Þar sem okkur ber að vera

Þar sem okkur ber að vera

Eins og Georg Bjarnfreðarson, þá hefur Ísland upplifað að umheimurinn hefur snúið baki við okkur, vegna framgöngu og viðhorfa okkar gagnvart öðrum. Við erum líka týnd og finnum ekki staðinn sem við viljum vera á.

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Ég ætla að tala um Ólaf Ragnar í dag. Og Jesú. Og Daníel. Og Georg. Ég ætla að tala um íslensku þjóðina. Og um Ísland og umheiminn.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Jólin eru fjölskylduhátíð, segir afinn um leið og hann ber í borðið svo allt leikur á reiðiskjálfi. Barnið sem situr með móður sinni og móðurforeldrum við jólamatinn á aðfangadagskvöld á meðan útvarpsguðsþjónustan ómar í bakgrunni og kertaljósin varpa mildum ljóma um herbergið, horfir á afann háværa og upplifir greinilega angist og hræðslu.

Móðirin og amman sitja samanhnipraðar og láta æsinginn í kallinum líða hjá, á meðan hann lýsir skoðunum sínum á framgöngu hins illa heimsveldis, sem nú sé farið að drepa börn, með því að hella á þau napalmi og kveikja svo í þeim. Við sjáum í augum barnsins að það er allt annað en hátíð í faðmi ástríkrar fjölskyldu sem það upplifir á þessari fjölskylduhátíð.

Þetta er svipmynd af bernskujólum Georgs Bjarnfreðarsonar eins og hana er að finna í kvikmyndinni Bjarnfreðarson.

Þeir sem hafa fylgst með þeim félögum í sjónvarpsþáttunum um næturvaktina, dagvaktina og fangavaktina, vita hvaða mann Georg hefur að geyma. Hann er óþolandi í stjórnsemi og besservissarahætti sínum, fullur yfirlætis og hroka því hann veit alltaf best – hann er jú með FIMM háskólapróf. FIMM.

Sjónvarpsþættir um vaktirnar og kvikmyndin hafa notið fádæma vinsælda hér á landi. Með henni lýkur þessari stórsögu um þremenningana, sögu um íslenskt samfélag. Þegar horft er yfir þáttaraðirnar þrjár og kvikmyndina kemur í ljós meginþráður sem er spunninn frá upphafi til enda: Samskipti foreldra og barna. Markaleysi og vandamál foreldranna koma niður á börnum og börnin feta í fótspor foreldranna. Þremenningarnir Georg, Daníel og Ólafur Ragnar eru börn sem fengu ekki að vera börn.

Kannski má líta á þennan bálk sem áminningu til samfélagsins um hættur í samskiptum foreldra og barna og ákæru á hendur þeim sem ekki standa sig. Það er líka áberandi að félagarnir þrír koma úr ólíkum áttum og standa fyrir ólíka hópa í samfélaginu.

Bjarnfreðarson er spegill af íslensku samfélagi og vekur til umhugsunar um hvernig við erum sem þjóð. Það eru fleiri sem spyrja sig þeirrar spurningar en kvikmyndagerðarmennirnir. Nýlega birtist á vefritinu Miðjunni viðtal við Vigdísi Finnbogadóttur. Hún lýsir þar áhyggjum sínum af ástandinu á Íslandi í dag og segir:

,,Um þessar mundir finnst mér að það ríki allt að því borgarastyrjöld á Íslandi. Hún er bara háð með orðum, ekki vopnum.  Oft hefur verið talað um að orðin séu beittustu vopnin. Þetta hryggir mig því nú finnst mér við eiga að standa saman sem einn maður og skilgreina okkur sjálf.  Hvað er það sem við viljum, hvernig land viljum við fyrir börnin okkar og barnabörnin.“

Hvað er það sem við viljum? spyr Vigdís forseti. Nú lítur út fyrir að þjóðin fái einmitt að segja vilja sinn þegar boðuð þjóðaratkvæðagreiðsla um nýju Icesave lögin fer fram í næsta mánuði. Þar gefst heilli þjóð tækifæri til að tala. Verður hlustað? Í öllu falli er óhætt að segja að atburðir síðustu daga hafa vakið athygli umheimsins á Íslandi, svo um munar.

Í breska blaðinu Financial times er í vikunni spurt hvers vegna Íslendingar séu svona reiðir vegna samkomulagsins um Icesave sem átti að festa í lög. Þar segir að hér á landi sé fjölmörgum misboðið vegna þess að almenningur eigi að greiða fyrir mistök bankamanna og eftirlitsaðila. Ekki sín eigin. Upphæðin nemi 40 þúsund sterlingspunda á heimili og muni setja alvarlegt strik í endurreisn efnahagslífs á landinu. Ísland sé bundið af evrópskum reglum um innistæðutryggingar en að gagnrýna megi þessi lög, þar sem þau eru óskýr. Bretland og Holland geri hærri kröfur en Íslandi beri að standa undir.

Í Financial Times segir að Ísland, Bretland og Holland eigi að deila ábyrgðinni sem skapast: Það sé óréttlátt að fámenn þjóð eins og Íslendingar beri ein af fullum þunga afleiðingarnar af máttlausu laga- og eftirlitskerfi í fleiri löndum og af ábyrgðarlausri og áhættusækinni hegðun bankanna.

Við þennan lestur og þegar við íhugum stöðuna sem komin er upp, sýnir það sig meðnýjum og nýjum hætti hvernig Icesave leysir úr læðingi spurningar og áskoranir sem krefjast að við lítum á okkur sjálf, á það hvað við höfum gert, á það hvar við eigum heima – og hvernig land við viljum skapa fyrir börnin okkar og barnabörnin. Okkur getur borið niður á mörgum stöðum:

Hugmyndafræði öfgafrjálshyggju og vanræksla við eftirlit. Ábyrgð á samningum sem efnt er til. Spillta kunningjasamfélagið sem hyglir klíkunni án tillits til hæfni. Ranglátt lána- og skuldaumhverfi þar sem stórveldi níðast á minnimáttar. Samskipti fullvalda þjóða. Samhengi sögu og stjórnmála. Staða Íslands í sögu og samtíð.

Samskipti Íslands við Evrópuþjóðirnar og sérstaklega Bretland og Holland eru eitt af því sem hefur með Icesave að gera. Í því sambandi þarf minni okkar að ná lengra aftur en til ársins 2007. Ísland er hluti af Evrópu og hefur alltaf verið hluti af evrópskri menningu og evrópskri sögu. Við viljum líta svo á að framlag okkar til miðaldabókmennta álfunnar sé nokkurs virði og rekjum samskipti okkar við Evrópuþjóðir á því sviði með stolti.

Tvö atriði, sem eru í fersku minni þeirra sem komnir eru yfir miðjan aldur, sýna hvað Íslendingar hafa í verki sýnt samstöðu með breskri og hollenskri þjóð. 1953 urðu mikil flóð í Norðursjó, sem ollu Hollendingum miklum búsifjum. Sama ár var efnt til almennrar söfnunar á Íslandi, til styrktar Hollendingum og safnaðist sem nemur um 22 milljónum króna. Stór liður í þeirri söfnun voru frímerki sem gefin voru út og gengu undir nafninu Hollandshjálpin. Þessi frímerki komust í fréttir síðastliðið haust þar sem þau ganga enn kaupum og sölum meðal frímerkjasafnara um allan heim.

Áratug fyrr höfðu íslenskir farmenn lagt sig í mikla hættu í svonefndum Englandssiglingum, þegar íslensk skip sigldu með fisk til að metta breska munna. Bretar höfðu sjálfir hætt fiskveiðum meðan styrjöldin geisaði og ferðir til og frá bresku eyjunum voru í uppnámi. Frásagnir þeirra sem tóku þátt í þessum flutningum, leiða í ljós hversu hættulegir þeir voru – og vissulega töpuðust íslensk líf í þessum mikla hildarleik.

Þarna lögðu Íslendingar sitt af mörkum í þágu annarra.

En við höfum líka lifað tíma þar sem Ísland hefur ekki teygt sig til frændþjóða með samstöðu og sameiningarþeli. Okkur er í fersku minni skammtímagróðamiðuð útrásarhugsunin sem litaði svo margt sem frá Íslandi kom um árabil, og af henni súpum við seyðið í dag – og um næstu framtíð.

Gleymum ekki okkar íslenskri ábyrgð þegar kemur að Icesave.

Hins vegar finnur reynsla íslensku þjóðarinnar í dag samhljóm með fjölda ríkja í þriðja heiminum sem hafa liðið vegna þungrar skuldabyrði við vestræn ríki, skuldsetningar sem í æ ríkari mæli hefur verið gagnrýnd harðlega fyrir siðleysi og ranglæti. Alþjóðleg kirknasambönd eru meðal þeirra stofnanna sem hafa beitt sér fyrir því að skuldarar og lánadrottnar deili ábyrgð af slíkum lánum. Þau voru oft tekin í þágu fárra en almenningur í fátækum löndum þarf að standa reikningsskil. Þjóðkirkjunni hefur formlega borist fyrirspurn frá lútherska heimssambandinu um þennan flöt málsins. Þar er minnt á þá sameiginlegu ábyrgð sem skapast í viðskiptum og á fjármagnsmörkuðum og samstöðu lýst við íslensku þjóðina í baráttu hennar fyrir réttlátri og sanngjarnri framkomu.

Ísland í þriðja heiminum. Þjóðin okkar með öðrum þjóðum. Hvar eigum við heima? Hvar ber okkur að vera?

Guðspjall dagsins fjallar um hinn rétta stað sem er gott að vera á og við tilheyrum. Þar segir af samskiptum Jesú við foreldra sína. Þau hafa leitað hans og eru orðin ráðvillt og hrædd um barnið sitt. Þegar þau hitta hann að lokum bregðast þau við af mikilli geðshræringu og með ásökunum. Móðirin eipar næstum því og spyr hann: Barn! Hví gerðir þú okkur þetta?! Jesús spyr á móti: Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?

Nú eru viðsjárverðir tímar á Íslandi og við erum öll svolítið týnd. Hver eru okkar viðbrögð við því sem er að gerast? Ásökum við hvert annað? Höldum við utan um hvert annað? Hvar er okkar staður? Hvernig finnum við hann?

Í viðtalinu við Vigdísi Finnbogadóttur berst talið að því hvernig við ræðum saman sem þjóð. Hún segir: “Ég hef vísað til Evrópuþjóðanna í þessu samhengi. Við Íslendingar erum bara ekki búin að læra þetta, að rökræða með virðingu fyrir skoðunum annarra – lýðræðið er ekkert annað en rökræða.“

Við þurfum að læra að tala saman og vinna saman. Aðeins þannig komumst við heil út úr þeirri kreppu sem nú ríkir. Kannski ekki ósködduð, en heil og á þann stað sem við viljum vera.

Getum við lært að tala saman þannig að við finnum leiðina heim? Hvernig bætum við skaðann sem hefur orðið í kærleikslausum og agalausum samskiptum við hvert annað?

Mér verður aftur hugsað til kvikmyndar Ragnars Bragasonar, um Georg Bjarnfreðarson. Það er magnað til þess að hugsa að aðstandendum kvikmyndarinnar tekst að láta áhorfandann fá samúð með og finna til í hjartanu yfir þessari persónu sem er líklega mest óþolandi og fáránlegasta persóna íslenskrar kvikmyndasögu – og þótt víðar væri leitað. Í myndinni fylgjumst við með og fáum dýpri sýn á sögu félaganna þriggja, þannig að við skiljum betur hvers vegna þeir eru eins og þeir eru, hvers vegna þeir flækjast inn í samskipti sem eru meðvirk og niðurbrjótandi og hvers vegna þeim tekst aldrei að vera eins og fullorðið, myndugt fólk sem stendur vörð um reisn sína og misnotar ekki aðra heldur sýnir þeim virðingu og tillitsemi.

Eins og Georg, þá hefur Ísland upplifað að umheimurinn hefur snúið baki við okkur, vegna framgöngu og viðhorfa okkar gagnvart öðrum. Við erum líka týnd og finnum ekki staðinn sem við viljum vera á. Georg fann barnið í sér aftur, í gjöfunum sem voru teknar frá honum og hann fékk ekki að taka utan af og leika sér með, og í sambandinu við föðurinn sem honum var meinað að þekkja. Barnið komst á staðinn sem því bar að vera á, í húsi föður síns.

Hver heldur bestu partýín? er önnur spurning sem heyrist í Bjarnfreðarsyni. Áramótaskaupið spurði sambærilegrar spurningar. Við Íslendingar höfum haldið góð partý – á Bessastöðum sem annars staðar – en nú er komið að tiltekt og skuldadögum. Getum við lagt okkur fram við að vinna að sáttum og uppbyggingu á landinu okkar, með því að standa fyrir okkar máli en án þess að gleyma eigin ábyrgð? Þannig komumst við þangað sem okkur ber að vera, á staðinn sem við erum örugg, í hús föður okkar.

Í guðspjallinu eins og í sögunni um Georg Bjarnfreðarson finnum við þroskasögu. Við vitum ekki hvernig þroskasaga Íslands mun líta út, en við vitum að við þurfum að skrifa hana saman. Við þurfum að horfast í augu við hvers vegna við sem þjóð flæktumst inn í markalaus og hættuleg samskipti um peninga, auðlindir og eignir. Við þurfum að sannfæra aðra um að okkur sé treystandi sem þjóð. Þetta verðum við að gera með hugrekki, heiðarlegu samtali og alvöru lýðræði.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleikur Guðs og samfélag heilags Anda sem með oss öllum. Amen.