Gamall kunningi kveður

24. júlí 2019

Gamall kunningi kveður

Margir kannast við þessa verslun

Mörg eru þau sem á ferðalögum til útlanda venja komur sínar í sérstakar bókabúðir sem selja guðfræði- og heimspekibækur, andlegar bækur með kristilegum stefjum, og sitthvað annað er fylgir kristilegu helgihaldi, krossa, myndir og geisladiska. Í hverri borg er ætíð að finna einhverja slíka verslun sem áhugasamir finna fljótt og geta dvalist þar býsna lengi.

Þessar verslanir hafa átt undir högg að sækja undanfarin ár af margvíslegum ástæðum. Minnkandi bóksala og breyttar lestrarvenjur geta skýrt rekstrarerfiðleika þeirra að einhverju leyti. Trúarlegar bókmenntir sem fylltu nokkrar hillur í mörgum betri bókaverslunum stórborganna sitja nú í einni hillu eða tveimur. Eftirspurn hefur breyst.

Bethesdas-verslunin í Kaupmannahöfn fyllti þennan flokk. Margir íslenskir guðfræðingar og prestar komu iðulega við á Israels Plads, Rømersgade, bak við Torvehallerne, en þar kúrði þessi bókabúð sem lét ákaflega lítið yfir sér á ytra borðinu en þegar inn var komið mátti þar marga gersemina finna. Hún var sett á laggirnar árið 1882 og hefur alltaf verið á sama stað. Margt hefur gengið á í rekstrinum eins og við er að búast af gamalli búð og þar er ætíð umhugsunarefni hvernig slíkar verslanir ná að lifa af á hraðfleygri stund tímans.

Nú er sorg í hjörtum margra bókaunnenda því að þessi gamli kunningi, Bethesdas-verslunin, er horfinn á braut.  Henni var lokað fyrir skemmstu, 137 árum eftir að hún opnaði. Þar er auðvitað skarð fyrir skildi. Bókakostur hennar var mjög ríkulegur, bækur fyrir almenning, fullorðna og börn, guðfræðinga og áhugafólk. Nýjar bækur og gamlar.

Fornbókadeildin í kjallaranum var svo sér á parti og síðustu árin sinntu henni uppgjafaprestar og eldri leikmenn. Þar niðri sat afgreiðslufólkið á borðstofustólum úr ýmsum áttum (nánast eins og hver hefði komið með sinn stól) við hringlaga borð og drakk kaffi. Og ilmurinn var eilífur. Maulaði danskar smákökur með. Og það var glatt á hjalla. Um jól sveif yfir öllum litteratúrnum dauf angan af sherríi eða jafnvel Jägermeister. Raddirnar voru mishásar, og stundum struku tinandi elligular hendur bækurnar en höfuð var í lagi og brosið hlýtt. Allt var svo „dejligt“. Og ekkert lá á.

Rekstraraðilar Bethesdas, Indre missionen, reyndu að hressa reksturinn við en allt kom fyrir ekki. Verslunin hefur semsé kvatt sem og vefverslunin. Bókakostur og vörubirgðir runnu til loshe.dk.

Nú er fátt eitt hægt að gera þegar komið er á Israels Plads annað en að fá sér „smørrebrød“ og einn kaldan í Torvehallerne. Og horfa með tár á hvarmi yfir á bogadregna verslunargluggann í Rømersgade þar sem eitt sinn var merkilegur menningarstaður. Minnast með þakklæti og söknuði Bethesdas-bókabúðarinnar þaðan sem Íslendingurinn kom alltaf með einhverjar spennandi bækur í fanginu heim.

En ekki skyldi lesandinn þó örvænta. Verslunin Kirkjuhúsið, Skálholtsútgáfan, Laugavegi 31, stendur enn og það föstum fótum. Hún er um margt lík hinum gamla kunningja, Bethesdas-versluninni, sem hefur nú kvatt.

Ekki svíkur „smørrebrødet“ nokkurn mann í Torvehallerne
  • Frétt

  • Guðfræði

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Menning

  • Samfélag

Forsetahjónin og vígslubiskupshjónin við Hóladómkirkju

Afar vel sótt Hólahátíð

18. ágú. 2025
...forseti Íslands flutti Hólaræðuna
holarihjaltadal.jpg - mynd

Hólahátíð 2025: Forseti Íslands flytur Hólaræðu

12. ágú. 2025
Hólahátíð fer fram dagana 16. - 17. ágúst n.k. Halla Tómasdóttir forseti Íslands flytur Hólaræðuna að þessu sinni.
garpsdalskirkja2.jpg - mynd

Kirkjuklukkum á Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hringt samtímis til stuðnings íbúum Gasa

05. ágú. 2025
Fimmtudaginn 7. ágúst kl. 13:00 verða kirkjuklukkum dómkirknanna þriggja á Íslandi hringt og hvetja biskupar Íslands til þess að öðrum kirkjuklukkum verði hringt samtímis. Systurkirkjur Þjóðkirkjunnar í Noregi, Svíþjóð...