Messað í Furufirði

25. júlí 2023

Messað í Furufirði

Messufólk ásamt prófasti í Furufirði

Nýlega sagði kirkjan.is frá því að messað er á nokkrum stöðum í eyðibyggðum yfir sumartímann.

Þá frétt má lesa hér.

Af því tilefni sendi sr. Magnús Erlingsson sóknarprestur í Ísafjarðarprestakalli og prófastur í Vestfjarðaprófastsdæmi fréttaritara kirkjan.is myndir og frásögn af ferðinni:

 

„Laugardaginn 15. júlí sigldi hraðbáturinn Ingólfur með prófast Vestfirðinga og tvo aðra ferðalanga inn í Hrafnfjörð, sem er næst innstur Jökulfjarða.

Þar tók leiðsögumaðurinn Einar Birkir Sveinbjörnsson á móti þeim og gekk með þeim yfir Skorarheiði en hann var kominn til sækja vistir, sem hraðbáturinn kom með.

Ljósmyndirnar sem fylgja voru teknar af Einari Birki.

Níu kílómetra gangur var frá Hrafnfirði og yfir í Furufjörð, sem er austasti hluti Hornstrandafriðlandins.

Gengið var yfir Skorarheiði, sem er bæði brött og grýtt.

Síðan þurfti að ganga yfir flæðiengjar til að komast að Bænhúsinu í Furufirði.

Tók þetta prófastinn 4 klukkutíma að ganga þetta með hempuna, predikunina og messuvínið á bakinu en yngra fólkið fór hraðar yfir.

Í Furufirði hafa systkinin Sigrún, Matthildur, Árni og Hlíf Guðmundsbörn reist sér veglegt bjálkahús en foreldrar þeirra voru síðustu ábúendurnir í Furufirði en þau hættu að búa á jörðinni árið 1950.

Fékk prófastur að gista í bjálkahúsinu hjá þeim systkinum og viðurgerningur allur mjög góður.

Bænhúsið í Furufirði er ekki stór helgidómur.

Kirkjan er smíðuð úr timbri og er hún rúmir fimm metrar að lengd og fjórir og hálfur metri að breidd.

Lágreist þak er á kirkjunni og kross á framstafni.

Kirkjan er bárujárnsklædd og hefur verið gerð upp.

Veg og vanda að því verki hefur haft Guðmundur Ketill Guðfinnsson en ýmsir hafa lagt honum lið.

Guðmundur Ketill er frá Reykjarfirði, en langafi hans var Benedikt Hermannsson, sá sem smíðaði kirkjuna á sínum tíma.

Messað var í Furufjarðarkirkju sunnudaginn 16. júlí.

Prófastur leiddi safnaðarsöng og messusvör.

Í predikun sinni lagði prófastur út af því að ekki mætti nema einn stafkrók úr lögmálinu.

18 manns voru í messunni og gekk meirihluti þeirra til altaris.

Að messu lokinni og hádegishressingu gekk prófastur til baka yfir Skorarheiði og sótti hraðbátur hann í Hrafnfjörð.

Í Jökulfjörðum veifaði hvalur til prófastsins í kveðjuskyni.

Fréttaritari kirkjan.is þakkar prófasti skemmtilega frásögn og fallegar myndir.

 

slg


Myndir með frétt

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Kirkjustaðir

Prestar í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ásamt fyrirlesurum

Vorfundur presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

26. apr. 2024
...síðasti prestafundur sr. Helgu Soffíu sem prófastur
Forsíðumynd-Sumardagurinn fyrst -skrúðganga á kirkjuplani.jpg - mynd

Sumardagurinn fyrsti í Fossvoginum

26. apr. 2024
...fjölsótt dagskrá í kirkjunni
Digraneskirkja

Laust starf

26. apr. 2024
...prests við Digranes- og Hjallaprestakall