Kunnum við að þakka?

Kunnum við að þakka?

Kyrie eleison, Kriste eleison, Kyrie eleison var sungið fyrrum á grísku. Drottinn miskunna þú oss. Kristur miskunna þú oss. Þannig er miskunnarbæn kirkjunnar í upphafi guðsþjónustunnar og í dag tókum við með þessum hætti undir með kristinni kirkju allra tíma. Stef sem kristnir menn frá fyrstu tíð hafa sungið til að biðja Guð um að leggja við hlustir, til að biðja hann um líkn og náð.

Svo bar við á ferð hans til Jerúsalem, að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. Og er hann kom inn í þorp nokkurt, mættu honum tíu menn líkþráir. Þeir stóðu álengdar, hófu upp raust sína og kölluðu: Jesús, meistari, miskunna þú oss! Er hann leit þá, sagði hann við þá: Farið og sýnið yður prestunum. Þeir héldu af stað og nú brá svo við, að þeir urðu hreinir. En einn þeirra sneri aftur, er hann sá, að hann var heill orðinn, og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram á ásjónu sína að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur? Síðan mælti Jesús við hann: Statt upp, og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér. Lúk. 17.11-19

Kyrie eleison, Kriste eleison, Kyrie eleison var sungið fyrrum á grísku. Drottinn miskunna þú oss. Kristur miskunna þú oss. Þannig er miskunnarbæn kirkjunnar í upphafi guðsþjónustunnar og í dag tókum við með þessum hætti undir með kristinni kirkju allra tíma. Stef sem kristnir menn frá fyrstu tíð hafa sungið til að biðja Guð um að leggja við hlustir, til að biðja hann um líkn og náð. Og strax eftir ákallið um miskunn kemur bænasvarið í orðum englanna á Betlehemsvöllum þegar Guð fæddist sem maður á jörðu. Þá sungu þeir: „Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun yfir mönnunum”. Sama og við syngjum sem Dýrðarsöng í hverri guðsþjónustu til marks um traust okkar til fyrirheita Guðs. Svarið sem sífellt á að minna okkur á þá staðreynd að áður en við svo mikið sem orðum bænir okkar, er Guð búinn að svara þeim, í eitt skipti fyrir öll með syni sínum Jesú Kristi, frelsara mannanna.

Við skyldum ávallt minnast þess kæru vinir að orðfæri okkar og látbragð í guðsþjónustunni eru aldagamlar æfingar og margreyndar. Kristin kirkja þarf vissulega að vera vakandi fyrir anda hverrar tíðar svo hún staðni ekki. En hún þarf ekki síður að gefa gaum að anda liðinnar tíðar. Í þörf sinni fyrir stöðuga endurnýjun, nýjar léttar melódíur, má ekki kasta burtu orðfæri og hugsun liðins tíma sem alltaf eru góð og gild. Að mínum dómi er kirkja, án tengsla við upphaf sitt og sögu, veik kirkja, þjáð kirkja.

Í sögu Lúkasar í dag standa holdsveikir menn álengdar eins og segir í textanum og hrópa þessa sömu miskunnarbæn og við: „Drottinn miskunna þú oss”. Það vekur athygli að í þjáningunni eru þeir saman sem einn hópur þó ólíkir séu. Þar skilja þá engir mannlegir múrar, hvorki þjóðerni, tungumál, litarháttur né kynþáttur. Í þjáningunni eru þeir eitt og hrópa saman á Guð hárri raustu. Gæti það verið vegna þess að þjáningin hefur eitthvað í sér fólgið sem allir skilja? Jú, sjálfsagt. En gæti það ekki einnig verið vegna þess að þó ólíkir væru, voru þeir úrkast samfélagsins. Olnbogabörn samtíðar sem hafði svo lítinn skilning á sjúkdómum og setti þá næstum undantekningarlaust í samhengi við drýgðar eða ódrýgðar syndir, annað hvort þeirra sjálfra eða forfeðra þeirra og mæðra. Líkþráum var skipað að halda sig fjarri heilbrigðum almenningi vegna þess hve hroðalegur og smitandi sjúkdómur þeirra var. Án þess að nokkur gerði eitt né neitt til að aðstoða þá eða hjálpa. Enginn dregur lengi fram lífið sem veikinda sinna vegna getur ekki aflað sér lífsviðurværis né má umgangast nokkurn mann. Þannig mynda þeir hóp manna sem hafa sömu þrá. Þrá eftir að verða heilir að nýju. Prestar þess tíma höfðu það hlutverk að meta hvort líkþráir sem læknast höfðu, skyldu hafðir utan við mannlegt samneyti áfram eða hvort þeir fengu að umgangast fólkið sitt að nýju.

Mennirnir hrópuðu og frelsarinn heyrði til þeirra. Og nú brá svo við að þeir urðu hreinir, segir Lúkas guðspjallamaður svo skemmtilega. Það hefur vafalaust verið undursamleg tilfinning að finna sig heilan á ný. Hvað skyldi hafa beðið þeirra? Vafalaust hefur verið yndislegt að hitta ættingja og vini. Fá loks að neyta matar með þeim og sofa á sínu eigin heimili, í sínu eigin rúmi. Við vitum nú hvað það er gott, ekki satt kæru vinir? En Enginn mundi þó eftir því að koma við hjá Meistaranum sem þeir höfðu fyrir svo skömmu hrópað á í eymd sinni og neyð. Enginn utan einn útlendingur. Og það Samverji af öllum. Ætli hann hafi ekki notið jafn mikils álits á tíma frelsarans og Talibanarnir í Afganistan eða Al-Kaida skæruliðar um allan heim gera á Vesturlöndum nú.

Alveg er þetta nú dæmigert, frussum við útúr okkur. Hefði nú verið mikið verk fyrir þá að kíkja aftur á frelsarann til að segja þakka þér fyrir? Uss og svei. Hvílíkt vanþakklæti. Það er nú gott að við erum ekki svona. Við kunnum í það minnsta að þakka fyrir okkur. .....ja,... nema kannski þessi bílstjóri í gær sem flautaði eins og vitleysingur þegar ég var að reyna að gefa honum séns. Merkilegt hvað sumir verða ógeðslega miklir farisear undir stýri á bílnum sínum. Vita allt best og gera allt rétt. Mikið er gott að ég er laus við þann leiðinlega ósið.

Já, það er sannarlega gott að vera ekki eins og allir þessir hinir.

Könnumst við ekki öll við þetta. Það er stundum svo auðvelt að dæma aðra og láta eins og við séum svo ósköp góð sjálf. Við vitum samt alveg upp á okkur skömmina, ..... stundum, er það ekki? Ég veit í það minnsta með sjálfan mig. Ég á oft óþægilega auðvelt með að finna gallana þína, án þess að koma auga á mína eigin, sem ég veit þó að eru til staðar.

„Hvar eru hinir níu”? spurði frelsarinn. Fengu ekki allir lækningu og aðeins einn Al-Kaida skæruliði krýpur hér til að þakka fyrir sig.

Og hvað gerði Meistarinn? Tók hann lækningu hinna til baka? Urðu þeir aftur holdsveikir? Nei, í hans huga var það aldrei valkostur. En hann sá í þessari atburðarás hvernig mannsskepnan er þegar hún lætur stjórnast af: ‘ég, um mig, frá mér, til mín’, hugsuninni. Hann mátti svo sem vita það, en hann reyndi þó ítrekað, allt til dauðans á krossi. Reyndi að fá menn til að skilja að Guð var kominn í heiminn til að frelsa þá frá syndum sínum og til að gefa þeim eilíft líf með sér.

Og þetta er gjöf sem þarf að þakka. Í raun þarf ekki að gera neitt annað. Bara að kunna að þiggja og þakka. Það voru að vísu alltaf einhverjir sem heyrðu orðin og sáu verkin og virtust skilja en komu samt ekki til baka. Þeir voru tilbúnir að fá gefið, en ekki gefa sjálfir. Þeir voru önnum kafnir menn og óðara komnir í eitthvað sem skipti miklu meira máli en fylgja unga trésmiðnum frá Nasaret.

„Stattu upp og farðu leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér,” sagði hann í dag í samhengi við kraftaverk sitt á hinum líkþráu. Við opnum munninn til að spyrja, en orðin standa föst í hálsinum. Hvað meinar hann? Getur verið, að til þess að skilja hvað gefið er og jafnvel hver gjöfin er, þurfi að kunna að þakka fyrir sig. Það verði hreinlega að þakka fyrir sig svo maður skilji merkingu þess að trúa?

Já, þannig er það kæri vinur. Þegar við höfum þegið gjöf Drottins hver sem hún er þá eigum við að halda okkur í nálægð hans. Ef við ekki þökkum Drottni eins og honum ber, missum við öll tengsl við hann. Fagnaðarerindi þessa dags er það sama og allra hinna. Kristur er okkur gefinn án þess að við höfum um það beðið eða til þess unnið. Við höfum þegið gjöf skírnarinnar og verið merkt krossinum hans á enni okkar og brjóst. Hann einn þurfti að deyja á þessum krossi, einn fyrir okkur öll, en við njótum afleiðingar dauða hans, gjöf eilífs lífs um aldir og eilífð.

Þetta játum við með einum eða öðrum hætti í hverri guðsþjónustu og þökkum fyrir það með táknrænum hætti. Þess vegna er svo nauðsynlegt að koma í kirkju þegar þar er guðsþjónusta, að við eigum öll eftir að þakka fyrir okkur.

En nútíminn má ekki vera að því að þakka. Það liggur svo mikið á. Asinn er svo mikill. Kannski er það svo við náum að öðlast enn meira. Meiri auð, meiri völd, meiri áhrif. Við kunnum svo sannarlega að þiggja.

En hvaðan koma gæði heimsins og allt sem við þiggjum? Koma þau frá okkur sjálfum?

Kæru vinir, mikið getum við, það veit ég. En við ráðum samt ekki gangi sólar. Við getum borið á jörðina áburð en við gefum ekki vöxtinn. Við vitum kannski hvernig við eigum að ná honum fram, en við gefum ekki forsendurnar eða upphafið.

Það er nefnilega svo að áður en við komum við sögu, í öllum málum, alltaf, er Guð. Hann sem skapar regluna sem allt fer eftir með svo ótrúlegri nákvæmni. Höfum það í huga alla daga svo við munum hverjum þakka ber.

Matthías Jóhannesen rithöfundur og fyrrum ritstjóri kemst vel að orði í Sálmi á atómöld er hann segir:

BRJÓST mitt var ósáinn akur sem beið eftir regni,

Í þennan akur hafa margir sáðmenn dreift korni sínu.

Þegar ég var drengur signdi ég mig á brjóst og enni, áður en móður mín klæddi mig í kot og skyrtubol:

í nafni guðs föður sonar og heilags anda.

Nú er langt síðan.

En eins og blómin spretta úr moldinni þannig hefur orð þitt vaxið í brjósti mínu.

Við höfum öll þegið þetta sama orð og skáldið talar um. Við skulum varðveita það og láta það ávaxtast og ekki gleyma að þakka fyrir það alla daga lífsins.