastóru lifandi grenitré inn á mitt stofugólf. Já, það var stórt í minningu ungs drengs sem man eftir að hafa tekið þátt í að skreyta það með jólakúlum, pokum og englahári. Þegar ég varð eldri þá lærði ég að jólatréð táknar jötu Jesúbarnsins og allar gjafirnar undir trénu sem mig langaði til að opna fyrir klukkan 6 táknuðu gjafirnar sem vitringarnir færðu Jesúbarninu, gull, reykelsi og myrru. Mamma sagði mér að englahárið táknaði köngulóarvefinn sem lukti hellismunnann sem jólafjölskyldan faldi sig í þegar hermenn Heródesar leituðu þeirra til að drepa nýfædda sveinbarnið. Greinarnar á grenitrénu minna á krossinn með sínu krosslagi og stjarnan efst minnir á Betlehemsstjörnuna.

Þannig er um margt táknið að það verður okkur hulið ef ekki er jafnan um þau rætt á heimilunum frá kynslóð til kynslóðar. Þannig er það um fleiri hluti í kirkjunni og á heimilum okkar að þeir vísa ætíð lengra. Þá þurfum við að afla okkur þekkingar sem upplýsir um síðir hjörtu okkar. Þannig erum við í raun og veru ætíð á ferð sem pílagrímar kristið fólk í leit að ljósi og aukinni þekkingu á þeirri tilveru sem við lifum og hrærumst í og þeirri sem við eigum svo erfitt með að höndla, en langar til.

Tilvera okkar er ekki dans á rósum. Hún er í senn skemmtileg og erfið. Þegar hún er skemmtileg þá segjum við stundum að hér sé himneskt að vera. Það er fögur fjallasýn og heiðríkja og faðmlagið undirstrikar væntumþykju, styrk og stuðning. Heilbrigð fjölskylda stundar heilbrigð samskipti. Nú á dögum eru til margs konar fjölskyldugerðir. Upp kunna að koma vandamál af þeim sökum en það er mikilvægt að láta það ekki koma niður á börnunum. Leyfum þeim að vera börn og að njóta öryggis og umhyggju sem slík í hvívetna. Við sem eldri erum leysum okkar mál með samræðum og samkomulagi.

Sem betur fer skortir okkur ekki faðmlag þegar erfiðleikar steðja að, þegar heilsan fer þverrandi og ágjafirnar koma í lífsins ólgusjó og tilveran hrynur á augabragði. Þá skiptir miklu máli að hafa sterka sjálfsmynd og vera tilbúinn að þiggja hjálp, umvefjandi faðm. Þá koma sannkallaðir englar í mannsmynd til okkar og vefja okkur örmum sínum. Við finnum þetta ekki síst þegar stoðaðilar samfélagins koma okkur til bjargar í náttlausri veröldinni eða í næturmyrkrinu þegar áföllin verða og við stöndum áveðra og berskjalda.

Það er ekkert tryggt í þessari veröld nema það eitt að við erum ekki ein á ferð. Þá kemur ekki síst í ljós hversu ljósþyrstar sálir við erum þrátt fyrir allt. Þá þiggjum við birtuna sem ljósberarnir veita til okkar. Í veröldinni eru margir stígar hálir. Við erum pílagrímar á ferð frá vöggu til grafar, út yfir gröf og dauða inn í ríki upprisunnar og lífsins.

Við styrkjum sjálfsmynd okkar með því að þiggja stuðning og veita stuðning, stundum uppbyggileg störf, t.d. sjálfboðaliðastörf á vegum Rauða krossins eða hjálparsveita. Fjölmargir bjóða fram aðstoð sína fyrir jólin.

Við styrkjum sjálfsmynd okkar þegar við viðurkennum að okkur er að ýmsu leiti áfátt og þurfum á hjálp að halda þegar við förum fram úr á morgnana. Við styrkjum þessa mynd ekki síst með því að leita inn á við og hlusta á okkar innri mann. Þá kemur þessa ljósþyrsta sál upp á yfirborðið og leitar sannleikans, þess haldreipis sem heldur þegar allt annað trosnar fyrir tímans tönn. Þetta haldreipi er Jesús Kristur, hinn krossfesti og upprisni frelsari mannanna sem hvílir í stalli lágum á jólum og reiðir sig á umvefjandi faðm jarðneskra foreldra.

Við sem pílagrímar á ferð þurfum að læra að staldra við á hraðri vegferð okkar í gegnum lífið og hvíla okkur stöku sinnum með því að íhuga orð ritningarinnar og biðja Guð að upplýsa okkur um tilganginn á bak við líf okkar í þessum heimi.

Ég samdi litla sögu nú á aðventunni sem ég gaf nafnið Vörðuð gata pílagrímsins. Þið getið lesið hana á vefsíðu kirkjunnar. Ég ætla ekki að lesa þessa sögu núna vegna þess að þá verðum við af jólasteikinni. Þó er ég þegar búinn að lesa hana að einhverju marki í þessari jólaræðu þó með öðrum orðum sé því að þar fjalla ég um lífið og tilveruna í ljósi göngu okkar pílagrímanna að settu marki sem er hjartans kyrrðarþel.

Það fæst með því að hvílast reglulega í Guði föður sem afskrýddist sínum tignarskrúða og gjörðist lítið barn í jötu. Ég veit ekki hvernig hann fór að því frekar en ég veit hvernig ég fæ sett þessi orð á blað og tjáð þau með þessum hætti. Það finnst mér hreint kraftaverk. Ég er til, þess vegna hugsa ég. Þú ert til, þess vegna hugsar þú. Ég veit það eitt að ég er þiggjandi með svo ýmsum hætti. Það ætti engum að dyljast, ekki síst á jólum. Fyrir það ættum við að vera þakklát.

Ég tel að við getum verið sammála um það að frelsarinn sem hvílir í stalli lágum á jólum hafi verið áhrifavaldur í lífi og sögu íslensku þjóðarinnar frá öndverðu fram á þennan dag. Nú ber svo við að honum hefur verið úthýst úr sumum leikskólum á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að prestarnir stundi þar að sögn trúboð. Ég kom upp í grunnskóla um daginn til þess að fá mér kaffi með kennurunum. Þá spurði einn kennarinn í glettni: ,,Ertu kominn til að stunda trúboð með nærveru þinni?”. Öllu gamni fylgir nokkur alvara oft á tíðum. Vinaleiðin svokallaða þar sem þjónar kirkjunnar hafa veitt skólabörnum stuðning í skólanum þar sem aðgát er höfð í nærveru sálar. Það þykir sumum ekki nógu gott í Garðabæ. Því er búið að leggja hana niður vegna þrýstings frá tiltölulega fáum einstaklingum. Mér þykir það vægast sagt undarlegt og spyr hvað á þá að koma í staðinn?

Fátt er um svör enda mannleg svör reikul þegar á þarf að halda. Orðin kristilegt siðgæði hafa verið tekin út úr nýju frumvarpi menntamálaráherra um grunnskólana eins og það liggur nú fyrir. Það vakti athygli mína hversu staðfastlega foreldrar leikskólabarna brugðust við gegn þessari breytingu í leikskólunum í fjölmiðli, foreldrar sem borið hafa börn sín til skírnar og vilja augljóslega halda í þessi gildi í samstarfi við leikskólana. Það þurfa fleiri foreldrar að taka til máls sem hafa góða reynslu af samskiptum við kirkjuna.

Kirkjan á í vök að verjast segja sumir.

Ég tel að það sé óþarfi fyrir kirkjuna að fara í vörn heldur þakka fyrir gagnrýnisraddir, hlusta á þær af virðingu, en jafnframt standa fast á sínum grundvelli og hvika hvergi þegar kemur að gömlum og góðum gildum sem eru samofin menningu og sögu þjóðarinnar og eiga rætur sínar að rekja til Jesú Krists líkt og siðgæðið umrædda sem tekið hefur verið út úr frumvarpinu umrædda. Ef við missum sjónar af frelsaranum í sambandi við siðgæðisvitund okkar þá yrðum við brátt eins og stefnulaus reköld í náttmyrkri veraldarinnar því að við erum svo fljót að gleyma hvaðan þessi vitund sé sprottin. Hafið þið tekið eftir því hvað við eigum auðvelt með að gleyma yfir höfuð? Til er saga af hollenskum kristnum söfnuði sem laut ætíð höfði móti hvítmáluðum vegg í kirkju sinni. Enginn vissi hvers vegna. Í ljós kom að á bak við málninguna leyndist falleg altaristafla.

Það er illt í efni ef það á nú að taka mið af svokallaðri sammannlegri siðgæðisvitund. Hvar er uppruna hennar að leita? Heldur hún þegar á reynir? Hvert á sá einstaklingur að snúa sér sem hefur beðið hefur skipbrot í lífi sínu og vill bæta sig

Saga mannkynsins sýnir að maðurinn hefur svo oft beðið skipbrot þegar hann hefur eingöngu treyst á sjálfan sig en ekki æðri mátt. Vissulega er sjálfstraustið góðra gjalda vert en markmið sérhvers pílagríms er að vinna stöðugt í sjálfum sér á göngu sinni í gegnum lífið til þess að hann geti orðið enn betri sonur, faðir, afi, vinur, samfélagsþegn svo ég taki dæmi. Hann skynjar skjótt að hann þarf á hjálp að halda á göngu sinni. Þess vegna má hann ekki missa sjónar af Jesú Kristi.

Hann á að leitast við að vaxa upp til hans, þroskast á vegferð sinni svo að aðrir megi sjá að þar fer kristinn einstaklingur sem heldur fast við góð kristin gildi, t.d. einlægnina sem er undirstaða dyggðanna, hófsemina sem er silkiþráður dyggðanna og kærleikann sem er höfuðdyggðin í kristnum sið.

Við skulum vera samferða, kirkja, skóli og heimilin í landinu í því að styðja og styrkja börnin okkar á viðkvæmum uppvaxtarárum því að það er ekki tekið út með sældinni að lifa í þessum heimi frekar en það var fyrir hirðana á Betlehemsvöllum sem gættu þess að dýrbítar kæmust ekki að fénu.

Þeir sáu hið himneska ljós, heyrðu röddina af himnum, hlýddu og vitjuðu barnsins. Að sama skapi skulum við ekki missa sjónar af þessu ljósi af hæðum sem enn skín við okkur.

Engill Drottins talar ugglaust til okkar með ýmsum hætti. Við þurfum bara að hlusta betur til að við heyrum í honum. E

n eitt er víst. Kristur er upprisinn og hann er bróðir minn og þinn, besti vinur barnanna, eins og við segjum í sunnudagaskólanum. Það er ekki hægt að eiga betri samferðamann. Hann er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Amen.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi er og verður um aldir alda. Amen.