Jólagjöfin

Jólagjöfin

Jólagjöfin sem Guð gefur, frelsarinn Kristur, Drottinn, er gjöf sem ekki verður frá þér tekin. Það er návist sem aldrei bregst. Í þeirri návist, umhyggju og ást eru þau sem við elskum, og eru hér hjá okkur nú, eða horfin inn í jólagleðina eilífu í birtunni hans, sem engan skugga ber á. Og sorgin og sársaukinn yfir brostnum vonum, svikum, sárindum og beiskju, vill hann líka umlykja friði sínum og fyrirgefningu. Reynum líka að koma auga á það.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
24. desember 2006
Flokkar

Blessa, Drottinn, jólafögnuð og jólafrið, og signdu jólasorg og söknuð barna þinna. Amen Í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda. Amen Guð gefi þér gleðileg jól! Hans náð og friður sé með þér og þínum.

Jólaguðsþjónusta sjónvarpsins er að þessu sinni send frá Áskirkju í Reykjavík. Kór og organisti Áskirkju og Magnea Árnadóttir flautuleikari, hafa séð um tónlistina og þau Una Mattý Jensdóttir og Jón Gunnar Zoega lásu lexíu jólanætur. Guð blessi þau öll sem á jólahátíðinni leggja fram góða krafta sína og náðargáfur hér í kvöld og annars staðar til að taka undir með englunum. Þau eru að bera áfram ljós og hljóma hátíðarinnar og vísa okkur veginn að jötu lausnarans. Það eru svo ótal margir sem gefa slíkar gjafir um þessi jól, sem endranær, og það vil ég þakka, heilum huga. Og eins skulum við hugsa í þakklæti til þeirra mörgu sem sinna skyldum sínum, vaka og vinna nú í kvöld og nótt, svo að við gætum notið friðar og helgi jólanna. Það má nefna löggæslu og slökkvilið, starfsfólk sjúkrahúsa, hjúkrunarheimila og heilbrigðisstofnana. Já, minnumst þessa fólks. Þar á meðal eru margir jólaenglar á ferð. Guð blessi það allt.

Nú erum við væntanlega búin að taka upp alla jólapakkana. Það hefur glatt okkur og yljað, sem og öll góðvildin og hjartahlýjan í, með og undir hverri gjöf, smárri sem stórri. Og allt er þetta hluti af stærra samhengi, þeirri stóru gjöf sem jólum er ætlað að vera öllum mönnum, heiminum öllum. Það skulum við íhuga á helgri nóttu.

Manstu þegar við vorum börn, manstu ekki eftirvæntinguna, tilhlökkunina eftir jólagjöfunum? Fannst þér ekki meira varið í hörðu pakkana en þá mjúku? Það fannst mér amk. Mjúku pakkarnir voru ekki eins vinsælir, jafnvel þótt hún mamma væri eflaust fegnari því sem mjúku pakkarnir geymdu, sokkaplöggum, nærfötum, peysum á vaxandi vösólfana sína. Hvaða skilning hafði maður á því?

Flestum finnst erfitt að ímynda sér jól án jólapakka, jólagjafa. Þó eru margir í heiminum okkar sem eiga jól, já og raunverulega jólagleði og fögnuð, án jólagjafa. En það eru engin jól á gjafar, þeirrar gjafar sem Guð gefur okkur „því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf!“ Þannig hljóðar „Litla biblían“ svokallaða, sem dregur saman kjarna þess sem Biblían boðar, já og það sem kristindómurinn snýst um, og jólin vilja segja þér. Það snýst allt um gjöf, óvenjulega gjöf. Frelsarann, sem er Kristur Drottinn, eins og englarnir nefndu hann á jólanótt, barnið í jötunni, gjöf Guðs til þín. Án hennar eru engin jól. En er það satt? Og er hún sönn, þessi undursamlegasta frásögn allra tíma, jólaguðspjallið, sem sjá má túlkað í fegurstu listaverkum heimsins, myndum, ljóðum, undursamlegustu tónlist, sagan um barnið í jötunni lágu? Sagan um höfund himna, hafs og geima, sem varð barn á jörðu, fyrir þig, af því að Guð elskar heiminn, elskar þig. Sagan um það, að hinn æðsti máttur, hið æðsta vald lætur sig varða líðan þína, hag og eilífa velferð, og gefur þér sjálfan sig að gjöf?

Er það satt? Því ef svo er, þá munu ekkert jólahald, engin svignandi veisluborð, engin umhyggja sem lögð var í umbúnað og prýði, engar gjafir í góðum hug, engin ást og engin umhyggja á neinu heimili, engin dásamleg jólatónlist, engar jólaklukkur í logdrífu jólanætur, mun nokkru sinni jafnast á við þennan einstæða sannleika, þá óviðjafnanlegu gjöf að Guð varð maður í Betlehem og er hér á jörð oss nær. Já, hjá þér, þar sem þú ert. Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn, frelsarann Krist. Hann varð bróðir þinn. Jólin fagna þeirri gjöf. Það er umbreytandi, ummyndandi gjöf.

Breska skáldkonan, George Eliot, segir frá Sílasi Marner, einmana og einrænum karli, sem hefur dregið sig æ meir inn í skel biturðar og reiði eftir að hann sem ungur maður var borinn röngum sökum. Hann flutti langt burt frá fjölskyldu og vinum og settist að í litlu, afskekktu þorpi og vann fyrir sér með vefnaði. Peningana sem hann fékk fyrir, geymdi hann vandlega. Í augum nágranna sinna var hann óttalegur nirfill og nískupúki, sem skeytti ekki um neitt nema peninga. Alla vega ekki um annað fólk. Það hafði valdið honum vonbrigðum, hann var brenndur, beiskur, reiður út í Guð og menn. En gullið breytist ekki. Gullið eitt getur veitt honum það öryggi sem hann innst inni þráir. Á vísum stað geymir hann gullið sitt, vandlega falið. En samt var gullinu hans stolið. Það var Sílasi hræðilegt áfall, nú var hann allslaus með öllu. Vetrarkvöld eitt ekki löngu síðar, hraktist lítil, móðurlaus stúlka inn í kofann hans Sílasar, í leit að hlýju og skjóli. Barnið skreiddist að eldstæðinu og lagðist þar og sofnaði. Sílas tekur ekki eftir þessu, fyrr en hann sér gullna lokka stúlkunnar glitra í birtunni frá eldinum. Og hugsuninni lýstur niður í huga hans: Gullinu hans hefur verið skilað aftur! Hann finnur hjartað í sér slá örar og reynir að snerta þennan endurheimta fjársjóð. En hann getur sig hvergi hreyft meðan gullhrúgan virðist stækka og glitra æ meir fyrir augum hans. Lokst tekst honum að teygja sig fram og rétta út höndina, en í stað þess að finna harðan, kaldan gullpening við fingurgóminn, snertir hann mjúkan, hlýjan hárlokk. Í undrun fellur hann á knén og lýtur yfir þennan leyndardóm: sofandi barn á gólfinu hans. Umhverfis andlit þess var logagyllt lokkaflóð.

Eitt andartak finnst Sílasi sem þetta væri hún litla systir hans, eins og hann minntist hennar úr bernsku. Einhvern veginn hræir þetta barn með honum sálarstrengi sem um langt árabil höfðu aldrei bærst – óm blíðu, og lotningar, og vitundar um vald sem er lífi hans æðra.

Barnið tengir þennan einmana mann við gleymda og grafna fortíð, þar sem hann naut trúar á Guð og ástar, vináttu og umhyggju annars fólks. Koma þessa ókunna barns inn til hans tengir hann á ný við mannlegt samfélag sem hann hefur snúið baki við og læst á í reiði sinni. Hann gengur barninu í föðurstað, og uppsker ást þess og umhyggju. En ekki nóg með það, þessi tengsl draga hann inn í önnur tengsl, vináttu og samfélag við annað fólk, já og við Guð, - samfélag sem er dýrmætara en gull.

Svona eru jólin. Þetta er mynd af því sem barnið Jesús gefur heiminum. Hann dregur fólk út úr einsemd sinni og inn í fjölskyldu Guðs lýðs, inn í samhengi umhyggju, trúar, náðar. Jólagjöf Guðs. Sjaldnast setjum við það á óskalistana okkar. Eitthvað annað er okkur ofar í huga alla jafna. Sílas hélt að gullinu hans hefði verið skilað aftur. Nei, það var ekki harði pakkinn sem hann hafði óskað sér, og það olli honum vonbrigðum í fyrstu að pakkinn var mjúkur viðkomu, - en hafði í för með sér nýtt líf, mildi, fyrirgefningar, framtíðar.

Í stað þeirra hluta sem við höldum að okkur skorti, gefur Guð okkur sjálfan sig, og fjölskyldu sína, engla og manna, að elska og annast.

Við höfum tekið við svo fallegum gjöfum í kvöld, gjöfum og kveðjum sem bera okkur svo mikla góðvild, umhyggju og kærleika, enn um þessi jól sem svo mörg fyrri jól. Og við finnum og vitum svo vel að við getum aldrei þakkað það til fulls. Réttum nú hlýja hönd þakklætis til þeirra sem hjá okkur eru í kvöld, og hlýja bæn og hugsun til þeirra sem fjarri eru. Dýrmætustu gjafirnar eru áreiðanlega ekki það sem pakkarnir geymdu, heldur það sem að baki bjó: Ást og umhyggja, vinátta og tryggð, návist þeirra sem okkur þykir vænt um, heilsa og þrek, þetta allt sem er svo mikilvægt. Og það er lán, það er okkur léð, og það tekur enda. Hin hljóða, heilaga jólanótt minnir líka á það, og á þau sem eru horfin frá okkur, á tómarúmið sem aldrei verður fyllt. Jólasorgin liggur svo nærri jólagleðinni.

Jólagjöfin sem Guð gefur, frelsarinn Kristur, Drottinn, er gjöf sem ekki verður frá þér tekin. Það er návist sem aldrei bregst. Í þeirri návist, umhyggju og ást eru þau sem við elskum, og eru hér hjá okkur nú, eða horfin inn í jólagleðina eilífu í birtunni hans, sem engan skugga ber á. Og sorgin og sársaukinn yfir brostnum vonum, svikum, sárindum og beiskju, vill hann líka umlykja friði sínum og fyrirgefningu. Reynum líka að koma auga á það. Þetta er nóttin helga, ólík öllum öðrum nóttum. Nóttin þegar himinninn snertir jörðina, nóttin sem lýsir eins og dagur, lýsir af Guði og návist hans, ómar af englasöng. Og barnið Jesús, frelsari heimsins, frelsari þinn, jólabarnið er komið inn til þín, svo oft munaðarlaust í veröldinni, leitar skjóls hjá þér. Opnaðu hjarta þitt og leyfðu því að snerta þig og blessa og gefa þér gleðina sönnu. Gleðileg jól.