Samhent samfélag

Samhent samfélag

Páll postuli minnir okkur á að hugtakið náð felur í sér meira en aðgerðarlaust viðhorf eða afstöðu. Miklu fremur er náð kærleikur í verki. Við sem eru kristinnar trúar fáum að taka höndum saman til að byggja upp mannvænna, lífvænna samfélag. Sem ráðsmenn sköpunarinnar er okkur einnig falið að gæta sköpunarverksins.

11_07_933367271_gbTRx-O

Allt sem lifir – Guðs góða sköpun – er hluti af heildstæðu vistkerfi, þar sem eitt er öðru háð. Manneskjan sem hluti þessarar heildar er óendanlega dýrmæt af þeirri einföldu ástæðu að hún er sköpuð af Guði og í Guðs mynd. Einmitt þess vegna hefur hún ekki ótakmarkað veiðileyfi á lífríkið í heild sinni.  Sem ráðsmenn sköpunarinnar er okkur falið að gæta sköpunarverksins.

Hér kemur díakonían til leiks. Hún er grundvölluð í trúnni á þríeinan Guð og mælir gegn sérhverju viðhorfi sem gerir lítið úr sköpuninni. Díakonían tekur stöðu gegn því að litið sé á lífríkið í heild sinni sem einhvern efnisheim sem manneskjan geti umgengist eins og henni sýnist, misnotað eða jafnvel eytt.

Hinn kristni einstaklingur er sér meðvitaður um návist skaparans í heiminum öllum eins og segir í Fræðum Lúters minni:

Ég trúi að Guð hafi skapað mig og alla hluti, hafi gefið mér líkama og sál, augu, eyru og alla limi, skynsemi og öll skilningarvit, og haldi því enn við; auk þess klæði og skæði, mat og drykk, hús og heimili, maka og börn, akur, fénað og öll gæði; sjái mér ríkulega og daglega fyrir öllum þörfum og fæðslu þessa líkama og lífs; verndi mig gegn allri hættu, og gæti mín og varðveiti mig frá öllu illu; og allt þetta af einskærri, föðurlegri, guðlegri gæsku og miskunn, án allrar verðskuldunar minnar og tilverknaðar. En fyrir allt þetta er ég skyldugur að þakka honum og vegsama hann, þjóna honum og hlýða. Það er vissulega satt.
Þessi trú er drifkrafturinn að baki díakoníunnar, það er hún sem hvetur hinn kristna einstakling til að taka höndum saman við hvern þann sem er reiðubúinn að byggja upp samfélagið sem við búum í. Og það er trú hins kristna einstaklings sem gefur henni/honum þor til þess að benda á hið illa, hverju nafni sem það nefnist, taka í hönd manneskjunnar sem á erfitt með að ganga óstudd og leggja líf okkar og sköpunina alla fram fyrir Guð í bæn.

Jesús Kristur varð hold, kom í þennan heim og minnti á að boðskapnum um Guðríkið fylgir kall til þjónustu við náungann. Hann tók sér stöðu við hlið hinna þjáðu, smáðu og talaði máli þeirra sem hafðir voru útundan. Frelsun, sáttargjörð, lækning sjúkra og uppörvun einkenndu þjónustu Jesú, díakoníuna. Mörgum kom á óvart það lítillæti sem Jesús sýndi og greinilegast er þegar hann þvær fætur lærisveina sinna. Þá stund má taka sem tákn um nýtt upphaf í sögu mannkyns, kristnum mönnum hins nýja samfélags er gefinn réttur til að verða Guðs börn, skapa samfélag í kærleika og gagnkvæmri þjónustu.

Allt frá upphafi kirkjunnar hafa einstaklingar innan hennar gert sér grein fyrir mikilvægi þess að taka við og halda áfram kærleiksþjónustu Krists í söfnuðum sínum. Þar hafa m.a. væntanlega eftirfarandi biblíutextar verið hafðir að leiðarljósi:

Ég hef gefið yður eftirdæmi að þér breytið eins og ég breytti við yður“ (Jóh. 13:15) og „eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður“ (Jóh. 20:21).
Fljótlega varð díakonían meginstoð í starfi kristinna safnaða um gjörvallt rómverska heimsveldið. Frásögnin af þjónunum sjö sem kosnir voru í söfnuðinum í Jerúsalem (Post. 6) sýnir hvernig kirkjan þurfti að takast á við markmið sitt um að veita öllum hlutdeild. Ef einhver varð útundan eða fékk minna þá var það áfellisdómur fyrir díakoníu safnaðarins. Díakonían varð þannig órofa hluti safnaðanna og kjarninn í siðferðilegum grundvallarreglum þeirra. En þar er náðin lykilatriði eins og hún er sett fram hjá Páli og felur í sér meira en aðgerðarlaust viðhorf eða afstöðu. Miklu fremur er náð kærleikur í verki. Þannig að sá sem vill vera Krists, hvíla í Kristi, fær að njóta náðar hans og er um leið falið að taka virkan þátt í elskuverkum hans.

Okkar sem störfum í kirkjunni í dag er að spyrja hvernig við ætlum að byggja díakoníuna frekar upp, hvernig díakonían geti í dag verið trú spámannlegri köllun sinni og þannig vogað sér að tala fyrir réttlátara og mannúðlegra samfélagi þar sem sköpuninni allri er sýnd sú virðing sem henni ber, sem Guðs góða sköpun.

(Þessir punktar urðu til við lestur á Diakonia in Context, nánar tiltekið íslenskri þýðingu ritsins sem ber heitið: ,,Þjónusta í síbreytilegu samhengi" og er aðgengilegt á vef kirkjunnar sem rafrænt skjal.)