Hvað verður um mig?

Hvað verður um mig?

Mörg erum við svo lánsöm að eiga vini eða fjölskyldu að leita til. Fagfólk á sviði virkrar hlustunar, svo sem sálfræðingar og prestar, geta líka ljáð eyra þegar á reynir. Trúað fólk á sér þar að auki ómetanlega hjálp í traustinu til Guðs, að Guð muni endurnýja lífið.

Helgistund í Bústaðakirkju 31.1.21

Hvað verður um mig? spyr barnið þegar það eignast lítið systkini. Hvað verður um mig? spyr unglingurinn þegar mamma og pabbi ákveða að skilja. Hvað verður um mig? spyr unga konan sem er að ljúka námi og engin vinna í augsýn. Hvað verður um mig? spyrja þau sem missa vinnuna. Hvað verður um mig? spyr ekkjan og ekkillinn þegar lífsförunauturinn deyr.

Hvað verður um mig? spyrjum við mörg andspænis dauðanum? Hvað verður um mig í kreppum lífsins? Hvað með mig þegar lífinu lýkur? Hvað um mig og þig í þessu daglega streði, hringekjunni sem keyrir endalaust?, spurði Magnús Eiríksson um árið og Ragga Gísla söng svo eftirminnilega:

Er lífið aðeins fallinn víxill
oft þau spyrja sig.
Þau reyna að stefna í rétta átt
En hvað um mig og þig?
 
Íbúð, bíl, öll lífsins gæði
allir vilja meira
til þess þarf að
vinna hörðum höndum tveim.
 
Allir lenda einhvern tíma
einir úti í horni
þar sem enginn lengur
vita vill af þeim.

 

Þetta er auðvitað hálf dapurlegur texti en hittir samt í mark. Við streitumst við að lifa lífinu eins og við höldum að það eigi að vera, streitumst og erfiðum, hver kynslóð á fætur annarri, en þegar allt kemur til alls er þetta kannski bara hégómi, vindgustur, andvari sem snýst í endalausa hringi,  eins og lesa má í Prédikaranum (Préd 1.1-10):

Aumasti hégómi, segir prédikarinn,
aumasti hégómi, allt er hégómi.
Hvaða gagn hefur maðurinn af öllu erfiði sínu
sem hann streitist við undir sólinni?
Ein kynslóð fer, önnur kemur
en jörðin stendur að eilífu.
Og sólin rennur upp og sólin gengur undir
og hraðar sér aftur til samastaðar síns
þar sem hún rennur upp.
Vindurinn gengur til suðurs
og snýr sér til norðurs,
hann snýr sér og snýr sér
og hringsnýst á nýjan leik.
Allar ár renna í sjóinn
en sjórinn fyllist ekki.
Þangað sem árnar renna
munu þær ávallt renna.
Allt er sístritandi,
enginn maður fær því með orðum lýst,
augað verður aldrei satt af að sjá
og eyrað verður aldrei mett af að heyra.
Það sem hefur verið mun verða
og það sem gerst hefur mun enn gerast
og ekkert er nýtt undir sólinni.
Sé nokkuð til er um verði sagt:
Þetta er nýtt,
þá hefur það orðið fyrir löngu,
fyrir okkar tíma.

Ef allt er aumasti hégómi, hvað þá með mig – og þig? Hvað verður um okkur þegar hringekjan hættir að snúast? Hvað munum við hljóta, spyr Pétur fyrir hönd lærisveinanna í guðspjalli dagsins (Matt 19.27-30). „Við yfirgáfum allt og fylgdum þér. Hvað munum við hljóta?“

Svar Jesú er dálítið dularfullt fyrir okkur 21. aldar fólk. Inntakið er þetta: Guð mun endurnýja allt og er með okkur í gegn um allar breytingar lífsins, sem sannarlega eru oft sársaukafullar. En það er í sársaukanum sem við vöxum og þroskumst, í stritinu og erfiðinu sem eitthvað nýtt og nytsamlegt verður til. Þar með er ekki sagt að þrengingar séu gleðiefni á meðan þær eiga sér stað en til lengri tíma litið geta þær skilað okkur endurnýjun lífsins.

Barnið sem óttast um stöðu sína þegar lítið systkini bætist við fjölskylduna mun læra svo margt af þeirri lífsreynslu og er sannarlega ríkara fyrir vikið. Unglingurinn sem þarf að horfast í augu við skilnað foreldra sinna getur fundið farsælan farveg fyrir erfiðar tilfinningar og sorg. Atvinnumissir eða erfiðleikar við að komast út á vinnumarkaðinn geta skilað sér í að við opnum augun fyrir nýjum tækifærum eða dustum rykið af gömlum draumum. Og gagnvart dauðanum, sem er það eina á eftir fæðingunni sem við vitum fyrir víst að muni henda okkur öll, getum við fundið hugarró í traustinu til Guðs.

Við eigum aðeins þetta augnablik núna. Líf okkar er ekki mótað í stein Breytingar eru óhjákvæmilegar og yfirleitt erfiðar. Þegar við sjálf erum við stjórnvölinn og tökum meðvitaðar ákvarðanir um ný skref í lífinu eigum við kannski auðveldara með að höndla þær heldur en þegar við fáum engu um ráðið. En við getum lært að nýta okkur breytingar til góðs og oft þurfum við til þess aðstoð. Barnið og unglingurinn þurfa hlýja og þolinmóða leiðsögn til að komast í gegn um það sem virðist ógna stöðu þeirra og tengslum. Sama gildir um okkur fullorðna fólkið. Við þurfum handleiðslu í lífinu þegar eitthvað ruggar bátnum okkar. Mörg erum við svo lánsöm að eiga vini eða fjölskyldu að leita til. Fagfólk á sviði virkrar hlustunar, svo sem sálfræðingar og prestar, geta líka ljáð eyra þegar á reynir. Trúað fólk á sér þar að auki ómetanlega hjálp í traustinu til Guðs, að Guð muni endurnýja lífið, bæði þetta hér sem við lifum í núna og í tímaleysi eilífðarinnar. Því segir Páll postuli (Fil 3.7-14):

Ég vil þekkja Krist og kraft upprisu hans, ég vil þjást með honum og líkjast honum í dauða hans. Mætti mér auðnast að ná til upprisunnar frá dauðum. Ekki er svo að ég hafi þegar náð því eða sé þegar fullkominn. En ég keppi eftir því ef ég skyldi geta höndlað það, með því að ég er höndlaður af Kristi Jesú. Systkin, ekki tel ég sjálfan mig enn hafa höndlað það. En eitt geri ég. Ég gleymi því sem að baki er en seilist eftir því sem fram undan er og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur í Kristi kallað okkur til.

Bólu-Hjálmar nær vel utan um þessar hugsanir og minnir okkur á að við þurfum engu að kvíða: 

Skal ég svo kvíða nokkru? Nei.
Nærri' er útrunnið skeið.
Senn ber að höfnum hrakið fley,
huggun gefst lengi þreyð,
og hvort ég lifi eða dey,
eilífs lífs von er greið.
Guð minn, Guð minn, mig einan ei
yfirgef þú í neyð.         Hjálmar Jónsson frá Bólu