Leyfið börnunum að koma til mín

Leyfið börnunum að koma til mín

Börn eru líka fólk. Við eigum m.a.s. að taka börnin okkur til fyrirmyndar. Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma... Sakleysið, varnarleysið, traustið, þetta eru gildi Guðsríkisins. Þetta er það sem við eigum að meta mest í lífinu, og gæta sem best að. Við eigum að hlúa að varnarleysinu, við eigum að verja sakleysið og við eigum að treysta. Guði... En getum við treyst hvert öðru ?

Í kvöld heyrum við hér í guðsþjónustunni lög Bergþóru Árnadóttur við ljóð ýmissa íslenskra skálda. Textarnir hér í kvöld fjalla gjarnan um lítilmagnann, börn og dýr, hina undirokuðu og grimm örlög þeirra sem minna mega sín. Ritningartextar dagsins fjalla líka um lítilmagnann.

Jesús segir: Leyfið börnunum að koma til mín! Þöggun, meðvirkni, ótti, skeytingarleysi, grimmd. Þetta eru allt orð sem við höfum heyrt síðustu vikuna í tengslum við mál Karl Vignis Þorsteinssonar, sem hefur játað að hafa beitt börn og ungmenni kynferðislegu ofbeldi árum, og jafnvel áratugum saman. Enn og aftur verðum við sem samfélag uppvís að því að horfa framhjá því þegar hin minni máttar í samfélaginu eru beitt ofbeldi. Margir vissu um brot Karls Vignis. Margir vissu um ásakanir á hendur honum. Samt gerðist ekki neitt. Nema það að fleiri börn urðu fórnarlömb. Það sama gerðist í Hafnarfirði, þar sem allt samfélagið vissi að Telma Ásdísardóttir og systur hennar voru beittar kynferðisofbeldi árum saman. Það sama gerðist í Bretlandi, þar sem ótrúlega margir vissu að Jimmy Savile, frægur fjölmiðlamaður, misnotaði aðstöðu sína til að komast í kynni við ungmenni.

Leyfið börnunum að koma til mín! Börn eru ekki fólk. Börn eiga bara að sjást, ekki heyrast. Og þau eiga svo sannarlega ekki að vera til trafala þegar fullorðið fólk ræðir saman. Finnst mörgum . En ekki Jesú. Leyfið börnunum að koma til mín. Börn eru líka fólk. Við eigum m.a.s. að taka börnin okkur til fyrirmyndar. Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma... Sakleysið, varnarleysið, traustið, þetta eru gildi Guðsríkisins. Þetta er það sem við eigum að meta mest í lífinu, og gæta sem best að. Við eigum að hlúa að varnarleysinu, við eigum að verja sakleysið og við eigum að treysta. Guði...

En getum við treyst hvert öðru ? Þarna þarf hver og einn að líta í eigin barm. Er ég traustsins verð eða verður? Get ég sagt sem svo að ég verji sakleysið, standi skilyrðislaust vörð um þau sem minna mega sín, og taki ekki þátt í þöggun og samþykki ekki misnotkun með því einu að þegja um hana? Þarna höfum við kirkjunnar fólk þurft að líta í eigin barm og séð ýmislegt misjafnt. Við höfum lært af reynslunni. Og ég vil segja fyrir mig að ég vil gera allt sem ég get til að hlúa að sakleysinu. Gæta hagsmuna þeirra sem minna mega sín. Og reynslan hefur kennt mér og styrkt mig í því að gera rétt. En ég er breysk. Ég veit ekki hvaða kjark ég myndi hafa sem manneskja til að standa ein upp og tala máli lítilmagnans. Þess vegna er svo mikilvægt að við gerum þetta öll saman. Að við gerum með okkur þann samfélagssáttmála að taka ekki þátt í þöggun og meðvirkni. Að við styðjum við þau sem stíga fram, svo að þau missi ekki kjarkinn. Og að við komum í veg fyrir harmleiki, ekki eingöngu með refsigleði, heldur með forvörnum.

Feður! Reitið ekki börn ykkar til reiði heldur alið þau upp með aga og fræðslu um Drottin. Við eigum að aga börnin okkar. Búa þeim þann ramma sem hæfir þeirra þroska og getu og setja þeim þau mörk sem eðlileg eru. Og við eigum að aga sjálf okkur sem foreldra. Við berum ábyrgð. Ábyrgð á því að valda ekki með skeytingarleysi okkar og markaleysi þannig sársauka í uppvexti barnanna okkar að þau líði fyrir það. Og kennið þeim um Guð! Kennum börnunum okkar að það sé til einn sem er þeim alltaf nálægur. Sem þau geta alltaf treyst, jafnvel þegar við bregðumst trausti þeirra. Jesús segir: Leyfið börnunum að koma til mín. Vörnum þeim það eigi, en leyfum Jesú að taka börnin okkar í faðm sér og blessa þau.