Þetta er persónulegt!

Þetta er persónulegt!

Frammi fyrir upprisu Jesú getum við ekki glápt í gaupnir okkar og hvíslað: “Þetta er ekkert persónulegt.” Erindi Guðs, að gefa son sinn til að hver sem trúir á hann glatist ekki heldur eigi eilíft líf, á erindi við alla menn og því er ætlað að breyta lífi okkar og það frelsar.

Nótt eina biluðu öll staðsetningar-tæki um borð í stóru herskipi sem statt var úti á hafi. Reynt var að gera við þau en án árangurs. Um nóttina stóð skipstjórinn vaktina. Hann lét sigla skipinu löturhægt, því auk þess að myrkrið var eins svart og það gat orðið lá þoka yfir spegilsléttum haffletinum. Hann horfði út í nóttina og reyndi að koma auga á hugsanlegar hættur. Skyndilega sá hann ljós framundan sem virtist stefna beina leið að skipi hans. Enn var þó nægur tími til stefnu.

Til að afstýra árekstri stökk hann að talstöðinni, gaf upplýsingar um hver hann væri og bað þann sem nálgaðist skipið að breyta stefnu sinni, annars yrði árekstur.

Skipstjórinn varð heldur en ekki hissa þegar kæruleysisleg rödd í talstöðinni sagði: „Nei, karlinn minn. Þú skalt sjálfur breyta þinni stefnu! Yfir.“

Það þykknaði í skipstjóranum og hann urraði nú í talstöðina: „Heyrðirðu ekki hvað ég sagði: Ég er orustuskip!“

Og röddin í talstöðinni svaraði: „Kæri kafteinn þetta er ekkert persónulegt en þú verður að breyta þinni stefnu. Ég er viti.”

“Þetta er ekkert persónulegt”. Afskaplega notadrjúgur frasi. Við notum hann gjarna þegar við viljum leiða einhvern af rangri braut en gera það jafnframt á kurteisan hátt. “Þetta er ekkert persónulegt”.

Þannig gerum við gangskör að því að viðkomandi geti haldið sjálfsvirðingunni þó hann eða hún breyti um skoðun eða út af rangri stefnu í samræmi við leiðbeiningu okkar.

Frasinn: “Þetta er ekkert persónulegt” á vel við ýmis tækifæri en hann á ekki við í samhengi ritningartextanna sem við heyrðum í dag.

Frammi fyrir upprisu Jesú getum við ekki glápt í gaupnir okkar og hvíslað: “Þetta er ekkert persónulegt.” Erindi Guðs, að gefa son sinn til að hver sem trúir á hann glatist ekki heldur eigi eilíft líf, á erindi við alla menn og því er ætlað að breyta lífi okkar og það frelsar.

Fyrir viku síðan héldum við páska og fögnuðum þannig upprisu Jesú Krists frá dauðum. Við rifjuðum upp ferð kvennanna að tómri gröf. Gröf sem birti sigurinn yfir dauðanum.

Og í dag heyrum við frásöguna af því þegar hinn upprisni Kristur mætir lærisveinahópnum við Tíberíasvatn. Eins og endranær fylgdu honum undur og stórmerki. Fiskimennirnir úr lærisveinahópnum koma að landi eftir aflalausa nótt. Kristur gefur þeim fyrirmæli og báturinn verður drekkhlaðinn.

Undrið er samt ekki fólgið í því að netin fylltust af feitum fiski. Nei undrið fólst og felst í því að Kristur var og er sannarlega upprisinn og mætti þeim þarna á ströndinni raunverulegur og lifandi. Þarna var hann, sem gefið er allt vald á himni og á jörðu og snæddi með þeim fisk og ristabrauð að morgni dags, bróðir þeirra, vinur og persónulegur frelsari.

Meðan við virðum fyrir okkur í huganum lærisveinana að snæðingi með Jesú verðum við að muna að þótt þeir hafi verið glaðir í sinni, þegar þarna var komið við sögu, voru þeir engu að síður tættir á sálinni. Því fylgdu andleg átök að fara á einni svipstundu úr djúpum dal sorgarinnar og angistarinnar vegna dauða Jesú upp í hæstu hæðir gleðinnar vegna tómu grafarinnar.

Aldrei hefði þá grunað, föstudaginn sem Jesús dó á krossinum að sigur Guðs myndi snúa sorg þeirra í fögnuð.

Þér og mér er líka boðið í morgunverðinn við Tíberíasvatn. Það er að segja, samfélagið með hinum upprisna Kristi.

Ein af þekktari frásögum Biblíunnar fjallar um viðureign litla smaladrengsins Davíðs við risann Golíat. Líkurnar voru ekki með Davíð þar sem hann stóð, með trúna og fáeinar steinvölur að vopni og horfðist í augu við ógnina, gráa fyrir járnum. Þar bauð hinn smái en sókndjarfi ofureflinu byrginn og hafði sigur, drap risann. Við kunnum ef til vill ekki að vera á einu máli um boðskap þessa sögu, enda eru Íslendingar friðarins fólk og almennt á móti hernaði og mannvígum. Boðskapur sögunnar af Davíð og Golíat ristir samt miklu dýpra en svo. Öll eigum við nefnilega okkar Golíata í lífinu og þeir birtast í ótal myndum. Sumum birtist hann sem andlegir erfiðleikar, öðrum sem fjárhagsáhyggjur, vandi í samskiptum við þau sem við elskum eða angist yfir einhverjum orðum eða gerðum sem ekki verða aftur tekin, svo einhver dæmi séu nefnd. Þeir eru ekki auðfelldir þeir Golíatar og okkur finnst ef til vill sem steinvölurnar okkar missi marks eða drífi ekki alla leið í viðureigninni við þá, svona mannlega talað.

Snörur dauðans umkringdu mig, angist Heljar mætti mér, ég mætti nauðum og harmi. Þá ákallaði ég nafn Drottins: Ó, Drottinn, bjarga sál minni! Náðugur er Drottinn og réttlátur, og vor Guð er miskunnsamur.

Þannig yrkir höfundur Davíðssálmsins sem lesinn var sem lexía þessa sunnudags.

Þessi sálmur er persónulegur. Hann er svo persónulegur að auðvelt er að ímynda sér hann sem orð vinar sem deilir með okkur reynslu sinni af samfélaginu við Drottin. Að Guð hafi gefið honum nýtt líf, nýja von, verið endurreistur. Þannig reisir Kristur okkur við. Það gerist í gegn um samfélagið við hann. Ef þú þekkir það ekki af eigin raun, láttu á það reyna. Leitaðu Drottins af einlægu hjarta. Ákallaðu nafn hans. Það lætur kannski ekki vandann hverfa. Við þurfum enn að takast á við hann en samfélagið við Drottin hressir sálina og gefur styrk til að bera byrðar daganna.

Og þá að því sem einhver kann að vera að hugsa. Hvað var presturinn eiginlega að fara með þessari sögu um herskipið og vitann hér í upphafi?

Jú, orð Guðs er eins og viti. Það er til staðar til að leiða okkur og það er óhagganleg og örugg leiðsögn. Það breytir ekki um stefnu. Það er okkar að hlýða og breyta samkvæmt því.

Við getum líka sagt að Jesús Kristur sé eins og viti. Biblían kennir að hann sé hinn sami í gær og í dag og um aldir (Heb. 13.8).

Páll postuli segir í pistli þessa dags: Ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar.

Upprisa Krists er grundvallaratriði í kristindómnum. Þetta er persónulegt!