Ljósin sem lýsa

12. nóvember 2020

Ljósin sem lýsa

Bænakertastandur gefinn. Frá vinstri: Vigfús Ólafsson, María Anna Clausen, Ólafur Vigfússon, Andri Ólafsson, og listamaðurinn Sigurður Árni Sigurðsson sem vann listaverkið

Í gær fór fram látlaus athöfn í safnaðarheimili Kópavogskirkju, Borgum.

Tilefnið var gjöf sem færð var Kópavogskirkju. Það er bænaljósastandur sem gefinn var til minningar um Egil Daða Ólafsson sem fæddist 1. október 1984 og lést 26. október 2018.

Þau hjónin Ólafur Vigfússon og María Anna Clausen, og synir þeirra tveir, Andri Ólafsson og Vigfús Ólafsson, ákváðu að færa Kópavogskirkju gjöf til minningar um son og bróður í þakklætisskyni fyrir einstaklega umhyggjusama þjónustu starfsfólks Kópavogskirkju við fjölskyldu þeirra í erfiðum aðstæðum.

Eftir að hafa rætt við sr. Sigurð Arnarson, sóknarprest við Kópavogskirkju, var ákveðið að láta hanna og smíða bænaljósastand. Til verksins var fenginn Sigurður Árni Sigurðsson, listamaður, sem hefur starfað um árabil í Frakklandi. Þau hjónin, Ólafur og María Anna, höfðu miklar mætur á honum og lögðu hugmyndir sínar fyrir hann.

Það kom strax fram að bænakertastjakinn myndi með einhverjum hætti bera svip af hinum sérstaka byggingarstíl kirkjunnar. María Anna sleit barnsskónum í Kópavogi og var meðal annars fermd í Kópavogskirkju. Kirkjan hefur síðan verið henni kær.

Ólafur sagði að Sigurður Árni, listamaður, væri sérstaklega fær í þrívíddarverkum. Vinna við verkið tók rúmt ár. Listamaðurinn sýndi þeim ýmsar útfærslur á verkinu og þau veltu vöngum yfir tillögum hans með sr. Sigurði og starfsfólki kirkjunnar.

Verkið þróaðist smám saman og það sem nú blasir við er útkoman:

Bænaljósastandur með sjö kertaljósahillum og hann stendur á þremur eikarfótum en stoðir milli þeirra mynda kross sem kallast T-kross. Sá kross getur táknað margt en á fyrstu öldum kristninnar var hann talinn líkastur krossi Krists. Talan sjö er heilög, Guð skapaði heiminn á sex dögum og hvíldist þann sjöunda. Auk þess er samtala höfuðáttanna og þrenningarinnar, sjö. Þrír vísar að sjálfsögðu til heilagrar þrenningar. Efst er hilla fyrir stórt kerti, sem er tákn Krists, og önnur kerti þiggja birtu sína af því. Verkið er mjög stílhreint og í fullkomnu jafnvægi, krossmark er fyrir miðju þess þegar horft er á það og geislar út frá því.

Listamaðurinn Sigurður Árni vann verkið af mikilli alúð og innsæi. Gerði meðal annars líkan af því og það var mátað á nokkrum stöðum í kirkjunni til að sjá hvar bænaljósastandurinn myndi fara best. Síðan fullvann hann verkið. Eins og sést á myndum minnir það á stafna Kópvogskirkju.

Í gær var svo kveikt á bænaljósastandinum í safnaðarheimilinu. Þau María Anna og Ólafur kveiktu fyrstu ljósin ásamt sonum sínum, þeim Andra og Vigfúsi. Það var hljóð stund og fögur. Síðan kveiktu aðrir viðstaddir á kertum.

Við athöfnina flutti Ólafur stutt ávarp og lýsti tilurð verksins. Hann afhenti Guðmundi Jóhanni Jónssyni, formanni sóknarnefndar, gjafabréf sem þakkaði fyrir með stuttu ávarpi. Þá þakkaði sr. Sigurður þessa miklu og einlægu velvild sem sýnd væri kirkjunni. Listamaðurinn Sigurður Árni sagði nokkur orð og lýsti ánægju sinni og þakklæti með að hafa verið treyst til þessa verks. Þá voru viðstödd athöfnina sr. Sjöfn Jóhannsdóttir og Ásta Ágústdóttir, djákni.

Til stóð að fleira fólk úr fjölskyldu Ólafs og Maríu Önnu kæmi saman við þessa athöfn í gær en vegna hins sérstaka ástands í samfélaginu var afráðið að hafa athöfnina með einföldu sniði. Fleiri geta svo fylgst með þegar streymt verður frá Kópavogskirkju fyrsta sunnudag í aðventu, 29. nóvember, en þá verður bænaljósastandurinn tekinn formlega í notkun í kirkjunni.

Eins og alþjóð veit þá er Kópavogskirkja sjálf mikið listaverk. Steindir gluggar Gerðar Helgadóttur prýða hana og vekja ætíð aðdáun þeirra sem þá skoða. Auk þess á kirkjan listaverk eftir Barböru Árnason, Evu Björnsdóttur og Benedikt Gunnarsson. Altaristaflan er eftir Steinunni Þórarinsdóttur. Nú bætist enn eitt glæsilegt listaverk við og því verður komið fyrir norðanmegin í kór.

Listamaðurinn
Listamaðurinn Sigurður Árni Sigurðsson (f. 1963), hefur haldið um fimmtíu einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum, bæði hér heima og erlendis. Hann var fulltrúi Íslands á Tvíæringnum í Feneyjum árið 1999, verk eftir hann var valið táknmynd Reykjavíkur,- Menningarborgar Evrópu árið 2000 og um þessar mundir er Listasafn Reykjavíkur að setja upp yfirlitssýningu á verkum Sigurðar Árna þar sem farið er yfir feril listamannsins frá upphafi til dagsins í dag. Sýningin er liður í þeirri viðleitni Listasafnsins að skrá, greina og miðla íslenskri listasögu í gengum yfirlitssýningar sem endurspegla lykilþræði íslenskrar samtímalistasögu. Hann hefur hlotið opinberar viðurkenningar víða, má þar nefna Frakkland, Þýskaland, Sviss og Japan í formi sýninga, vinnustofa, styrkja og bókaútgáfu. Hann er virkur þátttakandi í íslensku myndlistarlífi, bæði með sýningum, kennslu og umræðu. Hann hefur starfað sem gestakennari við Listaháskóla Íslands, Myndlistarskóla Reykjavíkur og við Listaháskólann í Montpellier - École Supérieure des Beaux Arts Montpellier í Frakklandi og haldið fyrirlestra um myndlist bæði á Íslandi og í Frakklandi. Hann hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Samband íslenskra myndlistarmanna, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar og Myndlistarráð og hlotið starfslaun frá Launasjóði íslenskra myndlistarmanna og styrki úr Myndlistarsjóði. Auk þess að eiga verk á öllum helstu listasöfnum landsins, opinberum söfnum og einkasöfnum víða erlendis hafa stærri útilistaverk verið sett upp eftir hann á opinberum stöðum, má þar nefna Sólalda við Sultartangavirkjun og árið 2011 var útilistaverkið L‘éloge de la nature, sett upp í bænum Loupian í Suður-Frakklandi.

hsh


Ólafur Vigfússon flutti ávarp, frá vinstri Andri, María Anna og Vigfús


María Anna kveikti á fyrsta kertinu