Gríðarlegur fjöldi í enskri jólamessu í Hallgrímskirkju

28. desember 2022

Gríðarlegur fjöldi í enskri jólamessu í Hallgrímskirkju

Mikill fjöldi kom í enska jólamessu í Hallgrímskirkju á jóladag.

Fréttaritari kirkjan.is hafði samband við sr. Bjarna Þór Bjarnason sem þjónaði í messunni og spurði hann um aðdraganda þess að messan var haldin.

Sr. Bjarni sagði:

”Ég þjónaði í ensku biskupakirkjunni í þrjú ár, frá 1998 til 2001.

Ég starfaði í enskum söfnuði í borginni Scunthorpe.

Þarna gat ég starfað á grundvelli Porvoosáttmálans sem gerir prestum á Norðurlöndum kleift að þjóna í ensku biskupakirkjunni.

Ég hafði prestsreynslu þegar ég fór út til Englands og hafði þjónað sem prestur í sjö ár hér á landi.

Ég fór í gegnum þriggja ára þjálfunarprógram í prestakalli sem taldi fimm presta.

Ég var í stöðu Curate, sem er nokkurs konar aðstoðarprestur, og sótti líka sóknarprestsnámskeið í Lincoln sem var hluti af þjálfun minni.”

 

Svo þegar þú kemur heim þá ferðu að þjóna Bretum hér?

”Ég kom heim til Íslands haustið 2001 og fór þá á fund sr. Karls Sigurbjörnssonar þáverandi biskups Íslands.

Ég var þá kominn með mikla reynslu af því að messa anglíkanskar messur og spurði hann hvort að ég gæti verið með enskar messur einhvers staðar.

Hann tók mér vel og sagði að ég gæti verið með enskar messur einu sinni í mánuði í Hallgrímskirkju.

Og það hef gert síðan og nú er tuttugasta og annað árið að hefjast þar sem ég er með enska messu síðasta sunnudag hvers mánaðar kl. 14:00 í Hallgrímskirkju.

Með mér er fólk sem les ritningarlestra og bænir og er einnig með mér í útdeilingu sakramentisins.

Við erum svo alltaf með kaffi eftir messu í safnaðarheimilinu.”

 

En nú var mikill fjöldi í jólamessunni.
Voru þetta Bretar búsettir á Íslandi eða ferðafólk?


”Messan á jóladag bar upp á síðasta sunnudag mánaðarins.

Hún var fjölmenn.

Það komu 245 manns í messuna, mest ferðafólk alls staðar að úr heiminum.

Hápunkturinn er að sjá langa röð fólks af öllum kynþáttum koma í altarisgönguna og taka á móti brauði og víni.

Þá er gaman að vera til og fá að taka þátt í þessu ævintýri.”


Tengist eitthvað fleira starfi þínu sem prestur anglikönsku kirkjunnar á Íslandi?

“Ég hef einnig tekið þátt í  “Festival of nine lessons and carols” í mörg ár, en það var haldið í Seltjarnarneskirkju í ár.

Ég sæki á hverju ári héraðsfund innan Evrópubiskupsdæmis anglíkana sem nær yfir Norðurlönd og Eystrarsaltslöndin.

Ég hélt utan um slíkan héraðsfund hér á landi árið 2018.

Þá hef ég lengi séð um minningarstund um látna hermenn í Fossvogskirkjugarði í kringum 11. nóvember ár hvert.”

Er þetta launað starf?

“Nei, enska biskupakirkjan greiðir mér ekki laun fyrir framlag mitt né ferðir eða uppihald á héraðsfundi”

sagði sr. Bjarni Þór að lokum.


slg




Myndir með frétt

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Alþjóðastarf