Sr. Sigurvin Lárus Jónsson varði doktorsritgerð

15. júlí 2019

Sr. Sigurvin Lárus Jónsson varði doktorsritgerð

Dr. Sigurvin Lárus JónssonSr. Sigurvin Lárus Jónsson, prestur, varði nýlega doktorsritgerð sína „Jakob á meðal klassísista: Jakobsbréf lesið með hliðsjón af bókmenntarýni fornaldar.“

Sigurvin var í doktorsnámi við Árósarháskóla og dvaldi við rannsóknir við Emory háskóla í Atlanta, Georgíu (BNA) og háskólann í Münster í Þýskalandi.

Rannsóknin er þverfagleg á sviðum nýjatestamentisfræði og klassískra fræða. Jakobsbréf er eitt af ritum Nýja testamentisins og er líklegast eignað Jakobi bróður Jesú. Þegar frumtexti bréfsins er lesinn með hliðsjón af umfjöllun grískra höfunda um samband stíls og sannfæringarkrafts koma í ljós þættir sem ekki hafa verið skoðaðir áður.

Jakobsbréf inniheldur ljóðræn einkenni á borð við stuðla, rím og ljóðhætti (meter) og er eina rit Nýja testamentisins sem inniheldur sexliðuhátt (hexameter), sem þekktastur er úr hetjukvæðum Hómers. Þá er orðaforði og myndmál bréfsins annarsvegar sótt í grísku þýðingu hebresku Biblíunnar (Septuagintu) og ber hinsvegar samsvörun við rit grískra menntamanna, svo sem stjörnuspeki, náttúrufræði og ritskýringarverk um Hómer.

Þegar þessir þættir eru bornir saman við umfjöllun bókmenntarýna á borð við Díonýsos frá Halikarnassos, kemur í ljós samsvörun við gríska og rómverska menntamenn sem beittu slíkum stílbrögðum til að virka sannfærandi. Samanburðurinn gefur vísbendingar um að höfundur bréfsins sé að sýna fram á kennivald sitt á grundvelli menntunar til að bregðast við þeim vanda sem hann lýsir í bréfinu.

Eitt af meginstefjum bréfsins er ádeila á auðsöfnun og því ofríki sem fylgir þegar menn setja hagnað ofar manngildi. Höfundur bréfsins tekur af allan vafa í boðun sinni að „hrein og flekklaus guðrækni … er að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingum þeirra“ (Jakobsbréf 1.27) og að „Guð [hefur] útvalið þá sem eru fátækir í augum heimsins til þess að þeir verði auðugir í trú og erfi ríki [Guðs]“ (Jakobsbréf 2.5).

Með því að beita orðfæri og stílbrögðum menntamanna í gagnrýni sinni á auðmenn síns tíma, nær höfundur Jakobsbréfs að tala til þeirra úr augnhæð. Tungumál Jakobsbréfs er lykillinn að þeim sannfæringarkrafti sem höfundurinn setur fram en bréfið er skrifað í boðhætti og birtir eina beittustu ádeilu á misskiptingu gæða sem varðveitt er úr fornöld.

Doktorsvörnin fór fram 28. maí síðastliðinn og andmælendur voru René Falkenberg, lektor við Árósarháskóla, John S. Kloppenborg prófessor við Toronto háskóla og Oda Wischmeyer, prófessor emeríta við háskólann í Erlangen.

Kirkjan.is óskar dr. Sigurvini Lárusi Jónssyni til hamingju með lærdómsgráðuna.
  • Fræðsla

  • Frétt

  • Guðfræði

  • Menning

  • Samfélag

  • Fræðsla

  • Menning

  • Samfélag

Forsetahjónin og vígslubiskupshjónin við Hóladómkirkju

Afar vel sótt Hólahátíð

18. ágú. 2025
...forseti Íslands flutti Hólaræðuna
holarihjaltadal.jpg - mynd

Hólahátíð 2025: Forseti Íslands flytur Hólaræðu

12. ágú. 2025
Hólahátíð fer fram dagana 16. - 17. ágúst n.k. Halla Tómasdóttir forseti Íslands flytur Hólaræðuna að þessu sinni.
garpsdalskirkja2.jpg - mynd

Kirkjuklukkum á Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hringt samtímis til stuðnings íbúum Gasa

05. ágú. 2025
Fimmtudaginn 7. ágúst kl. 13:00 verða kirkjuklukkum dómkirknanna þriggja á Íslandi hringt og hvetja biskupar Íslands til þess að öðrum kirkjuklukkum verði hringt samtímis. Systurkirkjur Þjóðkirkjunnar í Noregi, Svíþjóð...