Olía á striga prestsins

17. febrúar 2020

Olía á striga prestsins

Sr. Sighvatur Karlsson við tvö verka sinna

Sr. Sighvatur Karlsson sýnir nú tíu olíumálverk á striga í Seltjarnarneskirkju. Sýningin hófst í gær eftir að guðsþjónustu lauk þar sem sr. Sighvatur prédikaði. Hann þjónar nú sem héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra en hefur verið sóknarprestur á Húsavík.

Ólafur Egilsson, formaður Listvinafélgs Seltjarnarneskirkju, flutti ávarp og fór nokkrum orðum um sýninguna. 

Sr. Sighvatur hefur um langt árabil fengist við myndlist í frístundum sínum og aflað sér kunnáttu til þessarar iðju hjá mörgum listamönnum.

Hann hefur haldið sýningar á verkum sínum á Húsavík, Dalvík og Færeyjum, einnig tekið þátt í samsýningum í Ráðhúsi Reykjavíkur. Sýningin í Seltjarnarneskirkju er fyrsta einkasýning hans á höfuðborgarsvæðinu.

Málverk sr. Sighvats í Seltjarnarneskirkju byggja á Biblíusöngvum hins heimskunna tónskálds, Antonin Leopold Dvořák (1841-1904). Hann var tékkneskur og samdi meðal annars tíu einsöngslög út frá tíu völdum köflum í Davíðssálmum. Um leið og listamaðurinn, presturinn, hlýddi á söngvana, málaði hann verk sín. Grunnstefið í þessum verkum hans er hringurinn, tákn hins eilífa Guðs. Úr því tákni má og sjá auga Guðs – sem og auga áhorfandans.

Sýningin er á vegum sóknarnefndar Seltjarnarneskirkju og Listvinafélags kirkjunnar.

Kirkjan.is óskar sr. Sighvati til hamingju með þessa heilsteyptu sýningu og hvetur öll þau sem leið eiga um Seltjarnarnesið að skoða sýninguna. Verkin eru sterk í einfaldleika sínum og kalla á margvíslega listræna íhugun - hér vefur presturinn saman listrænum þönkum við trú sína með olíu á striga - og með eftirtektarverðum hætti. 

Hér takast  svo sannarlega í hendur kirkja, trú og list. Eins og svo oft áður. 

hsh


Ólafur Egilsson, formaður Listvinafélags Seltjarnarneskirkju, opnaði sýninguna.
Sr. Sighvatur stendur næst honum og þá kemur sr. Bjarni Þór Bjarnason, sóknarprestur


Eitt verkanna á sýningu sr. Sighvats

Seltjarnarneskirkja.


  • Frétt

  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Menning

  • Samfélag

Forsetahjónin og vígslubiskupshjónin við Hóladómkirkju

Afar vel sótt Hólahátíð

18. ágú. 2025
...forseti Íslands flutti Hólaræðuna
holarihjaltadal.jpg - mynd

Hólahátíð 2025: Forseti Íslands flytur Hólaræðu

12. ágú. 2025
Hólahátíð fer fram dagana 16. - 17. ágúst n.k. Halla Tómasdóttir forseti Íslands flytur Hólaræðuna að þessu sinni.
garpsdalskirkja2.jpg - mynd

Kirkjuklukkum á Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hringt samtímis til stuðnings íbúum Gasa

05. ágú. 2025
Fimmtudaginn 7. ágúst kl. 13:00 verða kirkjuklukkum dómkirknanna þriggja á Íslandi hringt og hvetja biskupar Íslands til þess að öðrum kirkjuklukkum verði hringt samtímis. Systurkirkjur Þjóðkirkjunnar í Noregi, Svíþjóð...