Afar vel sótt Hólahátíð

Hólahátíð var haldin um helgina, en hún er önnur af tveimur aðal hátíðum Þjóðkirkjunnar.
Skálholtshátíð er haldin í júlí og Hólahátíð í ágúst.
Dagskráin hófst með barnadagskrá á laugardaginn, sem endaði með grillveislu við Auðunarstofu.
Á sunnudag var hátíðarmessa í Hóladómkirkju þar sem sr. Gísli Gunnarsson vígslubiskup á Hólum prédikaði.
Í prédikun sinni ræddi Gísli um samband Grímseyjar og Hóla, en hann var viðstaddur vígslu Miðgarðakirkju í Grímsey fyrir viku.
Nefndi hann að Guðmundur góði biskup á Hólum hafi vígt bjarg í Grímsey og hluti af því bjargi þjónar nú sem altari í Miðgarðakirkju.
Eftir veislukaffi var menningrsamkoma í Hóladómkirkju þar sem Óskar Pétursson og Ívar Helgason fóru á kostum í leik og söng.
Valgerður Rakel Rúnarsdóttir og Dagmar Helga Helgadóttir sungu forseta Íslands til heiðurs lag þeirra um Riddara kærleikans, en eins og alþjóð er kunnugt þá hefur forsetinn lagt áherslu á að fólk sýni hvert öðru kærleika í öllum aðstæðum.
Í ræðu sinni sagði forseti frá því að hún hafi verið í sveit á Kjarvalsstöðum í Hjaltadal, en hún á ættir að rekja til Hofs í Hjaltadal og afi hennar og amma eru jörðuð í kirkjugarðinum á Hólum.
Auk þess að tala um æsku sína í Hjaltadal talaði forseti um unga fólkið, kvíða þess og notkun á samfélagsmiðlum.
Sagði hún að ungt fólk sem hún talar við kalli á meira samtal við fólk af öðrum kynslóðum um líðan sína og framtíð.
Bæði við messuna og samkomuna þurfti að setja upp aukastóla meðfram gangi og út í öll horn.
Var gerður góður rómur að hátíðinni allri eins og endranær.
slg