Hundrað milljón helvíti.

Hundrað milljón helvíti.

Prestar kirkjunnar hafa ekkert vald yfir því hvað tekur við að þessu lífi loknu – en ef við ætlum að vera trú okkar köllun og okkar boðskap sem þjónar kristinnar kirkju þá megum við og eigum við að bregðast við þegar valdhafar í íslensku samfélagi dæma jaðarsett fólk til raunverulegrar helvítisvistar. Ef það kallar á sterk orð til að vekja fólk til umhugsunar – þá er það gott og blessað.
fullname - andlitsmynd Sindri Geir Óskarsson
25. maí 2022

Við eigum öll okkar sérstaka stað í helvíti, berum öll í okkur reynslu eða ótta um það versta sem gæti gerst, okkar persónulega helvíti.
Sum þekkja þann stað betur en önnur, sum bæði fæðast og deyja í helvíti og þekkja það aldrei að upplifa öryggi, kærleik og frið.
Ég leyfi mér að fullyrða að við flest sem lifum við forréttindi og öryggi þekkjum helvíti fyrst og fremst af afspurn, þótt mörg okkar hafi sannarlega glímt við þjáninguna. Það eru nefnilega hundrað milljón helvíti hér á jörð.

Í gegnum sögu kirkjunnar hefur helvíti átt margar birtingarmyndir, en sá staður vítisloga og refsingar sem við lærum um í gegnum bíómyndir og dægurmenningu á rætur sínar í skáldskap Dantes en ekki Biblíunni. Sama skáldskap og sr. Davíð Þór vísar til þegar hann segir sérstakan stað í helvíti vera frátekinn fyrir þau sem selja sál sína fyrir völd. Myndmál og dæmisögur eru það sem við í kirkjunni notum meðal annars til að miðla boðskap trúar okkar. Þegar mikið liggur við er sannarlega réttlætanlegt að nota sterkt myndmál og vísanir í heimsbókmenntir. Í því liggur ekki brot á siðareglum kirkjunnar.

Kirkjur heimsins hafa í rétt rúm 1500 ár notað helvíti sem stjórnunartæki og vakið með því ótta og knúið fram hlýðni. Það var ekki hluti af boðskap kirkjunnar fyrstu árhundruðin en þegar rómarkirkjan varð valdhafi þurfti hún stjórnunartæki, og það trúarlega ofbeldi að þykjast hafa sálarheill fólk í hendi sinni varpar enn í dag skugga á friðar og kærleiksboðskap Krists í mörgum kirkjudeildum.

Það helvíti sem við lesum um í orðum Jesú vísar ekki til einhvers veruleika í eftirlífinu, heldur til þeirrar manngerðu þjáningar sem við sköpum í lífi samferðafólksins dag hvern. Þegar Jesús talar um eldvíti eða helvíti þá stendur þar að baki gríska orðið „Gehenna“ sem er örnefni. Þar er vísað til Hinnom dals utan við Jerúsalem. Á dögum Jesú voru þar logandi rusla haugar þangað sem líkum þeirra sem stóðu á jaðri samfélagsins varpað og þau brennd. Þar hafði fyrir tíð gyðinga í landinu helga verið fórnarstaður Kanverja þar sem fólk og börn voru tekin af lífi til að friða guðina. Eldvítið er ekki eitthvað sem bíður fólks í eftirlífinu, helvíti er til staðar hér og nú það eru aðstæður og staðir gjörsneydd af nærveru Guðs, staðir án náungakærleiks og vonar – þar sem fólk veldur öðru fólki þjáningu.

Þjóðkirkjan á að hafna því að trúarlegu ofbeldi sé beitt, en þjóðkirkjan á líka að hafna því að systkini okkar séu send til helvítis í boði íslenskra stjórnvalda.

Út um allan heim býr fólk við manngerða þjáningu stríðs, hungurs, kynþáttafordóma, útilokunar, fátæktar og skeytingarleysis. Þau sem stuðla að því að auka enn frekar á þjáningu þeirra jaðarsettustu í okkar samfélagi eiga sinn stað í helvíti, þau eru að búa þann stað til fyrir þau sem þurfa að lifa við þessa manngerðu þjáningu.

Prestar kirkjunnar hafa ekkert vald yfir því hvað tekur við að þessu lífi loknu – en ef við ætlum að vera trú okkar köllun og okkar boðskap sem þjónar kristinnar kirkju þá megum við og eigum við að bregðast við þegar valdhafar í íslensku samfélagi dæma jaðarsett fólk til raunverulegrar helvítisvistar. Ef það kallar á sterk orð til að vekja fólk til umhugsunar – þá er það gott og blessað.

Ef þessi sterku orð sr. Davíðs kveikja hjá þér hneykslan eða reiði, eins og orð Jesú gerðu gjarnan hjá þeim sem fóru með völd eða voru í forréttindastöðu, þá er það eflaust til merkis um að þú þurfir að staldra við og horfast í augu við eigin afstöðu.