Fólkið í kirkjunni: „Talaðu við hana Þuru...“

9. ágúst 2019

Fólkið í kirkjunni: „Talaðu við hana Þuru...“

Þura kirkjuvörður í Grensáskirkju

Yfirleitt er hún fyrsta manneskjan sem ber fyrir augu þegar komið er í Grensáskirkju. Ýmist að stússa i eldhúsinu, eða keyrir bónvél á undan sér, þvottvél, eða er með fullt fangið af dúkum. Á haustin dragast laufblöðin saman í haug við aðaldyrnar og gera innrás í hvert sinn sem rafhurðin opnast. Miklir laufstrókar þar við dyrnar í ýmsum vindáttum. Þá er hún ætíð tilbúin með ryksuguna.

Þetta er hún Þura. Nánast eins og andlit kirkjunnar. Kirkjuvörður með meiru. Fellur aldrei verk úr hendi. Ötul kona og glaðlynd.

Hún hefur starfað í Grensáskirkju í rúma tvo áratugi.

Þuríður Guðnadóttir ólst upp að Þórisstöðum í Svínadal, bær rétt fyrir ofan Ferstiklu, bóndadóttir, elst fimm systkina, og vann þar við öll hefðbundin sveitastörf.

„Ég er bara sveitastelpa,“ segir hún kankvís á svip. „Fór í farskóla í sveitinni sem var á Hlöðum og svo í Reykholt. Prestsfrúin kenndi föndur heima. Fermdist í Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd, það var sr. Sigurjón Guðjónsson sem sá um það. Við þurftum að læra fimmtíu sálma, hvorki meira né minna. Það gekk nú svona upp og ofan hjá okkur krökkunum.“

Síðan hélt hún út á vinnumarkaðinn strax að loknu grunnnámi. Í henni blundaði alltaf að verða fóstra eins og það hét þá, leikskólakennari nú. Það varð að bíða um sinn. Tækifærið kom síðar og hún sótti um. Bréfið kom á afmælisdeginum hennar. „Ég þorði ekki að opna bréfið fyrr en um kvöldið, var hrædd um að ég kæmist ekki inn. En hvílík gleði, ég komst inn!“ segir Þura glöð í bragði.

Hún lauk námi frá Fóstruskóla Íslands. Vann á Álftaborg í Háleitishverfinu og síðar í Álftamýrarskóla. Þura hafði alltaf áhuga á kirkjustarfi og langaði að vinna í kirkjunni. Fór með börnin sín í sunnudagaskóla í hverfinu, var síðan kjörin í sóknarnefnd og fór að taka þátt í fræðslustarfi Grensássafnaðar og leikskólakennaramenntunin kom sér vel. Eitt leiddi af öðru. Starfið í sóknarnefnd var heilmikið því það var sá tími þegar kirkjan var í undirbúningi og byggingu. Allt var þetta skemmtilegt í hennar huga og hún hafði mjög gaman af því að taka þátt í starfinu.

Þá var hún ráðin kirkjuvörður og hefur sinnt því starfi síðustu áratugi. Það er fjölbreytilegt starf. Ekki bara að sjá um að halda öllu hreinu heldur taka á móti fólki sem kemur í margvíslegum erindagjörðum. Skipuleggja starfið í samstarfi við prestana. Fólkið sem kemur í kirkjuna finnur strax að þarna er örugg kona á ferð sem vill hvers manns götu greiða hvort heldur verið er að undirbúa skírnir, hjónavígslur eða útfarir. Ef eitthvað þarf að vita um kirkjustarfið í Grensás eða skipuleggja þá kveður gjarna við: „Talaðu við hana Þuru...“

En það er ekki bara kirkjan sem nýtur starfskrafta Þuru. Í mörg ár hefur hún verið öflugur stuðningsmaður Fram og unnið margt fyrir það félag. Sannur Frammari!

Þuríður Guðnadóttir, kirkjuvörður í Grensáskirkju, Fossvogsprestakalli, er ein af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni.

Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.



Grensáskirkja í Fossvogsprestakalli er mikið hús og veglegt

 

Mikil starfsemi fer fram í Grensáskirkju utan hins hefðbundna starfs.
Kirkjuþing unga fólksins var haldið þar  á þessu ári. Kirkjuþing er iðulega
haldið í Grensáskirkju. 

Grensáskirkja hýsir margvíslega kirkjulega starfsemi
  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Trúin

  • Menning

  • Samfélag

Forsetahjónin og vígslubiskupshjónin við Hóladómkirkju

Afar vel sótt Hólahátíð

18. ágú. 2025
...forseti Íslands flutti Hólaræðuna
holarihjaltadal.jpg - mynd

Hólahátíð 2025: Forseti Íslands flytur Hólaræðu

12. ágú. 2025
Hólahátíð fer fram dagana 16. - 17. ágúst n.k. Halla Tómasdóttir forseti Íslands flytur Hólaræðuna að þessu sinni.
garpsdalskirkja2.jpg - mynd

Kirkjuklukkum á Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hringt samtímis til stuðnings íbúum Gasa

05. ágú. 2025
Fimmtudaginn 7. ágúst kl. 13:00 verða kirkjuklukkum dómkirknanna þriggja á Íslandi hringt og hvetja biskupar Íslands til þess að öðrum kirkjuklukkum verði hringt samtímis. Systurkirkjur Þjóðkirkjunnar í Noregi, Svíþjóð...