Að muna og minnast

Að muna og minnast

Fortíð okkar og áföllum breytum við ekki, en við getum gert margt til að tryggja að tilfinningalíf okkar verði farsælt. Það er verðugt markmið að ná sáttum við atburði fortíðarinnar, jafnvel þá sem aldrei er hægt að afsaka eða fyrirgefa.
fullname - andlitsmynd Sigurvin Lárus Jónsson
01. nóvember 2013
Flokkar

Ég safna minningum. Við gerum það kannski flest, en ég bókstaflega safna minningum. Ég safna gömlum ljósmyndum og kvikmyndum úr fjölskyldunni og á það til að hafa samband við fullorðna ættingja í leit að fjölskyldumyndum af löngu látnum ættingjum. Mér finnst það heillandi viðfangsefni að læra um fólkið sem ég er kominn af, skoða hvernig að ættareinkenni birtast ítrekað á ljósmyndum og heyra sögur af hversdagsglímu fólksins sem lagði grunninn að minni eigin tilveru. Það eru margar dýrmætar ljósmyndir faldar í skókössum og sundurtrosnuðum myndaalbúmum eldra fólks.

Í dag er Allra heilagra messa en að fornum sið ber hana upp á 1. dag Nóvembermánaðar. Rætur þessarar hátíðar í frumkristni er sá siður að minnast þeirra sem gáfu líf sitt fyrir trúnna, píslarvotta kristindómsins, en frá siðbreytingu hefur dagurinn verið helgaður minningu þeirra sem látin eru. Við biðjum Guð að helga okkur minningar þeirra sem við höfum átt að og höfum misst.

Þær minningar sem búa í brjóstum okkar eru eðlisólíkar þeim sem festar eru á filmu, að því leiti að minningar okkar breytast með tímanum. Sorgarferli nefnist það úrvinnsluskeið, sem hefst við ástvinamissi og tekur á sig birtingarmyndir sem hægt er að kortleggja og eru flestum sameiginleg, stig afneitunar, reiði, samninga, depurðar, uppgjafar og sáttar. Þess ber að geta að sorgarferli er ekki línulegt og hefur ekki eiginlegan enda, sorgin býr ævilangt með þeim sem missir náinn ástvin, en þegar sorgarferli er farsælt nær syrgjandinn sáttum og minningarnar verða sársaukanum yfirsterkari.

Fortíð okkar og áföllum breytum við ekki, en við getum gert margt til að tryggja að tilfinningalíf okkar verði farsælt. Það er verðugt markmið að ná sáttum við atburði fortíðarinnar, jafnvel þá sem aldrei er hægt að afsaka eða fyrirgefa. Með auknum þroska kemur meðvitund um hversu vanmáttug við stöndum í lífinu andspænis áföllum, það er enga tryggingu að fá gagnvart áföllum, en við erum ekki vanmáttug í garð viðbragða okkar og úrvinnslu. Við stöndum ekki ein í lífinu, við megum þiggja útrétta hönd þess sem hefur skapað okkur og helgar líf okkar með kærleika sínum og við getum þegið hlýhug og nærveru þeirra sem standa okkur nærri.

Guðspjall dagsins, sem fengið er úr upphafi fjallræðunnar, hvetur okkur til að reynast hvert öðru slík nærvera.

Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.

Bjartar minningar um auðsýndan kærleika og hlýju, lýsa eins og ljós í huga okkar á stundum þegar við leitum huggunar í fjársjóði minninganna. Þannig minningar varðveitast hið innra, ekki sem ljósmynd eða röð atvika, sem hægt er að endurspila, heldur í þeirri vissu að við stöndum ekki ein lífinu.

Ég á slíka minningu af nærveru og hlýju manns, sem síðar varð til þess að ég gat óhræddur leitað á náðir kirkjunnar. Þegar ég var í fermingarundirbúningi í Dómkirkjunni var þar góðvinur föður míns, Hjalti Guðmundsson, prestur og hann hafði afgerandi áhrif á guðsmynd mína og mynd mína af kirkjunni. Verandi unglingur var ég of upptekinn af sjálfum mér til að muna í dag nema brot af því sem hann miðlaði til okkar og þaðan af síður gerði hann eitthvað merkilegt með okkur sem situr eftir í minningunni. En nærveru hans og kærleika gleymi ég aldrei og hvað hann hafði einlægan áhuga á því að vera með okkur fermingarbörnunum. Þannig leiddi hann mig áfram veginn til trúar, ekki með rökum eða orðum, heldur með því ljósi sem að lýsti af þessum hægláta manni.

Við vitum aldrei hvernig framkoma okkar í garð annarra situr eftir í minningum þeirra, en við getum á hverjum tíma leitast við að reynast náunga okkar ljós. Þegar litið er um öxl eru það ekki afrek eða gjörðir sem standa hæst í minningunni, heldur framkoma í okkar garð sem vakti þær kenndir að við skiptum þau raunverulega máli.

Á Allra heilgagra messu þökkum við þá elsku sem í brjósti okkar býr og biðjum Guð um að blessa minningar okkar um þau, sem snert hafa líf okkar með kærleika sínum og hafa skipt okkur raunverulegu máli.