Kirkjuklukkum á Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hringt samtímis til stuðnings íbúum Gasa

5. ágúst 2025

Kirkjuklukkum á Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hringt samtímis til stuðnings íbúum Gasa

Biskup Íslands og vígslubiskupar hvetja til þess að kirkjuklukkum landsins verði hringt fimmtudaginn 7. ágúst kl. 13 í 7 – 15 mínútur til stuðnings íbúum á Gasa.

Í bréfi Guðrúnar Karls Helgudóttur, biskups Íslands, til presta og djákna Þjóðkirkjunnar segir:

„Fréttir berast dag hvern um ómannúðlegt ástand á Gasa þar sem yfir 60.000 manns hafa látið lífið og staðan versnar dag frá degi. Þetta er manngerður hryllingur þar sem engum er þyrmt og jafnvel komið í veg fyrir mannúðaraðstoð.

Kristin kirkja getur ekki staðið hljóð hjá og því hvetja biskuparnir kirkjunnar þjóna til þess að hringja kirkjuklukkum sem flestra kirkna á Íslandi samtímis. Klukkum dómkirknanna þriggja, Dómkirkjunnar í Reykjavík, Skálholtsdómkirkju og Hóladómkirkju verður hringt og von okkar er að sem flestar kirkjur taki þátt. Klukknaköllin verða með því ákall um frið og til þess að vekja athygli á þeim sem líða á Gasa. Þá hvetjum við til til þess að fólk tendri ljós, biðji fyrir þeim sem þjást á Gasa og fyrir friði.“

Frumkvæði að þessu eiga biskupar Norsku kirkjunnar og verður klukkum hring samtímis á Íslandi, í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og hjá systurkirkjum okkar í Jerúsalem.

Bæn fyrir íbúa Gasa:

Friðarins Guð. Við biðjum þig fyrir öllum þeim sem þjást og líða á Gasa. Þrátt fyrir að við séum langt frá átökum og þjáningum þeirra sem þar líða þá finnum við fyrir sársauka þeirra. Við upplifum vanmátt, sorg og angist með systkinum okkar á Gasa. Hjálpa þeim að missa ekki vonina jafnvel þegar staðan virðist vonlaust. Guð, hjálpa okkur að gleyma aldrei þeim sem þjást í þessum heimi. Gef þeim sem hafa völd til þess að leggja niður vopn og koma á friði, sanna löngun til þess að nýta áhrif sín til góðs. Guð gef frið á Gasa. Í Jesú nafni, amen.

    holarihjaltadal.jpg - mynd

    Hólahátíð 2025: Forseti Íslands flytur Hólaræðu

    12. ágú. 2025
    Hólahátíð fer fram dagana 16. - 17. ágúst n.k. Halla Tómasdóttir forseti Íslands flytur Hólaræðuna að þessu sinni.
    Elísa Mjöll Sigurðardóttir

    Elísa Mjöll ráðin

    22. júl. 2025
    ...sóknarprestur við Breiðafjarðar og Strandaprestakall
    Skálholtshátíð 2.jpg - mynd

    Skálholtshátíð kallar með gleði í tali, göngu og tónum

    18. júl. 2025
    Framundan er þétt og glæsileg dagskrá Skálholtshátíðar sem stendur fram á sunnudag.