Andlegt efnasamband sem ekki má dofna

Andlegt efnasamband sem ekki má dofna

“Hvernig getur það verið,” sagði þessi maður þar sem hann stóð í miðri synagógunni, “að þú, Guð, skapari himins og jarðar, eigir þér samastað hér í samkunduhúsinu þegar Auschwitz er að finna nánast hér við hliðina? Já, hvar varstu eiginlega þegar synir þínir og dætur voru brennd til ösku á altari nazismans út um gjörvalla Evrópu? Og hvar varstu þegar faðir minn og móðir, sem ávallt leituðust við að fylgja boðum þinum í heilagleika, voru látin fylgja dauðagöngunni þangað til þau örmögnuðust og dóu – eða þegar systkini mín voru myrt? - Já, hvar varstu?

Guðspjall: Matt 5.13-16 Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum. Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.

Hrekkjavakan og Halloween

Um þessar mundir eru í kirkjunni þeir messudagar kirkjuársins sem kenndir eru við allar sálir og alla heilaga. Þessir dagar láta kannski ekki mikið yfir sér, þó þeir hafi verið við lýði hér á Íslandi um aldir – a.m.k. eru þeir ekki eins fyrirferðamiklir í þjóðlífinu og Halloween-hátíðin bandaríska, sem nú virðist vera farin að halda innreið sína í íslenskt samfélag og það sem aldrei fyrr. Sjálfur hef ég a.m.k. aldrei orðið eins mikið var við hrekkjavöku-stemningu hér á Íslandi eins og nú á þessu hausti. Hvert sem litið er á “feisbókinni” um þessar mundir er að finna ljósmyndir af fólki að skemmta sér með allskyns grímur og búninga, og sem aðallega virðist leggja sér til munns allskonar ógeðis-rétti og sýnist mér afhöggnir fingur einkum vera í hávegum hafðir og er þeirra neytt með því sem einna helst líkist einskonar blóð-ídýfu. Og allt er þetta gert í þeim ágæta tilgangi að skemmta sér í skammdeginu og er ekkert nema gott um það að segja. Ef við nú rétt sem snöggvast hugum aðeins betur að þessari hrekkjavöku, eins og farið er að kalla hana á íslensku, þá rekumst við fljótlega á að enska orðið, sem stendur henni til grundvallar er Halloween. Og ef við nú tökum okkur til og skoðum betur orðið “Halloween,” orðsifjafræði þess og skyldleika við önnur orð þá komumst við að því, að orðið “Halloween” er myndað af orðunum "all hallows eve" sem aftur felur í sér samdrátt á orðunum “all hallows evening” sem merkir “kvöld allra heilagra.” Það má því eiginlega segja, að hrekkjavakan sé nokkurskonar alþýðu-útfærsla á allra-heilagra-messu, og ef við horfum í þessu tilliti aðallega til Bandaríkjanna, þá er ekki loku fyrir það skotið að þar hafi sú útfærsla hugsanlega orðið fyrir áhrifum frá mið-ameríku og þá fyrst og fremst frá þeim mexíkóska degi sem nefndur er “dia de los muertos” sem merkir “dagur hinna dauðu” en það er forn hátíðardagur í menningunni þar syðra sem snýst að miklu leyti um að laða fram anda látinna forfeðra, og við þá iðju koma grímur og búningar mjög við sögu. Hrekkjavakan íslenska, sem greinilega er farin að ryðja sér til rúms hér á landi sem aldrei fyrr, og dregur fyrst og fremst dám af amerískum siðum og uppátækjum, er því ekki með öllu ótengd þeirri kristnu hefð, að minnast á allra sálna messu og allra heilagra messu, þeirra sem látin eru, en hinni kristnu hefð er m.a. ætlað að leiða okkur fyrir sjónir um leið og vetur gengur í garð og gróður leggst í dvala, að við mennirnir erum ekki eilífir hér á jörðu heldur dauðlegir. Það þarf því ekki að koma á óvart að hrekkjavakan snýst að miklu leyti um drauga og afturgöngur, ófreskjur og afmyndanir, því rétt eins og við messu allra sálna og allra heilagra er það dauðinn sem er í stóru hlutverki. Staðreyndin er því sú, að þrátt fyrir alla búningana, öll ærslin og alla gleðina og hátíðarstemninguna sem er að finna á hrekkjavökunni, þá býr alvara að baki – alvara sem minnir okkur á, að allt er í heiminum hverfullt og að einn góðan veðurdag muni okkur hverfa dýrð þessa heims. En einmitt vegna þess, að dýrð heimsins á eftir að hverfa okkur öllum og dauðinn mæta okkur, þá er mikilvægt að búa sig undir dauðann, og þann veruleika sem við þá munum standa frammi fyrir. Í því skyni, að læra af gengnum kynslóðum og þeim sem fetað hafa lífsins braut á undan okkur þá lítum við til baka og horfum til þeirra sem á undan okkur hafa farið og hafa varðað veg í svo mörgu tilliti. Sumir hafa gengið til góðs götuna fram eftir veg á meðan aðrir hafa staðið sig lakar og í guðspjalli dagsins erum við einmitt minnt á það með því líkingamáli sem höfundum biblíu-ritanna er svo tamt að grípa til, að við – hvert og eitt – erum salt jarðar. Þeirri áleitnu spurningu er svo varpað fram í guðspjallinu hvað gerist ef saltið dofnar. -Já, hvað gerist ef saltið missir bragð; með hverju á þá að selta það? Hvert á þá að fara til að bragðbæta og styrkja saltið? Ekki verður sú styrking sótt í annað salt, því það verður alveg jafn dauft. - Og hvað er þá til ráða?

Eiginleikar salts - og manns

Við hér í Kór Saurbæjarprestakalls fórum ásamt stjórnanda okkar, henni Zsuzsönnu Budai, til Kraká í Póllandi nú fyrir skemmstu og þar fórum við í skoðunarferð ofan í gríðarlegar saltnámur sem hafa verið nýttar af mönnum í hundruð ára. Og þarna gátum við séð hvað salt er í rauninni magnað fyrirbæri. Það er hægt að höggva það þannig til, að úr verða hin mestu listaverk. Það er líka hægt að bora sig þannig ofan í námurnar að hver hvelfingin taki við af annarri og jafnvel heilu dómkirkjurnar mæti manni. Og þannig var það einmitt þarna í saltnámunum í Kráká, hver göngin tóku við af öðrum og nýir salir og vistarverur birtust hver á fætur öðrum. Sumar voru dimmar og drungalegar en aðrar voru bjartar og fagrar og gerðu það að verkum, að maður hætti að vera áttaður á því, að maður væri lengst ofan í jörðinni; já nærri tveimur Hallgrímskirkjuturnum ofan í jörðinni. Og svo hefur salt vitaskuld margvíslegt notagildi. Salt er t.d. notað til að geyma og varðveita matvöru, því er ætlað að næra og styrkja húðina, og þá hefur það þá einkennilegu eiginleika að eins og draga í sig allt ryk – allavega hverfur allt ryk nálægt salti. Þannig má kannski segja, að saltið dragi í sig og beri syndir heimsins? Og svo má ekki gleyma því, að sérhvert saltkorn er ólíkt öðru. Hver einasti salt-krystall er öðruvísi en aðrir að útliti og lögun, en samt er eitthvað sem sameinar allt salt, og það getum við smættað niður í einfalda efnafræðiformúlu sem segir okkur að allt salt sé að stofni til efnasambandið natríumklóríð. En hvernig snýr þetta með saltið að okkur mönnunum? Í hvaða skilningi getum við verið salt? Gengur þessi myndlíking Jesú upp gagnvart okkur? Jú, myndlíkingin gengur upp að mörgu leyti því við mennirnir höfum marga eiginleika eins og salt. Við kryddum samfélag okkar, hvert og eitt, og við geymum og varðveitum – þó ekki matvöru eins og saltið – en við geymum t.d. margvíslegar hefðir og siði, sem næra bæði einstaklinga og samfélög. Og þá erum við ólík að lögun og útliti, og erum hvert og eitt eins og einstakur krystall, sem ekki verður ruglað saman við annan. Líkt og með saltið þá er líka eitthvað sem sameinar okkur. Við verðum hins vegar ekki smættuð eins og salt niður í eitt einfalt efnasamband, en hins vegar lítur kristin trú þannig á, að öll séum við sköpuð í mynd Guðs, og að því leyti erum við öll sem eitt og í einu andlegu efnasambandi við Guð, ef svo má að orði komast. En hvað gerist ef þetta andlega efnasamband dofnar? Já, hvað gerist ef myndin – sú mynd Guðs sem við erum sköpuð í – fer að verða þvæld, máð og ógreinileg? Með hverju verður hún þá framkölluð? Hér er að vísu ekki spurt um salt eins og í guðspjallinu, en samt er spurt á samskonar hátt um okkur mannfólkið, já hvert og eitt okkar. Hér er spurt um þá mynd sem liggur lífi okkar til grundvallar og gerir okkur að sönnu salti: Hvað gerist þegar við mennirnir hættum að gangast við grundvelli okkar, mennsku okkar og því sem við í upphafi vorum sköpuð til að verða? Verðum við þá ekki eins og reköld í lífsins ólgusjó; viljalaus verkfæri; handbendi allskonar hagsmunaafla og ólíkrar hugmyndafræði? Og hvað verður þá um okkur sem salt – eða myndina, sem við vorum sköpuð til að bera?

Auschwitz og útrýmingarbúðir nasismans.

Eftir að hafa farið austur til Póllands með kórnum nú í síðasta mánuði, þar sem við sum hver fórum í dagsferð til fanga- og útrýmingarbúðanna í Auschwitz, sem nú er búið að breyta í safn um Helförina, þá verð ég að segja, að þeir atburðir og sú hugmyndafræði sem þar bjó að baki hefur orðið mér stöðugt áleitnara og áleitnara umhugsunarefni. Hvernig getur það t.d. gerst, að ráðamenn heillar þjóðar útrými með köldu blóði stórum hluta sinna eigin þegna – og það vegna þess, að þeir teljast ekki af nógu góðum eða réttum kynþætti? Við skulum vera okkur vel meðvituð um það, að Nazisminn eða þjóðernissósíalisminn, eins og hann líka hefur verið kallaður, spratt ekki upp úr einhverju hugmyndafræðilegu eða trúarlegu tómarúmi, heldur átti hann sér rætur í hugmyndum sem þóttu byggja á áreiðanlegum vísindalegum grunni, og sem víða var gælt við og það bæði vestan hafs og austan. Þessar hugmyndir byggðu á túlkunum á þróunarkenningu Darwins, og gengu út á rétt hins hæfasta til njóta lífsrýmis umfram aðra. Hinn fremsti kynstofn átti því samkvæmt þessum fræðum allan rétt, á meðan aðrir kynstofnar voru einungis álitnir fyrirstaða sem varð að ryðja úr vegi svo hin hæfasta, rétta og besta framþróun gæti átt sér stað. Það var því fullkomlega réttlætanlegt í huga þeirra, sem þessar kenningar aðhylltust, að ryðja öllum þeim úr vegi sem ekki voru komnir eins langt á þróunarbrautinni. Og þeir sem þessar kenningar aðhylltust voru ekki bara einhverjir fáeinir brjálaðir nazistar, sem höfðu mikil völd á hendi; nei, þessar kenningar áttu sér nefnilega hljómgrunn og réttlætingu á meðal hálærðra lækna og vísindamanna, sem áttu sumir hverjir eftir að stuðla að því að hinum óæskilegu væri rutt úr vegi í nafni þess, sem þeir töldu vera hið sanna, fagra og fullkomna – svona brenglaður var þessi hugmyndaheimur sé horft á hann frá sjónarhóli kristinnar trúar, sem leggur áherslu á rétt allra manna til lífs. En hvernig gat þetta gerst? Hvernig gat það gerst að 6 milljónir gyðinga yrðu teknir af lífi – langflestir í útrýmingarbúðum - eins og ekkert væri og a.m.k. 5 milljónir manna af öðrum uppruna, eins og slavar og sígaunar, svo einhverjir séu nefndir?

Réttað yfir Guði

Í ágústmánuði árið 1979 sótti nefnd á vegum Jimmy Carter, þáverandi bandaríkjaforseta, útrýmingarbúðirnar í Auschwitz heim. Hlutverk nefndarinnar var að fjalla um Helförina. Um kvöldið þegar komið var til baka frá Auschwitz fór fram helgiathöfn í einni af synagógum gyðinga í Kraká og þegar að því að kom að lesa átti upp úr Harmljóðunum í tilefni af sorgarhátíðinni, sem þá stóð yfir og haldin er í minningu um eyðingu Jerúsalem árið 587 f. Krist, þá gerðist það, að maður nokkur, sem var sá eini úr stórri fjölskyldu sem komist hafði lífs af úr útrýmingarbúðum nazista, tók að ákalla Guð hárri röddu í því skyni að átelja hann og ákæra. Maðurinn steig upp í “bímuna,” þaðan sem lögmál Gyðinganna er lesið í miðri synagógunni og tók á ensku til við að ásaka Guð um að hafa leyft öllum hörmungum stríðsáranna að gerast og þar með Helförinni: “Hvernig getur það verið,” sagði þessi maður þar sem hann stóð í miðri synagógunni, “að þú, Guð, skapari himins og jarðar, eigir þér samastað hér í samkunduhúsinu þegar Auschwitz er að finna nánast hér við hliðina? Já, hvar varstu eiginlega þegar synir þínir og dætur voru brennd til ösku á altari nazismans út um gjörvalla Evrópu? Og hvar varstu þegar faðir minn og móðir, sem ávallt leituðust við að fylgja boðum þinum í heilagleika, voru látin fylgja dauðagöngunni þangað til þau örmögnuðust og dóu – eða þegar systkini mín voru myrt? - Já, hvar varstu? Að þessum orðum sögðum steig maðurinn niður úr “bímunni” og gekk til konu einnar í hópnum, sem var gyðingurinn og helfarar-sagnfræðingurinn Yaffa Eliach og spurði hana hvort hún vildi taka til máls? Og Yaffa Eliach spurði sig hvort nú ætti að kalla sig fyrir sem vitni “saksóknarans” í þessu mjög svo sérstaka kærumáli, sem þarna var allt í einu búið að setja upp. Og eftir að hafa hugsað sig um smá stund, þá sagði hún: Nei, ekki ég. Ég á ekki í neinum útistöðum við Guð, einungis við menn. Og ég vil líka réttlæti og réttarhöld, en ekki hér í synagógunni og ekki heldur í Nurnberg eða í Frankfurt. Ég myndi hins vegar gjarnan vilja að réttað yrði yfir háskólunum og bókasöfnunum, sem í nafni vísinda og sannleika geymdu hatursorðræðu í garð fornrar þjóðar; og ég myndi vilja rétta yfir kirkjunum, sem leyfðu hatri að brjótast fram í boðskap sínum; og yfir tónlist þeirra Bachs og Beethovens, sem leyfði að hún yrði leikin á meðan systkin okkar voru leidd til slátrunar. Og ég myndi vilja sjá réttað yfir garðyrkjumanninum, sem ræktaði blóm undir þeirri sömu sól og skein á úlfhundana í Auschwits, og yfir lestarumferðarstjórunum, sem stjórnuðu umferð lestanna með litlu rauðu flöggunum sínum eins og ekkert hefði í skorist, og yfir læknunum í hvítu sloppunum, sem þrátt fyrir Hippokratesar-eiðinn höfðu ekkert fyrir því að taka fólk af lífi í þágu læknavísindanna. Ég myndi m.ö.o. vilja sjá réttað yfir þeirri menningu, sem álítur manninn algjörlega einskis virði. En að rétta yfir Guði? Á hvaða forsendu ætti eiginlega að gera það? Ætti kannski að gera það á þeirri forsendu að hann hefur gefið okkur mönnunum hæfileikann til að greina á milli góðs og ills?

Hæfileikar og ábyrgð Og þannig lýkur þessari umhugsunarverðu sögu, sem ég fann í bók, sem ég varð mér út um í gyðingahverfinu í Kraká. Og þessi saga geymir einmitt kjarna málsins, sem er sá að okkur hefur verið gefinn hæfileikinn til að greina að illt og gott, en einmitt vegna þess að okkur hefur verið gefinn þessi hæfileiki er ábyrgð okkar mikil. Ábyrgðinni verður ekki velt yfir á Guð, heldur verðum við sem salt og ljós hér í heimi að horfa í eigin barm og spyrja okkur sjálf að því hver við erum og hvað það er sem við aðhyllumst og viljum sjá sem grundvöll okkar lífsgilda. Orðum mínum hér í dag lýk ég svo á tilvitnun í Fyrra Pétursbréf, sem ber yfirskriftina “verið heilagir ” en þar segir:

Gerið…hugi ykkar viðbúna og verið vakandi.

Bindið alla von ykkar við þá náð sem ykkur mun veitast við opinberun Jesú Krists.

Verið eins og hlýðin börn og látið líferni ykkar ekki framar mótast af þeim girndum er þið áður létuð stjórnast af í vanvisku ykkar.

Verðið heldur sjálf heilög í öllu dagfari ykkar eins og sá er heilagur sem ykkur hefur kallað.

Ritað er: „Verið heilög því ég er heilagur.“

Guð gefi okkur öllum náð til þess, í Jesú nafni, svo að myndin, sem við í upphafi vorum sköpuð til að bera framkallist í lífi okkar. Amen!