Sálmabók

193. Á meðan engin mætir neyð

1 Á meðan engin mætir neyð,
á meðan slétt er ævileið
vér göngum þrátt með létta lund
og leitum ei á Jesú fund.

2 En þegar kemur hregg og hríð
og hrelling þjakar, neyð og stríð,
í dauðans angist daprir þá
vér Drottin Jesúm köllum á.

3 Hann harmakvein vort heyrir vel
og hastar á hið dimma él
og sveipar skýjum sólu frá,
öll sorg og kvíði dvínar þá.

4 En gjafarinn oss gleymist þrátt
þótt gæsku reynum hans og mátt.
Af gjöfum Drottins gleðjumst vér
en gleymum að oss þakka ber.

5 Sjá, ævin hefur enga bið,
þó enn er tími' að snúa við,
að flytja þakkir þeim sem gaf,
ei það má gleymast héðan af.

6 Því jafnvel skynlaus skepnan sér
hve skaparanum þakka ber,
um himingeiminn, lög og láð
hún lofar Drottins miklu náð.

7 Ó, stöndum eigi eftir þá
en aftur snúum þökk að tjá
og látum hljóma lífs með hjörð
hans lof og dýrð með þakkargjörð.

T Valdimar Briem – Sb. 1886
L Kempten um 1000 – Erfurt 1524 – Sb. 1589 – Weyse 1840 – PG 1861
(Komm, Gott Schöpfer, Heiliger Geist) / Kom, skapari, heilagi andi
Sálmar með sama lagi 141 158 401 91
Eldra númer 192
Eldra númer útskýring T+L
Biblíutilvísun Lúk. 17.11–19

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is