Presturinn er listamaður

16. júlí 2019

Presturinn er listamaður

Listaverkið Himnagáttir í kirkjugarðinum á Staðarstað

Nú stendur yfir athyglisverð myndlistarsýning á Snæfellsnesi sem ber nafnið Umhverfing. Verk rúmlega sjötíu listamanna sem tengjast Snæfellsnesi með ýmsum hætti eru sýnd allt frá Gestastofu Snæfellsness í Breiðabliki í Eyja-og Miklaholtshreppi og til Stykkishólms. Listaverkin eru af margvíslegum toga, málverk, höggmyndir, innsetningar og gjörningar. Verkin eru sýnd ýmist úti eða inni. Meðal listamanna er eiga verk á þessari umfangsmiklu sýningu eru Erró, Dieter Rot, Magnús Þór Jónsson (Megas), Ragnar Kjartansson, bæði sá eldri og yngri, Harpa Árnadóttir, Ásta Sigurðardóttir, Rúri, Jóhanna Hreinsdóttir, Peter Lang, sr. Jón Þorsteinsson, Helgi Þorgils Friðjónsson, Jón Sigurpálsson, og sr. Arnaldur Máni Finnsson, svo nokkrir séu nefndir.

Umhverfing er sennilega stærsta samsýning listamanna sem haldin hefur verið hér á landi.

Sr. Arnaldur Máni Finnsson, sóknarprestur á Staðarstað, hefur komið að undirbúningi sýningarinnar. Sjálfur starfaði hann að myndlist á árunum 2004-2008 og hefur haldið nokkrar sýningar. Hlaðan á prestssetrinu hýsir líka eitt listaverkanna á sýningunni.
Sr. Arnaldur Máni á jafnframt verk á sýningunni sem kallast Himnagáttir en myndin sem fylgir fréttinni sýnir eina slíka gátt. Til stendur að setja upp slík listaverk í Staðastaðarprestakalli á fornum kirkjustöðum og þar sem sem voru bænahús í eina tíð.
Um listaverk sr. Arnalds Mána, Himnagáttir, segir svo í vandaðri sýningarskrá:

„Hvert Guðs hús, hvort sem það er kirkja, hálfkirkja eða bænahús, er helgað því hlutverki að vera snertipunktur. Heilög jörð. Himinn og jörð. Guðs staður og manns. Þar sem andi Guð og sál mannsins tengjast er – á máli kirkjunnar – hlið himinsins; hluti af eilífðinni. Ég legg net af eilífð yfir nesið, eilífð af tengslum sem tala við hjarta þitt og hjarta heims. OP-in liggja á himninum um leið og þau spretta uppúr jörðinni. Ferðalag milli opa er huglægt, andans og innávið. Það er hreyfing laus við tíma og rúm. Það er orka. Það ert þú. Hér sé Guð.“

Snæfellsnesið er rómað fyrir náttúrufegurð og því kjörið tækifæri að fara í dagsferð um það og skoða listaverkin sem sjá má á stöðum eins og Lágafelli, Staðarstað, Vatnsholti, Arnarstapa og Hellnum, Hellissandi, Ólafsvík og í Stykkishólmi. Enginn verður svikinn af því.

Myndlistarverkefnið Umhverfing er samstarfsverkefni Akademíu skynjunarinnar og Svæðisgarðsins Snæfellsness. Þetta er þriðja sýningin í þessum dúr en hugsunin á bak við það er sú að fara umhverfis landið með sýningar þar sem sjá má verk eftir listamenn sem tengjast viðkomandi landshluta eða eiga ættir að rekja þangað. Sýningin stendur yfir til 31. ágúst. 


  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Menning

  • Samfélag

Forsetahjónin og vígslubiskupshjónin við Hóladómkirkju

Afar vel sótt Hólahátíð

18. ágú. 2025
...forseti Íslands flutti Hólaræðuna
holarihjaltadal.jpg - mynd

Hólahátíð 2025: Forseti Íslands flytur Hólaræðu

12. ágú. 2025
Hólahátíð fer fram dagana 16. - 17. ágúst n.k. Halla Tómasdóttir forseti Íslands flytur Hólaræðuna að þessu sinni.
garpsdalskirkja2.jpg - mynd

Kirkjuklukkum á Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hringt samtímis til stuðnings íbúum Gasa

05. ágú. 2025
Fimmtudaginn 7. ágúst kl. 13:00 verða kirkjuklukkum dómkirknanna þriggja á Íslandi hringt og hvetja biskupar Íslands til þess að öðrum kirkjuklukkum verði hringt samtímis. Systurkirkjur Þjóðkirkjunnar í Noregi, Svíþjóð...