Tilraunastofan Ísland - rótfesti í trú og þjónustu kærleikans

Tilraunastofan Ísland - rótfesti í trú og þjónustu kærleikans

Okkur er viss vandi á höndum Við stöndum ótryggum fótum og á ótryggum tímum bæði sem samfélag og sem einstaklingar. Hér ætla ég þó ekki að orðlengja efnahagsmál og afkomu þjóðar eða fyrirtækja í efnahagslegu tilliti heldur afkomu okkar sem einstaklinga og samfélags í persónulegu, andlegu og sálarlegu tilliti.

Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.“

Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: „Hvað er hann að segja við okkur: Innan skamms sjáið þér mig ekki og aftur innan skamms munuð þér sjá mig, og: Ég fer til föðurins?“ Lærisveinarnir spurðu: „Hvað merkir þetta: Innan skamms? Við vitum ekki hvað hann er að fara.“

Jesús vissi að þeir vildu spyrja hann og sagði við þá: „Eruð þér að spyrjast á um það að ég sagði: Innan skamms sjáið þér mig ekki og aftur innan skamms munuð þér sjá mig? Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina en heimurinn mun fagna. Þér munuð hryggjast en hryggð yðar mun snúast í fögnuð. Þegar konan fæðir er hún í nauð því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því að maður er í heiminn borinn. Eins eruð þér nú hryggir en ég mun sjá yður aftur og hjarta yðar mun fagna og enginn tekur fögnuð yðar frá yður. Á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður. Jóh. 16.16-23

Okkur er viss vandi á höndum Við stöndum ótryggum fótum og á ótryggum tímum bæði sem samfélag og sem einstaklingar. Hér ætla ég þó ekki að orðlengja efnahagsmál og afkomu þjóðar eða fyrirtækja í efnahagslegu tilliti heldur afkomu okkar sem einstaklinga og samfélags í persónulegu, andlegu og sálarlegu tilliti. Hvað svo sem okkur kann að hafa fundist um svo margt í uppgangi umliðins áratugar þá er hitt raunveruleiki að það sem var, er ekki, og svo margt okkur fannst við geta treyst sem gefnum gildum og staðreyndum, er ekki sem var. En hvenær það brast er svo önnur spurning sem kunnum að velja að svara hvert á sinn veg eftir reynslu okkar, yfirsýn og upplifun.

Um margt má draga samlíkingu á milli dagsins í dag og þess þegar friðurinn brast í upphafi síðustu aldar. En þá brást traust þekkingar og varna mannlegrar hugsunar fyrst um álfuna og síðan um að heita má heimsbyggð alla. Það endurtók sig síðan og bætti um betur, þó réttara væri hér að segja verr, um miðja öldina þegar allt fór aftur í bál og brand á þessum sömu menningar og uppgangssvæðum og teygði sig þá enn lengra en fyrra stríðið hafði gert. Það sem óhugsandi var - hafði gerst - og það ekki aðeins einu heldur í tvígang með svo hörmulegum afleiðingum sem frekast gátu orðið um heimsbyggð nærfellt alla. Nema kannski hér og á örfáum öðrum stöðum. Hér misstum við þó, og fjölskyldur týndra sjófarenda þekkja grimma hörmung þess þegar skipum var sökkt í hafi. Þær munu aldrei horfa framhjá grimmd þessa tíma og sama er um fleiri sem liðu aðskilnað og missi ástvina. En svo margir og mikill meirihluti íslendinga slapp vel og ekki aðeins það, heldur upplifði nýja vídd þegar efnahagur glæddist með auknu fjárstreymi og kannski má segja að þá hafi orðið fyrst til vísir að tilraunarstofunni Íslandi.

Samfélagið var hins vegar rótfest í gildum samstöðu, og samábyrgðar sem glæddust og efldust enn á fyrri hluta aldarinnar með uppbyggingu sveita og samfélaga undir kjörorði samvinnu. Ungmennafélög rifu upp staðnaðar sveitir og félagsstarf um ýmis þjóðþrifamál urðu til bæði til bæja og sveita. Þau sóttu kraft og þrótt til uppfræðslu og aftur til þeirrar vakningar hugsunar sem hafði blómgast um álfuna alla fyrir og um aldamótin 1900. Sú vakning hafði borist að einhverju leyti hingað fyrir tilstilli frumkvöðla endurvakningar menningar og þjóðfélags. Þetta var hreyfingin sem glæddi og nærði sjálfstæði og þjóðernisreisn og bar ávöxt með því að við fengum aukin áhrif í innri málum árið 1904, forræði þeirra árið 1918 og sjálfstæði í öllum málum Íslands árið 1944 svo aðeins nokkur ártöl séu tínd til.

En uppgangur eftirstríðsáranna hér var á meðal fólks sem enn mundi og þekkti að það var ekki sjálfgefið að eiga allt og ekki einu sinni tryggt að foreldrar gætu séð börnum sínum vel farborða eða húsaskjól. Og allt var lagt í að byggja upp þessa grunnundirstöður samfélagsins og þær styrktar með almennu mennta-, félags- og heilbrigðiskerfi sem rétti hlut allra. Hvert barn skyldi eiga kost þess að vaxa og dafna til alls þess sem Guð hafði fólgið í brjósti þess, óháð bakgrunni eða tímabundnum aðstæðum sinna nánustu. Mannvaxtar- og manngildishugsjónir blómstruðu í ljósi umhyggju og kærleika þess jöfnuðar að öll erum við sköpuð í ímynd og líkingu Guðs skapara okkar.

Kærleikurinn, virk umhyggja fyrir hinum minnsta okkar á meðal spann svo sterkan þráð og auðkenndi megindrætti samfélags okkar sem óx og dafnaði. Og þar kom að við fórum að taka þessu sem gefnum hlut. Upp rann samfélag sem fór að trúa á mátt sinn og megin, afl fjárstreymis til að liðka og hreyfa mikla efnahagsvél og skapa rými til stórtækari aðgerða en áður höfðu þekkst á svo almennum grunni sem varð.

Samstaðan, samheldnin, samtryggingin og traustið átti í vök að verjast fyrir þeirri sjálfhverfu trú að hver væri sinnar gæfu smiður. Það var þetta sem féll svo hart sem við þekkjum og Guð forði okkur frá þeirri villu að við reynum enn að komast fyrir horn og endurreisa eins og var. Það væri hörmulegt að þurfa enn að ganga í verra skipsbrot síðar eins og oftrúin á jákvæða virðandi og verjandi hugsun mannsins þurfti að gera með síðari heimsstyrjöldinni.

Já, það má draga samlíkingu hér og hún er ekki langsótt því um aldamótin 1900 trúðu menn því að uppfræðslan væri og yrði feyki nóg vörn fyrir því að þjóðir færu nokkurn tímann í svo stórfelld stríð að einstaklingar, fjölskyldur, héruð, borgir og lönd væru lögð að veði. En það varð engu að síður svo og ekki aðeins einu sinni heldur tvisvar og hefur sífellt verið í gangi með einum eða öðrum hætti upp frá því. Staðbundin og villt átök hafa fleygað að þjóðir, fjölskyldur og vini, og egnt þjóðir og þjóðarbrot gegn hvert öðru bæði nær og fjær. Hve mörg ykkar hér inni eigið ekki góðar friðsælar minningar frá Bled eða öðrum héruðum gömlu Júgóslavíu og minnist hlýs viðmóts fólksins á svæðum sem seinna hafa logað í hatri, ofbeldi og hinnar verstu mannillsku.

Á uppgangstímum seinni hluta tuttugustu aldar var okkur enn vörn í því að fólk mundi á skinni sjálfs sín hve skorturinn var sár og það átti rótfesti í áhundruða fræðslu og bænarækt heimilisguðrækni og trúræktar sem áréttaði kærleikann og fór ekki í grafgötur með syndina. Syndin þessi lævísa villu sem færir sér aðstöðu og aðra í nyt sjálfum sér til frama og eigin hagnaðar var tekin alvarlega. Ef mannfélag vil halda heilbrigði þá getur það ekki horft framhjá raunveruleika syndarinnar. En það getur varið sig með náungakærleikanum, þeirri afstöðu sem setur sér umhyggju að grunngildi sem ekki aðeins vekur og ver falli, heldur ræktar samfélag jöfnuðar og gengur óhrætt til nýrra verkefna og viðfangs.

Grunngildi kærleikans sækjum við í fordæmi hans sem ekki sótti inn í fínustu salina eða virðinguna eins og höfundur Hebreabréfsins áréttar svo glöggt í pistli dagsins í dag. Þar er líking dregin af því þegar fórnin er borinn inn um hliðið, inn í hið helgasta, að sæti Guðs í tjaldbúðinni þar sem aðeins fáir fengu að koma að, og þar var fórnin færð. En höfundur bréfsins áréttar að Kristur hafi liðið fyrir utan hliðið, í þessu tilviki vísar hann til borghliðsins. Jerúsalem er hin helga borg, hún helgaðist af sögunni sem lyfti einum hópi umfram annan í sköpuninni. Jerúsalem er ímynd tjaldbúðarinnar og lausnaratburðurinn, leyndardómurinn er klæddur í andstæðu alls þess sem virðulegt er með hinni auðvirðilegustu aftöku sem þekktist, krossfestingu. Lausnaratburðurinn, sem fullnaðist á þriðja degi, hann átti sér stað utan hliðanna, á svæði sem öllum heyrði til og öllum var opið og öllum verður ætíð opið. Ávöxtur hans takmarkast þá ekki heldur við borgina sem helgust hafði verið í hugum, menningar- og trúarlífi eins og höfundur bréfsins segir:

Því að hér höfum við ekki borg er stendur heldur leitum við hinnar komandi. Með hjálp Jesú skulum við því án afláts færa Guði lofgjörðarfórn, ávöxt vara er játa nafn hans. En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar. (sjá Heb. 13:12-16)

Og í guðspjalli dagsins er sýnd glíman við rökhugsunina, þessi sístæða glíma við þröngan ramma hinnar reynslubundnu hugsunar sem á oft svo erfitt með trúna. Hún vill skilja og helst búa til ramma til að flokka rétt og rangt, greina að satt og uppskáldað og elur þá trú að rót mannlegs vaxtar og velferðar liggi alfarið í þroskaðri mannlegri hugsun. Það er eins og það sem ég lýsti hér áðan um aldamótin 1900 og ekki ólíkt þeirri trú á mannlega kænsku sem íslenskt samfélag hefur hyllt umliðinn áratug eða meir.

Höfundur Guðspjallsins setur saman frásögn sína löngu eftir að atburðir hennar áttu sér stað. Hann hefur fyrir augum sér sagnbrot og lengri frásagnir af sömu atburðum sem hann leitast við að tjá enn betur í samhengi þeirrar reynslu sem fengin var. Það eru líkast til liðnir 6 áratugir frá dauða og upprisu Krists og hin guðspjöllin öll komin fram og fleira sem við höfum glatað í dag, en getum vænst að höfundi Jóhannesarguðspjalls hafi verið vel kunnugt um. Og hann dregur okkur inn í hráa reynslu lærisveinanna og fylgjenda Jesú allra. Þau gátu ekki meðtekið það sem hann sagði. Gátu ekki séð utan ramma reynslunnar og þess sem menn ráða og halda utan um. Hann sagði þeim fyrir að hann myndi hverfa þeim en koma aftur, að innan skamms myndu þau ekki sjá hann en aftur innan skamms sjá hann að nýju. En þau vissu ekkert hvert hann var að fara. Þau voru menn rétt eins og við. Þó lærisveinarnir og þau öll í kringum hann hafi reynt umbreytandi nærveru, kennslu og fordæmi hans, hans sem ekki hnikaði vegna ótta sem hann þó fann til, heldur talaði opinskátt við þau sem vald og yfirburðarstöðu höfðu, ef honum þótti þurfa. Þrátt fyrir það skildu þau hann ekki.

Þau höfðu upplifað þegar hann notaði kennslu sína og eigin persónu til að draga athygli fólks að því að á meðal þerra var ekki jöfnuður og svo mörg voru hjá sett vegna einhvers sem þau sjálf gátu ekkert haft með að gera s.s kyns síns, fjölskyldu eða heilsu. Hann gekk til sjúkra, sem voru aflokaðir frá samfélagi við aðra, hann hafði konur í nánasta hópi sínum og voru það ekki einmitt einnig konur sem var fyrstum falið að flytja upprisuboðskapinn. Hann lyfti aldeilis upp jafnstöðu þeirra við karla þó samfélagsstaða þeirra væri svo skert að þær voru ekki taldar gild vitni fyrir dómi, ekki var hægt að dæma á þeirra vitnisburði þó þær hafi séð afbrot framið. Hann var sífellt að græða rof í samfélagi barna sinna. Hann lét þörf mannsins barna, þeirra sem hjálp þurftu með, vega þyngra en kennisetningar hvíldardags og reglna um hreinsun. Hann áréttaði þar að ekkert er mikilvægara í augum Guðs en hvert mannsbarn. Breytni hans og kenning sýndi að umhyggjan fyrir hinum minnsta væri hið æðsta og hreinasta gildi, næst því að viðurkenna reglu sköpunarinnar, tilvist skaparans sem lætur sér annt um sköpun sína. Hann gekk til þess sem hafði fallið, rétti honum hönd sína og bauð að ganga áfram og endurnýjast til að verða verkamaður kærleikans í öllu sínu lífi. En hann skilyrti ekki hjálpina, kallaði aðeins til ábyrgðar, áminnti og hvatti.

Það var hryllilegur tími sem þau áttu þarna þessa daga frá sólarlagi föstudagsins til sunnudags, upprisudagsins sem þau þó áttu svo bágt með að meðtaka. Þeim var erfitt að umfaðma þennan nýja veruleika þess að látinn hafi veri leystur úr dauða, að endanleikinn hafi verið rofinn. Er það nema von að hugsuðurinn Páll hafi sagt að „það sem sé heiminum heimska sé hinum trúaða von og líf“. Hann notar þar líkinguna um heiminn yfir þennan ramma mannlegrar hugsunar sem trúin kallar á að menn rjúfi. Lífið er stærra en mannleg reynsla og rammi velferðar liggur ekki aðeins í þroska mannlegrar hugsunar, heldur í aðhaldi þess sem er stærri mannlegri hugsun og snertanlegri reynslu. Og það aðhald liggur í ákallinu – ákallinu sem segir: Haltu augum þínum opnum fyrir þörf náunga þíns. Leyfðu þér aldrei að breyta, hvorki í störfum þínum né í einkalífi, á neinn þann hátt sem ekki tekur tillit til áhrifa gjörða þinna á velferð samborgara þinna.

Já, náungakærleikurinn er ágeng krafa, ágengur veruleiki sem ekki verður vikist undan ef við viljum rækta gott og traust samfélag umhyggju og velferðar. Hann spyr hvort þú hafi hugsað til enda það sem þú er að fást við, hann leggur á þig skyldu en hann gerir einnig mun meira, því hann færir þér samfélag, hann færir þér traust og öryggi þess sem alltaf er til staðar og kemur inn í allar aðstæður lífs þíns ef þú kallar. Ef þú aðeins opnar fyrir endurnærandi og umbreytandi samfélag við hann í bæninni, bæninni sem er aldrei pöntunarlisti þess sem við viljum og ágirnumst sjálfra okkar vegna, þá kemur hann. Bænin er eflandi nærandi og græðandi samfélag við Guð sem leiðir okkur brautir sem við ekki sáum fyrir, kyrrir storm og stillir ótta, umbreytir einsemd til samfélags, til að græða þau sár sem skammsýni okkar hefur valdið, og fylla þau skörð sem blinda okkar hefur skorið milli manna og fjölskyldna.

Minnumst hver við erum og lærum að biðja til samfélags með leiðsögn og nærveru heilags anda og fyrirheitið er ykkar. Jesús sjálfur segir: Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður. (sjá Jóh 16:23)