Aðfangadagur jóla 2007

Aðfangadagur jóla 2007

Vindurinn gnauðaði við þakskeggið lágt og raunalega – nærri því raunalegast af öllu fannst honum þó það, að jafnvel inn í þetta eymdarherbergi hans hafði læðzt einhver örlítill og óskiljanlegur ilmur af jólum.  Hafði hann borizt gegnum veggina með klukknahringingunni – eða blátt áfram orðið til úr engu? Nei, hann hafði orðið til í hans eigin sál, þar sem hann var geymdur – ódauðlegur, meðan líftóran entist.  Og þegar hringt var í síðasta sinn til kveldsöngs klukkan sex, gat [Daníel Davíðsson] sögupersónan í þessari sögu, ekki legið kyrr í rúminu lengur.

Hann fór að klæða sig.  Hann vissi ekki, af hverju það var, en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum fór hann í bestu spjarirnar, sem hann átti til.  Hann kemdi hár sitt og skegg, þetta dökkbrúna, þunna alskegg, sem fór undarlega vel á fölu, teknu og mögru andlitinu.  Hann vissi ekki, af hverju hann gerði þetta – ef til vill aðeins til þess að hátta strax aftur. – Og um það bil er hringt var úr kirkju, fór hann út úr húsinu og lokaði á eftir sér.

Kuldagjóstur tók á móti sögupersónunni, einstaka stjarna blikaði í skýjarofinu – ekkert skemmtilegt jólaveður.  Hvert var hann eiginlega að fara?  Í þorpinu hans blikuðu ljós í öllum gluggum en út með firðinum var dimmt að líta, aðeins ein ljóstýra langt út frá.

Hann sneri sér frá ljósunum og hljóp við fót slóðina út með sjónum.

Hann var furðuhress.  Frostgolan var hressandi og myrkrið og kuldinn hrakti burtu frá honum jólailminn, þarna úti í nóttinni voru engin jól.

Það var aðeins þessi ljóstýra fram undan sem hann stefndi á – ljós sem stækkaði óðum – það var lampi sem hafði verið látinn út í glugga, bjart og fagurt ljós, dálítil Betlehemsstjarna, sem hann stefndi á.  Að vörmu spori var hann kominn að húsinu - og á sama augnabliki staðnæmdist hann.  Í húsinu bjuggu mægður, ung ekkja og sjö ára gömul dóttir.

Sögupersónan okkar staðnæmdist; nú var ekkert nema myrkur framundan.  Hann var nú alveg kominn að stjörnunni, - hinumegin við litla húsið var ekkert, aðeins tóm, - myrkur.

Þá heyrði hann eitthvert veikt hljóð innan úr húsinu – hann lagði við hlustirnar og það var ekki um að villast, það var barnsgrátur – inni í húsinu var barn sem átti bágt.  Barnið kallaði á móður sína, en hélt svo áfram að gráta.

Sögupersónan okkar tók í hurðarhúninn – það var ólæst – hann gekk inn og kom inn í hreina en fátæklega búna stofu.  Þar voru tvö rúm, og í öðru þeirra lá lítil stúlka með ljóst hár og hitaveikisroða í vöngum. 

Á borði milli rúmanna var lítið jólatré með marglitum kertum sem enn hafi ekki verið kveikt á.  Á borðinu var skál með sælgæti og eplum.

Litla telpan starði á komumann, skærum augum, hálfhrædd og afar undrandi.

,,Vertu ekki hrædd, litla stúlka,” sagði komumaður, ,,mamma þín kemur bráðum.” ,,Ég er ekki hrædd núna, “ sagði stúlkan, ,,því ég þekkti þig strax.” ,,Hvernig gastu þekkt mig strax?” spurði hann. ,,Mamma sagði mér, að þú myndir verða hjá mér, á meðan hún færi til læknisins,” sagði litla stúlkan, - ,,svo eru svo líkur myndinni.”

,,Jæja, góða mín, “ sagði hann, tók af sér trefilinn og settist á rúmstokkinn hjá henni.  ,,Svo þú hefur séð mynd af mér?”

Hann þóttist vita að stúlkan hefði óráð, og vildi reyna að róa hana, -  ,, heyrðu, lofaðu mér að halda í höndina á þér.”

,,Myndin af þér hangir þarna á veggnum,” sagði telpan.

Í ljómanum frá lampanum hékk mynd af Kristi í Getsamanegarðinum, ungum, fölum manni með jarpt alskegg, er renndi þjáningarfullum augum til himins í bæn. 

Honum hnykkti við, þetta kom svo sannarlega á óvart.

Litla stúlka rétti honum höndina og sagði:  ,,Fyrst þú ert kominn til mín, góði Jesús, þá lækna þú mig, ég hef svo mininn verk í brjóstinu og er svo illt alls staðar.”

,,Heyrðu, góða barn,”  sagði hann, ,,ég er ekki Jesús, síður en svo, en ég skal reyna að taka í höndina á þér og lækna þig.”

Litla stúlkan þagði og horfði á hann um stund.

..Ef þú ert ekki Jesús,” sagði hún svo,  ,,þá hlýtur þú að vera bróðir hans.” ,,Og fyrst þú ert bróðir hans, þá getur þú læknað mig.”

Svo rétti hún honum heitu höndina og lokaði augunum.

Skömmu síðar kom móðir telpunnar heim og læknirinn með henni. Þeim brá í brún að sjá hann sitja þarna við rúmstokk telpunnar haldandi í hönd hennar.  Hann hafði hlúð að henni og breitt trefilinn sinn ofan á handlegginn sem var undan sænginni.  Hann hreyfði sig ekki, þegar þau komu inn, aðeins leit til þeirrra, augnaráðið rólegt og þó glaðlegt.  Mildu r svipur var yfir fölu, þreytulegu andlitinu.  Traust barnsins hafði rekið voðann og vonleysið úr sál hans.  Þar ríkti nú friður.

Læknirinn skoðaði telpuna, sem nú andaði reglulega – sótthitinn virtist horfinn – og úrskurðaði að henni væri borgið.  Hann kvaddi og fór leiða rsinnar.

Unga konan settist á stól við borðið – undrandi, síst af öllu átti hún von á þessum gesti.

Hvorugt þeirra sagði orð.  Hún vissi ekki einu sinni, hvort hann tók eftir því, er hún kom inn aftur.  Hún horfði undrandi á þennan ógæfumann – sem var ekki lengur ógæfumaður.  Svo hvörfluðu augu hennar til myndarinnar á þilinu. 

***

Þessi saga er ein af fjölmörgum sem notar stef jólanæturinnar til þess að draga fram undramátt jólanæturinnar og atburðanna sem jólaguðspjall Lúkasar guðspjallamanns greinir frá.

Aðalpersóna sögunnar átti við ýmis vandamál fortíðarinnar að glíma og fann sér engan tilgang með lífinu. En eitthvað gerðist þessa jólanótt.

Undrin á Betlehemsvöllum fyrir 2000 árum endurtaka sig um hver jól með einum eða öðrum hætti.

Nýtt líf fæðist. Skuggar fortíðarinnar hverfa í birtu nýs dags. Lífið fær tilgang að nýju eins og hjá sögupersónunni okkar.

Kristur sem fæddist á jólanóttu birtist okkur dag hvern.

Við þurfum bara að leyfa okkur að sjá hann í náunga okkar og vonandi getum við hvert og eitt okkar verið einhverjum ljós af ljósi Krists, við getum a.m.k. falið náunga okkur og ástvini í bæn til Guðs um að hann leiði og styrki viðkomandi og aldrei að gleyma því að bæn beðin í Jesú nafni er bæn sem heyrist og með henni tendrast eilíft ljós sem lýsir líkt og stjörnuskinið á jólanóttu hinni fyrstu.

Góður guð gefi að ljós stjörnunnar miklu lýsi veg okkar og og að ómurinn af söng englanna hljómi fyrir eyrum okkar og minni okkur á að Drottinn Guð gaf okkur einkason sinn á Jólanóttu til þess að hann væri með okkur og deildi með okkur kjörum.

Gefum honum rúm í hjörtum okkar.

Dýrð sé Guði í uppphæðum og friður á jörðu með þeim sem hann hefur velþóknun á.

Guð gefi þér gleðileg jól. Amen. Bæn dagsins Drottinn Guð, gjafari allra góðra hluta, og upphaf gleðinnar. Með fæðingu Jesúbarnsins sendir þú bjartan geisla inn í myrkur jarðar. Gef að þetta ljós lýsi einnig hjá okkur. Lát það geisla í öllu sem við gerum, svo að við megum tigna þig og tilbiðja að eilífu. Amen.