Pólitískt brúðkaup...

Pólitískt brúðkaup...

Úff! Þetta er nú meiri textinn! Þetta er með því ofbeldisfyllra sem Jesús segir, og ef Guð er svona eins og konungurinn í sögunni, viljum við þá trúa á þannig Guð? Er Guð virkilega bara eins og einhver fornkóngur í mið-austurlöndum, sem refsar þegnum sínum með harðri hendi fyrir mótþróa? Hvað er það annars með þessa tilhneigingu að samsama Guð alltaf við valdamesta karlinn í dæmisögum Jesú? Getum við kannski lesið þessa sögu öðruvísi? Er Guð kannski einhvers staðar annars staðar í sögunni?

Úff! Þetta er nú meiri textinn! Þetta er með því ofbeldisfyllra sem Jesús segir, og ef Guð er svona eins og konungurinn í sögunni, viljum við þá trúa á þannig Guð? Er Guð virkilega bara eins og einhver fornkóngur í mið-austurlöndum, sem refsar þegnum sínum með harðri hendi fyrir mótþróa? Hvað er það annars með þessa tilhneigingu að samsama Guð alltaf við valdamesta karlinn í dæmisögum Jesú? Getum við kannski lesið þessa sögu öðruvísi? Er Guð kannski einhvers staðar annars staðar í sögunni? Samfélagið sem Jesús lýsir í þessari dæmisögu er ekkert fyrirmyndar samfélag. Þetta er ekki samfélag þar sem allt er í friði og spekt. Þetta er samfélag þar sem allt er í logandi ófriði. Kóngurinn sendir út boð til brúðkaups. Slíkar veislur eru ekki bara einhver fjölskylduboð. Í brúðkaupum er verið að sameina ættir, jafnvel sameina konungsríki, og þau sem eru boðin lýsa yfir hollustu sinni við konunginn með því að þiggja boðið. Þau sem ekki þiggja boðið, og ganga jafnvel svo langt að drepa sendiboðana, gera um leið opinbera uppreisn. Og kóngurinn hikar ekki við að berja uppreisnina niður harðri hendi. Konungsríkið er staður þar sem ofbeldið ræður för, þar sem engin grið eru veitt. Minnir mig svolítið á Game of Thrones, fyrir ykkur sem þekkið þá þætti.

Og við hugsum: ,,Þetta er nú svo langt frá okkar raunveruleika. Við búum við öryggi, við búum í siðmenntuðu þjóðfélagi þar sem við þurfum ekki að lýsa hollustu okkar við einhverja ofbeldisfulla pótintáta. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur þótt við séum ekki sammála valdhöfum, við getum gagnrýnt þá án þess að vera í hættu, við erum frjáls að skoðunum okkar, og því að lifa lífi okkar eins og okkur sýnist”. Það getur vel verið. En við vitum það að það eru ekki allir í heiminum jafn heppnir og við. Ofbeldið ræður ríkjum víða um heim, það er augljóst af fréttum, Sýrland, Yemen, mörg ríki í Afríku...

En þetta er allt úti í heimi, það er allt í lagi hjá okkur... Er það? Það er nefnilega ótrúlega margt í okkar menningu sem lofsyngur ofbeldið. Bara í afþreyingarmenningunni, í bíómyndum og sjónvarpi eru hinar ofbeldisfullu hetjur lofsungnar. Löggan sem fer ekki eftir lögum og reglum til að ná sér niður á ógeðinu sem framdi glæp og sleppur nema einhver grípi til sinna ráða. Frelsishetjurnar (sem oftast eru vestrænir njósnarar eða hermenn) sem bjarga heilu og hálfu samfélögunum frá hræðilegum örlögum. Konan sem gerir sig gildandi í karlaheiminum með því að kýla einhvern kaldan og sýnir þannig að hún er jafnfær um að beita einhvern ofbeldi og karlar. Og við hugsum innra með okkur: ,,Jess! Gott að einhver gat stoppað ofbeldið”. Og við erum algjörlega gagnrýnislaus á það að skilaboðin sem við fáum eru þau að ofbeldið er aðeins stoppað með meira ofbeldi. Og þetta er farið að smita út frá sér. Við sjáum alls kyns hættumerki, frambjóðandi til forseta Bandaríkjanna hikar ekki við að hóta beitingu ofbeldis, og samþykkja jafnvel ofbeldi á eigin kosningafundum. Flóttamenn eru beittir ofbeldi þegar þeir reyna að bjarga lífi sínu. Og ég er ekki bara að tala um glæpamennina sem hrúga fólkinu í bátana eða selja börnin sem lifa af í kynlífsþrælkun. Stjórnvöld senda her og lögreglu til að taka á móti þessu fólki með harðneskju til að verja landamæri sín. Meira að segja fréttamenn hafa orðið uppvísir að beitingu ofbeldis mitt í hringiðunni. Því miður er ofbeldið allt í kringum okkur.

Aðalmarkmið konungsins í dæmisögunni var ekki að gleðja þegna sína eða veislugesti. Honum var sama hverjir væru þar, hans eina markmið hans var að verja heiður sinn. Að hafa veislugesti sem sýndu hann í góðu ljósi, voru tilbúnir að klæðast brúðkaupsklæðunum (sem hann skaffaði, takið eftir), og spila með. En það var einn veislugestur sem ekki spilaði með. Hann tók ekki þátt, klæddist ekki veisluklæðunum. Er það kannski þarna sem Guð er að finna? Er þetta Himnaríki í dæmisögunni? Er veislugesturinn sem er undantekningin, kannski Jesús sjálfur? Sá sem þáði boðið, kannski með semingi, kannski með óbragð í munninum, en átti engan annan kost, frekar en Jesús átti kannski þegar Guð sendi okkur hann. En sem var alls ekki tilbúinn að lýsa hollustu sinni við samfélag sem byggir á ofbeldi og kúgun. Sem var ekki tilbúinn að klæðast brúðkaupsklæðum konungsins, og samþykkja þar með gerðir hans og aðferðir? Örlög veislugestsins voru ömurleg. Og ofbeldisfull. Alveg eins og örlög Jesú. Og alveg eins og örlög margra á hinum ýmsu tímum og stöðum, sem ekki eru tilbúin að samþykkja ofbeldi og kúgun. Fólk sem ekki er tilbúið að berjast gegn ofbeldi með ofbeldi, heldur þolir frekar þjáningar til að vinna að réttlæti og friði. Og það er þetta fólk sem er hinar raunverulegu hetjur. Ekki hermennirnir eða lögreglumennirnir. Heldur fólk eins og Mahatma Gandhi. Fólk eins og Malala Yousafsai. Desmond Tutu. Þetta er fólkið sem skrifar nöfn sín á spjöld sögunnar og fólkið sem fær raunverulegan sess í hjörtum okkar. Hvar erum við í þessari sögu? Við erum nefnilega öll í þessu brúðkaupi. Við eigum engra annarra kosta völ. En við höfum val um hvort við lýsum hollustu okkar við ofbeldis- og neyslumenningu samtímans, eða hvort við neitum að klæðast brúðkaupsklæðunum og förum okkar eigin leiðir. Það fylgir því áhætta. Ekki svo mikil fyrir okkur hér eins og er, en hver veit, ef öfgaöflin ná nægilegum styrk? Þá gæti það jafnvel þýtt mikla áhættu fyrir okkur að rísa upp og neita að lýsa hollustu okkar við ríkjandi öfl. Erum við tilbúin til þess? Ég veit ekki hvernig ég myndi bregðast við, hvort ég myndi hafa kjark. Og þú veist það ekki heldur. Ekkert okkar veit hvað í okkur býr fyrr en á reynir. Það eina sem við getum gert er að biðja Guð á hverjum degi að gefa okkur styrk til að breyta rétt. Því að við erum mörg kölluð en fá útvalin.

Dýrð sé Guði sem gefur okkur kjark og styrk til að berjast gegn ofbeldi og kúgun. Amen.