Séð með augum annarra

Séð með augum annarra

Þegar við stöndum andspænis listaverki – þá fáum við einstakt tækifæri til að víkka út okkar eigin vitund og sjónsvið.

Litir

Já, það er unun að hlýða á passíurnar sem Bach samdi fyrir föstuna og passíusálmarnir eiga sinn sess hvað sem á gengur í samfélagi okkar. Liturinn í kirkjunni er fjólublár og segir sína sögu eins og vera ber. Hann er samofinn rauðum og bláum. Rauður er litur blóðs og heilags anda, sá blái táknar íhugun og dýpt sálar og heims. Svo má bæta við svörtum tónum sem minna á sorgina, óvissuna og myrkrið sjálft. Er annað hægt en að láta hrífast með?

Kirkjuárið sendir okkur í skilaboð með litum. Oftast eru þeir grænir og erum við þá minnt á það hlutskipti okkar að vaxa og dafna eftir því sem dögum og árum vindur fram. Jafnvel á banabeðinu er svigrúm til þroska. Þar er ekkert undanskilið. Hvítt er auðvitað hátíðin sjálf. Svart er andstæðan og rautt kemur líka fyrir stöku daga. Sá fjólublái umfaðmar meira. Það er eins og við séum minnt á að farsældin felst ekki í einhverju einu sem manneskjan helgar sig, ekki aðeins lærdómi, færni, ekki aðeins skapi og kappi, ekki aðeins dýpt tilfinninganna – heldur þarf að vera jafnvægi þarna á milli.

Sögur

Fastan er margslunginn tími og rætur hennar liggja langt aftur í sögunni. Eins og svo margt í þessari trúarmenningu okkar er landbúnaðurinn aldrei langt undan en upphafsreitur gyðingdóms og kristni er að sama skap sá staður þar sem fólk fór fyrst að rækta jörðina. Það þótti ekki góð búmennska borða mikið kjöt um þetta leyti þegar tómlegt var orðið í gripahúsum.

Betra var að leyfa þeim skepnum sem eftir voru að loknum vetri að lifa svo þær gætu af sér nýja gripi. Þá mætti viðhalda hinni eðlilegu hringrás lífsins. Og þar sem hillur í búri voru líka að verða tómar var að sama skapi ástæða til að gæta alls hófs að öðru leyti. Já, það er engin tilviljun að bollu- og sprengidagur koma rétt áður en fastan gengur í garð. Þarna var fólk að kveðja þessar krásir allt fram til þess sumartíð var í vændum.

Já, hvar byrjar hefðin? Biblían er uppfull af sögum sem gefa til kynna að ein hegðun sé annarri betri og að sitthvað sé eftirsóknarvert en annað beri að forðast. Þetta eru sögur – ákveðið listform sem er vafalítið jafn gamalt hinni viti bornu manneskju – homo sapiens. Sagan er magnað tæki til að koma boðum á framfæri, búa til sameiginleg auðkenni og í raun gera okkur kleift að vinna saman með einstökum hætti.

Frásögnin af því þegar Ísraelsmenn fóru um eyðimörkina er ramminn utan um hina gyðinglegu föstu. Og orðaskipti Jesú og freistarans þar sem sá fyrrnefndi dvaldi í eyðimörkinni þar sem hans var freistað, var kristnum mönnum tilefni til að fasta. Þarna var hagnýtt og í raun lífsnauðsynlegt athæfi staðfest með því að segja sögu.

Listformið sem sagan er lætur ekki að sér hæða og hér í lexíu dagsins fengum við eina slíka. Þetta er reyndar rosaleg saga sem umhverfist um það sem við getum líka sagt að sé einkenni vitsmunaveru. Það að færa fórn. Hvað er það? Jú, að láta af hendi eitthvað, tíma, verðmæti, gefa eitthvað af okkur í þeirri von að við fáum eitthvað meira síðar. Það krefst bæði aga og forsjár að fórna og við færum í sífellu fórnir í þessum anda. Þegar próf nálgast þá liggja nemendur yfir skólabókum og fórna skemmtun og útiveru. Svo þegar einkunnir koma þá kemur í ljós hver árangur var. Oftast er nú jafnvægi á milli fórna og árangurs. En stundum stöndum við ráðvillt og skiljum ekkert í því af hverju uppskeran var ekki merkilegri í ljósi alls erfiðisins.

Um það fjallar sagan um Kain og Abel. Hér er sagnalistinni beitt til hins ýtrasta og í knöppum texta er unnið með tilfinningar og mikil örlög. Kain færði stórar fórnir og fékk ekkert í staðinn. Abel fórnaði líka og Guð gaf gaum að fórn hans. Hvað er þar á ferð? Jú, er þetta ekki útlegging á þeirri beiskju sem getur gripið um sig í sálu okkar þegar við fáum ekki það sem við eigum von á? Guð í þessu tilviki er ekki ýkja réttlátur – nei hann er í raun duttlungarfullur og gefur engar skýringar. Niðurstaðan er bara þessi: Ekkert fékkst fyrir fórnina. Og í reiði sinni ræðast Kain að bróður sínum og vegur hann.

Já, þessir atburðir hafa oft endurtekið sig. Hvað var það sem knúði öfgamenn áfram í Þýskalandi í kjölfar fyrra stríðs? Jú, geigvænlegar fórnir og engin uppskera. Og sökinni beindu þeir að gyðingum og öðrum þjóðarbrotum sem báru þó enga ábyrgð á því hvernig komið var. Réðust ekki herir Bandaríkjanna inn í Írak eftir árásina á tvíburaturnana? Þó voru hryðjuverkamennirnir hreint ekki þaðan.

Íslensk hagsaga var á löngu skeiði, vitnisburður um fórnir sem færðar voru til lítils. Barátta verkafólks fyrir bættum kjörum skilaði ávinningi til skamms tíma en svo brenndi verðbólgan það upp og fólk sat aftur á sama stað, jafn illa statt en reiðin var mikil. Hvað gerit nú? Standa hópar eftir með þá réttlátu reiði sem læsir sig um sálina þar sem fórnir hafa engu skilað? Og upp úr henni getur svo margt óréttlætið sprottið. Það sýnir hin ævaforna frásögn um þá bræður, Kain og Abel.

Hitt dramað í textum dagsins eru samræður Jesú og Péturs, lærisveins hans. Það er í raun undirbúningur fyrir þann dag þar sem fastan er í hámæli – sjálfan föstudaginn langa þegar kirkjan heilsar með svörtum tónum. Fyrirheiti Péturs voru lítils virði og hann átti eftir að afneita Jesú. Hérna eins og í fyrri sögunni gægjumst við inn í dimma kima mannsálarinnar. Biblían fegrar ekkert í þeim efnum.

Sagan segir svo margt. Rétt eins og annað listform þá gefur hún okkur tækifæri til að skoða heiminn í gegnum skynfæri annarra, spegla okkur í tilfinningum fólks og þá um leið að víkka út hugsun okkar og skynjun. Þetta á líka við um litina, myndirnar og annað það sem birtist okkur hér í kirkjunni.

Sýning á Torginu

Nú opnar sýning Guðmundar Ingólfssonar ljósmyndara hér á Torginu í Neskirkju. Það er að vanda mikil eftirvænting þegar við fáum slíka listamenn í heimsókn og þeir deila með okkur af verkum sínum. Ljósmyndir þessar skiptast í tvo ólíka hluta. Annar þeirra sýnir tilkomumikið landslag. Hann fór um kunnar slóðir en leitaði að öðru sjónarhorni en mætir ferðafólki.

Fyrirbærin sem fanga athygli hans fara framhjá flestum þeim sem þar eiga leið um með myndavélar sínar. Listamaðurinn beið eftir réttu augnarbliki til að fanga þá mynd sem fyrir augun bar: augnsamband við hrúta, birtu sólar slær á fjallshlíð, skýjabakki hylur fjallstind. Það er líka eins og við skynjum hreyfinguna á himni, grasið sem bærist og skriður úr fjöllum.

Í hinum hlutanum hefur listamaðurinn farið inn í gamla olíu- og lýsisgeyma og sýnir okkur kyrrstætt og lokað rými. Gámarnir í Djúpuvík geymdu verðmæti sem aflað hafði verið með ærinni fyrirhöfn. Og nú er það ekki annað en minnisvarði um horfna tíma. Þar voru auðlindir náttúru fangaðar og geymdar. Nú minnir það að niðurnídda veislusali – minning um liðna tíma og hverfulleika þess sem mennirnir reisa.

Þegar við stöndum andspænis listaverki – þá fáum við einstakt tækifæri til að víkka út okkar eigin vitund og sjónsvið. Það kann að vera flötur með tilteknum lit og liturinn miðlar okkur einhverri menningu, einhverjum boðum sem við getum tekið til okkar. Sagnalistin skilur okkur eftir með heilabrot yfir frásögn sem kann mögulega að virðast vera fjarlæg kann við nánari aðgát að draga saman á hnitmiðaðan hátt kjarnaatriði í lífi fólks og sögu mannkyns.

Loks stöndum við frammi fyrir myndlistinni sem gerir okkur kleift að lifa þá töfra að sjá heiminn með augum annarra. Hvílík forréttindi sem það eru. Setur ljósmyndarans í náttúrunni, hugleiðingar hans um lýsi og liðna tíma fara í gegnum skynjun okkar á ferðalagi okkar sjálfra um lífið. Fer vel á því að opna þessa sýningu á fyrsta sunnudegi í lönguföstu þar sem hið gamla mætir hinu nýja og við stöndum frammi fyrir sístæðum viðfangsefnum, við mennirnir. Við virðinum heiminn fyrir okkur út frá ýmsum sjónarhornum og svo er það undir okkur sjálfum komið hvað við lærum og hvernig við vinnum úr því sem að okkur er rétt.