Þegar enginn mætir

Þegar enginn mætir

Ég sat þarna og beið, og ekkert varð úr messuhaldi. Það var ekki annað að gera en að slökkva á kertum og ganga frá eftir sig, læsa svo kyrfilega dyrunum og keyra í burtu, daufur í dálkinn.

Einhver eftirminnilegasta messa á þeim tuttugu árum sem ég hef þjónað sem prestur, átti sér stað í Súðavík, bjartan sumardag 1998. Það er reyndar ofmælt að kalla hana messu. Hún fór aldrei fram, en allt var til reiðu eins og þar stendur. Dyrnar opnar upp á gátt, kveikt á kertum, sálmanúmer komin upp á töfluna, brauð og vín á altarinu og predikunin samin og útprentuð. Já, og svo hafði ég fyrr í vikunni, gert mér ferð í þorpið og hengt upp auglýsingar í Kaupfélaginu og Sparisjóðnum, eins og vaninn var að gera þegar svona lagað stóð til.

Enginn mætti

En enginn mætti. Ég sat þarna og beið, og ekkert varð úr messuhaldi. Það var ekki annað að gera en að slökkva á kertum og ganga frá eftir sig, læsa svo kyrfilega dyrunum og keyra í burtu, daufur í dálkinn. Var kominn heim rétt fyrir hádegið og að mér sóttu óþægilegar hugsanir. Það er ekkert skemmtilegt við svona uppákomu, hvað gerðist? Jú, vissulega búa aðeins um 250 manns í plássinu, þar af hluti sem sækir kaþólskar messur. En að halda í slíka erindisleysu er svipað því að bjóða til samkvæmis og sitja einn yfir veisluborðum án þess að nokkur gestur láti sjá sig. Fátt botnar þá ónotakennd sem slíku fylgir.

Það er líklega svipuð tilfinning sem situr eftir í huganum þegar guðspjall dagsins er lesið. Þar er sögð saga af konungi sem býður í veislu og enginn mætir. Og hér er ekki fjallað um nett svekkelsi sem situr lengi í minni, eins og í mínu tilviki, heldur þróast sagan yfir í frásögn af ofbeldi og mannvígum. Þeir sem voru á gestalistanum, misþyrma sendiboðum og sjálfur lætur kóngur drepa fólk og brenna borgir til grunna. Það er einhver ógn og skelfing yfir þessari frásögn sem stingur lesandann. Von er að spurt sé: Hvað er líkt með þessu og himnaríki?

Þetta er afar ólíkt þeirri hugmynd sem við gætum haft um hina æðstu sælu. Þó er alltaf þessi undirtónn þegar fjallað er um sjálft himnaríkið í ritningunni. Þar fylgir gjarnan með í sögunni, andstæðan – nefnilega orðalagið sem notað er, ,,grátur og gnístran tanna”. Eitthvað sem vísar til þess að allt sé með öðrum hætti en vera ber.

Útvalning

Að baki býr leiðarstef sem birtist okkur í Biblíunni, nánast frá upphafi til enda. Það er hugmyndin um útvalningu, hópur hefur fengið einhverja sérstaka stöðu. Já, Gyðingar voru jú útvalinn lýður. En það var ekki ávísun á forréttindi og munað. Nei, útvalningin gaf spámönnum Ísraels endalaust tilefni til gagnrýni þar sem þeir ömuðust við hegðun yfirstéttar og þeirra sem eitthvað máttu sín. Hinn útvaldi lýður stóð einhvern veginn illa undir nafni. Allir svo einkar mannlegir á svo einkar neikvæðan hátt.

Hrokinn og skeytingarleysið í garð náungans virðist hafa verið gegnumgangandi. Og erindið sem spámennirnir fluttu var ekki það að líf þeirra væri fyrirhafnarlaust, heldur þvert á móti virtust því fylgja miklar kröfur að vera hluti hinnar útvöldu þjóðar. Vonbrigðin virðast hafa verið af sama meiði sprottin og þau sem sóttu á mig þarna í Súðavík forðum daga, þó auðvitað í margföldum mæli hafi verið.

Þessa sögu lesum við gjarnan sem allegoríu um það tilboð sem kirkja Krists á við þig og mig. Messan er veisla, altarið er dúkað borð með þessum dýru krásum. Húsakynnin þar sem herlegheitin fara fram, köllum við kirkjuskip, með vísan til þess farkostar sem nafnfrægastur er í Biblíunni – Örkina hans Nóa. Þar voru valin út þau dýr sem áttu að verða hólpin, utan við ólgusjóinn. Kirkjuskipið köllum við einmitt þennan sal af sömu ástæðu.

Hingað koma þau sem útvalinn hópur, heilagur prestalýður, eins og postulinn orðar það. Skírð inn í kirkjuna, ekki útvalin út frá kynstofni eða ætt, heldur tekin inn í söfnuð Krists. En ritningin er skýr með það að valkostirnir í lífinu eru ekki allir góðir. Ákvarðanir okkar leiða ekki allar til blessunar og farsældar.

Heiðurssamfélag

Guðspjallið fjallar ekki um notalegt boð þar sem vinir koma saman til að gleðjast. Umgjörðin er samfélag fornaldar, þar sem heiðurinn liggur til grundvallar og boð af þessum toga er fyrst og fremst til staðfestingar á því hvort bandamenn standi undir nafni. Kóngur kallar eftir hollustu þeirra sem hann býður og augljóslega er eitthvað ekki með felldu í því tengslaneti sem hann reiðir sig á. Meðferð þeirra á þjónum hans er í raun ekkert annað en bylting þar sem þeir hafa sagt sig úr lögum við hann. Fyrir vikið verður borgarastyrjöld með þeim afleiðingum að konungurinn eyðir borgum þeirra. Byltingin er því kæfð í fæðingu.

En aftur beinast sjónir að veisluhöldum og gestgjafanum liggur á að fylla húsakynnin. Þegar svo hinir nýju gestir eru mættir, gefur auga leið, að þar kennir ýmissa grasa. Enn þrengist sjónarhornið og sagan tekur aftur á sig þennan ónotalega blæ – hvað var það við fatnað þessa eina gests sem ekki átti við? Já, af hverju birtist okkur ofbeldið aftur – í umfjölluninni um sjálft himnaríki?

Er þessi grimmi gestgjafi í sögunni, sjálft almættið? Er sögunni sjálfri ætlað að lýsa á harmrænan hátt siðum og samfélagi sem komið er langt út fyrir sinn ramma? Dæmisagan varpar fram þeirri spurningu hvort Guð bregðist við eins og konungurinn í sögunni, en hún svarar henni ekki. Vísast eru hinir óstýrlátu í frásögninni þeir hinir sömu og birtast okkur jafnan í ritningunni þegar gagnrýnin er sem skörpust. Hið trúarlega úrval, fræðimenn, farísear.

Það eru hinir útvöldu úr hópi hinna útvöldu sem einatt birtast okkur á síðum ritningarinnar, í röngum klæðum. Hjartað er uppfullt af hörku og dómi, hrokinn heldur þeim frá hinum sem þeir meta óverðuga og allt er það svo öfugt við fagnaðarerindið þar sem blindir fá sýn, veikir fá mátt og hinir undirokuðu fá uppreisn æru.

Þessi saga um himnaríki átti erindi til samfélags sem byggt var á ákveðnu formi og festu. Hún talar líka til okkar sem á okkar hátt erum útvalinn lýður. Ekki bara í hinum trúarlega skilningi, heldur forréttindafólk í heimsþorpinu. Það er auðvitað ótrúlegt að geta búa við þau gæði sem við fáum notið. Við þurfum ekki að amast yfir því en sagan um himnaríki er að sama skapi áminning um þá ábyrgð sem í slíku felst. Hvað gerum við í krafti þeirrar útvalningar sem við erum aðnjótandi.

Hér í gær benti aðalframkvæmdastjóri sameinuðu þjóðanna Ban Ki-Moon á stöðu okkar Íslendinga í hinu alþjóðlega samhengi og hann sagði okkur hafa ríkum skyldum að gegna, því orðstír okkar væri góður. Hann sagði það hlutverk okkar að tala fyrir sjónarmiðum réttarríkis, lýðræðis, mannréttinda, sjálfbærrar þróunar, baráttu gegn loftslagsbreytingum, gagnsæi og ábyrgð. Á öllum þessum sviðum njóti Ísland álits en um leið gerir þetta þær kröfur til okkar að við stöndum undir þeirri ábyrgð sem því fylgir.

Hvernig erum við sem lærisveinar Krists i stakk búin til að mæta heimi sem er ofbeldisfullur, eins og því er lýst í sögunni. Hvað gerum við þegar við skynjum neyð náunga okkar, þeirra sem ekki hafa fengið sama hlutskipti í vöggugjöf? Vandi fylgir vegsemd hverri. Eru klæðin okkar að sama skapi þau hinn réttu eða veljum við bara þau sem okkur hentar að íklæðast? Erum við í uppreisn gegn skapara okkar eða skynjum við þá köllun sem okkur er ætlað að fylgja?

Aftur til Súðavíkur

Það var víst enginn grátur og gnístran tanna þarna í Súðavík, þennan sunnudag þegar enginn kom í messu til mín. Messur eru jú eins konar veislur, með kertaljósi, veitingum, dúkuðu borði og allt klárt fyrir gesti og gangandi. Þvílík vonbrigði að enginn skyldi láta sjá sig!

Þegar komið var fram á þriðja tímann þann daginn hringdi síminn minn og elskuleg rödd spurði hvort það hefði ekki átt að vera messa. Jú, sagði ég önugur, það bara mætti enginn. En við vorum hérna nokkur, fyrir utan kirkjuna á þeim tíma sem auglýst var.

Jú, ég hafði víst afritað gamla auglýsingu og láðst að breyta tímasetningunni.

Messan átti samkvæmt því að vera kl. tvö en ekki ellefu. Svona er þetta stundum þegar eitthvað passar ekki við það sem á að vera. Að mér sótti bæði léttir og ami. Messusóknin í plássinu litla, reyndist ekki hrunin til grunna, ólíkt því sem ég hafði óttast, en mikið skelfing getur maður nú verið fljótfær stundum. Eftir stendur einhver eftirminnilegasta messa sem þó aldrei var haldin. Já, örlítil kennslustund sem líður seint úr minni og vonandi eflir skilning minn fyrir þeirri staðreynd að fólki verður stundum á í messunni. Hroki og dómharka eru afleitir förunautar í lífinu.