Hólahátíð 2025: Forseti Íslands flytur Hólaræðu

Hólahátíð fer fram næstu helgi, 16.-17. ágúst. Að vanda er dagskráin yfirgripsmikil og þétt. Á laugardaginn verður dagskrá fyrir börn á vegum skátafélagsins Eilífsbúa klukkan 14:00. Klukkan 16:00 verður söngstund í Hóladómakirkju sem Gunnar Rögnvaldsson sér um og grill við Auðunarstofu kl 16:30.
Á sunnudag fer fram hátíðarmessa í Hóladómkirkju. Gísli Gunnarsson vígslubiskup prédikar og þau sr. Halla Rut Stefánsdóttir, Sigríður Gunnarsdóttir, Jón A. Baldvinsson og Solveig Lára Guðmundsdóttir þjóna fyrir altari. Skagfirski kammerkórinn undir stjórn Elenu Zharinova og Kirkjukór Hóladómkirkju ásamt þeim Óskari Péturssyni og Ívari Helgasyni syngja. Organistar eru Jóhann Bjarnason og Valmar Väljots. Messan er klukkan 14:00.
Klukkan 16:00 á sunnudeginum er hátíðarsamkoma í Hóladómkirkju. Auk söngatriða Óskars Péturssonar, Ívars Helgasonar, Valgerðar Rakelar Rúnarsdóttur og Dagmarar Helgu Helgadóttur flytur Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, Hólaræðuna.
Aðspurður segist Gísli Gunnarsson vígslubiskup vera orðinn spenntur. „Þetta verður góð helgi, og ég er farinn að hlakka til að taka á móti gestum hérna á Hólum,“ sagði Gísli og bætti við: „Svona hátíð hefur auðvitað aðdraganda og byrjar undirbúningur Hólahátíðar að einhverju leyti bara þegar þeirri síðustu lýkur. En svo eru þetta síðustu vikur sem við erum búin að vera á fullu.“
Á hátíðina er allt áhugasamt fólk að sjálfsögðu velkomið.