Konur og kirkjustarf: Prjóna af kærleika

31. janúar 2020

Konur og kirkjustarf: Prjóna af kærleika

Kraftur í prjónakonum í Mosó

Í mörgum söfnuðum eru starfandi prjónaklúbbar. Konur bera þessa prjónaklúbba uppi og karlar láta sjaldan sjá sig. Þær prjóna iðulega fyrir góð málefni og vilja láta gott af sér leiða, eða eru að prjóna fyrir sig og njóta samvista með öðrum. Léttur andi svífur yfir prjónaklúbbum enda fylgir það skapandi iðju og dugnaðarfólki. 

Kirkjan.is kom við í safnaðarheimilinu í Mosfellsbæ í gær og hitti þar hóp kvenna sem sat og prjónaði. Það var glatt á hjalla og augljóst að þær þekktust býsna vel og nutu þess að eiga þessa samverustund. 

Þessar konur eru í prjónaklúbbi sem þær kalla Prjónakaffi Lágafellssóknar og koma saman annan hvern fimmtudag til að prjóna.

Fyrir nokkru luku þær við að prjóna fjöldann allan af kengúrupokum sem senda á til Ástralíu vegna skógareldanna þar. Sögðu þær að pokarnir yrðu afhentir með formlegum hætti á næstu dögum í Kex hotel. Síðan fara þeir út. Þær voru hæstánægðar með árangurinn – og höfðu ekki tölu á pokunum.

Kengúrupokaverkefnið bar óvænt að garði þeirra og þær vildu endilega leggja því þarfa verkefni lið og ýttu hefðbundnum prjónaskap til hliðar á meðan.

Nú prjóna þær fyrir næstu aðventu – eins og þær hafa gert undanfarin ár. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Prjóna húfur, peysur, trefla, vettlinga og ýmislegt annað. Prjónaskapurinn verður svo settur í poka og þeir afhentir við aðventuguðsþjónustu í Lágafellskirkju. Pokunum er svo komið til fólks í Mosfellsbæ sem þarf á aðstoð að halda fyrir jól.

Prjónaskapur sem þessi er kærleiksstarf og fer ekki hátt. Full ástæða er hins vegar til að vekja athygli á þessu starfi kvenna vítt og breitt í söfnuðum landsins. 

Þær prjóna af kærleika. 

Prjónaklúbburinn hefur starfað um sjö ára skeið. Þær sögðu notalegt að hittast og þær aðstoða hvor aðra í prjónaskapnum.

„Við hjálpum, lærum og kennum, “ sögðu þær einum rómi. Svo sannarlega samhentur kvennahópur þar. 

Og að sjálfsögðu var heitt á könnunni!

Facebókarsíða Prjónaklúbbsins

hsh

Prjónakonurnar í safnaðarheimili Lágafellssóknar voru glaðar og vinnusamar

  • Frétt

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Samstarf

  • Menning

Forsetahjónin og vígslubiskupshjónin við Hóladómkirkju

Afar vel sótt Hólahátíð

18. ágú. 2025
...forseti Íslands flutti Hólaræðuna
holarihjaltadal.jpg - mynd

Hólahátíð 2025: Forseti Íslands flytur Hólaræðu

12. ágú. 2025
Hólahátíð fer fram dagana 16. - 17. ágúst n.k. Halla Tómasdóttir forseti Íslands flytur Hólaræðuna að þessu sinni.
garpsdalskirkja2.jpg - mynd

Kirkjuklukkum á Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hringt samtímis til stuðnings íbúum Gasa

05. ágú. 2025
Fimmtudaginn 7. ágúst kl. 13:00 verða kirkjuklukkum dómkirknanna þriggja á Íslandi hringt og hvetja biskupar Íslands til þess að öðrum kirkjuklukkum verði hringt samtímis. Systurkirkjur Þjóðkirkjunnar í Noregi, Svíþjóð...