Húrra - ÆSKULÝÐSDAGUR

Húrra - ÆSKULÝÐSDAGUR

Það er fagnaðarefni þegar æskulýðsdagur kirkjunnar rennur upp. Þann dag erum við öll minnt á orð Krists: ,,Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki (Mt.19:14).

aedagur6

Æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar er í dag, en hann hefur verið haldinn fyrsta sunnudag marsmánaðar í meira en hálfa öld. Þennan dag er athyglinni sérstaklega beint að börnum og unglingum og þau hvött til virkrar þátttöku í kirkjustarfi og guðsþjónustum dagsins. Í tengslum við æskulýðsdaginn vinna börn og unglingar í kirkjum landsins að skapandi og uppbyggjandi verkefnum. Þessi dagur er einn af stærstu viðburðum í öflugu barna- og æskulýðsstarfi safnaða kirkjunnar. Það er fagnaðarefni þegar æskulýðsdagur kirkjunnar rennur upp. Þann dag vekjum við athygli á því fjölbreytta, frábæra og góða starfi sem fram fer í kirkjum landsins fyrir fjölskyldur, börn og ungmenni. Og við erum öll minnt á orð Krists: ,,Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki (Mt.19:14).

Þann 8. mars 1959 var æskulýðsdagur kirkjunnar formlega haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn með æskulýðsguðsþjónustum í kirkjum landsins. Hugmynd sem hafði fæðst á Siglufirði, fengið meðbyr á Akureyri, var nú orðin að baráttumáli nýrrar æskulýðsnefndar kirkjunnar og dagurinn því orðinn að veruleika.

Á svipuðum tíma og fyrsti æskulýðsdagurinn var haldinn hátíðlegur árið 1959 var mikill uppgangur í æskulýðsstarfi kirkunnar. Sumarið áður höfðu 900 nýfermdir unglingar sótt æskulýðsmót á átta stöðum víðsvegar um landið. Sífellt fleiri kirkjur settu á fót starf fyrir unglingana. Æskulýðsdagurinn varð fastur liður í kirkjum landsins og á sumrin flykktust ungmennin á kirkjuleg mót.

Söfnuðir þjóðkirkjunnar í dreifbýli og þéttbýli standa í dag fyrir fjölbreyttu tómstundastarfi fyrir börn og ungmenni. Metnaður er lagður í starfið og ber margbreytileiki þess vott um þá hugmyndaauðgi og þann kraft sem ríkir meðal þess unga fólks sem er í framvarðasveit æskulýðsstarfs kirkjunnar í dag. Við hlið hefðbundinna sunnudagaskóla sem opnir eru öllum aldurshópum og æskulýðsfélaga sem ætluð eru fjórtán ára og eldri unglingum standa söfnuðirnir til dæmis fyrir kirkjuskólum fyrir yngri grunnskólabörn og TTT starfi fyrir tíu til tólf ára börn. Þá eiga margar kirkjur gott samstarf við KFUM og KFUK um yngri deildar starf og unglingadeildarstarf. Barna- og unglingastarf er fyrir löngu orðið einn helsti burðarás kirkjulegs starfs eins og þau sem sækja kirkjur landsins þennan dag geta orðið vitni að.

Ítarlegri grein undirritaðs um æskulýðsdaginn birtist í Morgunblaðinu í dag, bls. 19.

Tenglar:

Æskulýðssamband þjóðkirkjunnar, ÆSKÞ: http://www.aeskth.is/

Æskulýðssamband kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum, ÆSKR: http://www.kirkjan.is/aeskr/ Æskulýðssamband kirkjunnar í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi, ÆSKEY: http://kirkjan.is/naust/æskulyðsstarf/æskey/ Æskulýðsnefnd Kjalarnessprófastsdæmis, ÆNK: http://kirkjan.is/kjalarnessprofastsdaemi/