Sálmabók

434. Dagur líður, fagur, fríður

1 Dagur líður, fagur, fríður,
flýgur tíðin í aldaskaut.
Daggeislar hníga, stjörnurnar stíga
stillt nú og milt upp á himinbraut.
Streymir niður náð og friður,
nú er búin öll dagsins þraut.

2 Líður dagur, fríður, fagur,
færist nær oss hin dimma nótt,
stjörnurnar loga bláum á boga,
benda þær andanum vært og hljótt
til að dreyma' um hærri heima
hold á fold meðan blundar rótt.

3 Dagur fríður, fagur líður.
Föður blíðum sé þakkargjörð.
Glatt lét hann skína geislana sína,
gæskan hans dvín ei þó sortni jörð.
Góðar nætur, góðar nætur
gefast lætur hann sinni hjörð.

4 Eyðist dagur, fríður, fagur,
fagur dagur þó aftur rís:
Eilífðardagur ununarfagur,
eilíf skín sólin í Paradís.
Ó, hve fegri' og yndislegri
unun mun sú er þar er vís.

T Valdimar Briem, 1895 – Vb. 1933
L Andreas P. Berggreen 1854 – Sb. 1871
Her vil ties, her vil bies
Sálmar með sama lagi 100 241
Eldra númer 464
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is