Tónar aðventunnar

Tónar aðventunnar

Boðskapur aðventunnar er margræður og á sér fjölda tóna og lita. Andi aðventunnar leitar á huga okkar og sál með öðrum hætti en árstíðarnar og gjarnan sterkari. Á aðventu leitum við inn á við, inn í heim minninga og minna, sem kvikna í ilmi og ljósum aðventunnar. Eða öllu heldur, gamlar minningar leita okkar. Og finna okkur.
fullname - andlitsmynd Valdimar Hreiðarsson
10. desember 2006
Meðhöfundar:
sudureyrarkirkja
Flokkar

Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða. En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn. Verið varir um yður, vakið! Þér vitið ekki, nær tíminn er kominn.

Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka.

Vakið því, þér vitið ekki, nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi, þegar hann kemur allt í einu.

Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!Mk. 13:31-37

Nú er aðventan hafin. Í dag er annar sunnudagur hennar. Enn einu sinni lifum við aðventu, þetta tímabil ársins sem sker sig á svo margan hátt frá öðrum tímum, öðrum árstíðum.

Vor, sumar, vetur og haust. Árstíðirnar fjórar, þær hafa sín séreinkenni, færa okkur sinn eigin boðskap hver og ein, eiga við okkur hver sitt erindi. Og erindi þeirra hlíta lögmálum náttúrunnar og koma þeirra boðar okkur breytingar í náttúrunnar ríki. Og þó svo að engin vor séu eins, enginn vetur eins og veturinn á undan, þá er boðskapur árstíðanna sá hinn sami, ein árstíð er á förum, önnur tekur við.

Á aðventu horfum við áfram, fram á veginn, í átt til komandi jóla, í senn með tilhlökkun og eftir­væntingu. Tilfinning­um, sem á stundum eru blandnar kvíða og óvissu gagnvart því sem ókomið er.

Boðskapur aðventunnar er margræður og á sér fjölda tóna og lita. Andi aðventunnar leitar á huga okkar og sál með öðrum hætti en árstíðarnar og gjarnan sterkari. Á aðventu leitum við inn á við, inn í heim minninga og minna, sem kvikna í ilmi og ljósum aðventunnar. Eða öllu heldur, gamlar minningar leita okkar. Og finna okkur.

Aðventan er sá tími árs, þegar tíminn verður einhver veginn sveigjan­legri, óræðari, afstæðari. Við endurlifum liðna tíð og um leið lifum við hið hverfula nú, augnablikið, sem er farið jafnskjótt og það kemur. Og um leið lifum við í framtíðinni, í eftivæntingu komandi jóla. Á aðventu upplifum við sterkar en ella þennan galdur tímans, að framtíð verður nútíð og nútíð fortíð og allt á sama andartaki.

Aðventan er tími fortíðarþrárinnar. Tíminn, er við lítum í anda liðna tíð í rósrauðum bjarma. Liðnar jólaföstur vitja okkar á ný. Við heyrum stefbrot af jólalagi og hverfum á vit liðinnar aðventu og jóla.

Á aðventu minnumst við hins liðna og á hverri aðventu er það þannig, að sumt af því sem við áttum áður, það eigum við ekki lengur. Því aðventan á líka við okkur erindi, sem er ekki eingöngu erindi gleði og fagnaðar. Ástvinir, sem við áttum saman með liðnar aðventutíðir og jól, eru ekki allir lengur með okkur.

Margir eiga minningar um aðventur sem færðu sorg og erfiðleika. Því þannig er lífið. Og í litskrúði og gleði aðvent­unnar verða slíkar minningar sárari en ella.

Já, erindi aðventunnar er ekki einfalt, boðskapur hennar enginn einn. Aðventan á sér fjölbreytta tóna og hljóma í lífi okkar. Og þannig á það að vera.

Í helgihaldi kirkjunnar er litur aðventunnar, eða jólaföst­unnar fjólublár. Fjólublái liturinn er litur hins sanna konungs, hann minnir okkur á komu hans, kallar okkur til íhugunar og iðrunar, til skoðunar á eigin lífi og innri manni, samskiptum og samfélagi. Hversu reiðu­búinn er ég og mitt samfélag til að taka á móti konungi lífsins?

Sú spurning kallar vissulega á það, að við stöldrum við og athugum, hvernig ástatt sé í eigin ranni. Og margir nota einmitt þennan tíma árs til að endurskoða ýmsa þætti í lífi sínu. Þeir strengja gjarnan heit þess efnis að færa ýmislegt til betri vegar í lífi sínu. Oft varða slík heit samskipti við ástvini og fjölskyldu. Og ekki eru þau alltaf tengd áramótum, ekkert síður komandi jólum. Slíkt er af hinu góða.

En það getur verið varasamt að leggja of mikið í undirbúning jóla, að binda við þau of miklar væntingar, að vinda seglin of hátt. Sú hætta er nærri, að of miklir kraftar fari í jólaundirbúninginn, að of miklar skuldbindingar séu gerðar í tilefni jólanna. Þá verða skuldadagarnir, tíminn eftir jól, sem sumum finnst harla grá tíð og þungbær, gjarnan enn grárri og þungbærari en ella. Og þá verður ef til vill ennþá erfiðara að standa við fyrirheitin góðu, sem voru gefin í aðdraganda jóla.

Ef til vill var það í anda komandi jóla og aðvent­unnar, að Alþingi Íslendinga samþykkti fyrir skömmu umtalsverða lækkun á verði matvöru. Í þeirri ákvörðun er fólgið fyrirheit um auðveldara og betra líf fyrir margar fjölskyldur. En um sama leyti og þær gleðifregnir bárust almenningi, var frá því sagt, að þúsundir íslenskra barna lifðu í fátækt. Frétt, sem er þungbærari nú en ella, á aðventutíð, í aðdraganda jóla.

Fátækt barna á Íslandi er skilgreind þannig, að barn býr við fátækt þegar ekki er hægt að veita því það, sem talið er að það þarfnist og er talið eðlilegt í samfélagi okkar og miðar að því að barnið geti lifað eðlilegu og þroskavænlegu lífi.

Þetta er stofnanamálið. Veruleiki barnanna fátæku er hins vegar sá, að þau eiga vonda skó, eru illa klædd, hafa með sér lítið sem ekkert nesti í skólann og verða fyrir aðkasti þeirra barna, sem búa við betri kost.

Börn, sem alast upp við slíkar aðstæður, fara á mis við margt það, sem gæti þroskað hæfileika þeirra og gert þau að hamingjusamari og betri þjóðfélags­þegnum. Það gæti farið svo, þegar upp er staðið, að þjóðfélagið þyrfti að greiða enn stærri reikning en þann sem hljóðaði upp á að bæta hag þessara barna í dag.

Íslenskt samfélag hefur ekki efni á að hafa innan sinna raða börn, sem lifa við slíkar aðstæður, hvorki fjárhags­lega né siðferðilega. Í ljósi aðventu og jóla er þetta óþolandi óréttlæti. Við skulum vona að Alþingi rétti hlut smælingjanna þegar það kemur saman á nýju ári.

Fátæku börnin íslensku eiga við okkur erindi á jóla­föstu, ekkert síð­ur en aðventukransinn, jólaljósin, jólasöngvarnir, pipar­kök­urnar og súkkulaðið. Annað erindi, en erindi, sem á sinn sess í fjöltóna hljómkviðu aðventunnar, sem berst okkur að eyrum dag hvern fram að jólum. Ekki bara erindi tilhlökkunar og gleði, heldur einnig erindi, sem segir okkur að skoða eigin gildismat og gildismat samfélags okkar.

"Vakið", segir Jesús í orði sínu. Í orðum hans felst í senn fyrirheit og aðvörun. Jesús segir okkur, að binda ekki traust okkar á það sem mölur og ryð fær eytt. Innst inni vitum við vel, að þessi orð eru sönn. Við vitum alveg, að gildismat taumlausrar efnis­hyggju leiðir til glötunar.

Á aðventu vökum við og bíðum. Við bíðum kon­ungs okk­ar, væntum endurlausnar okkar, bíðum frelsunar frá öllu því, sem þjakar og þjáir. Boðskapur aðvent­u er boðskapur vonar. Þeirrar óslökkvandi vonar, sem skín í myrkrinu og varpar ljósi sínu fram á veginn, fram til þeirrar dýrðar, sem bíður.

Guð gefi okkur öllum góða og gleðilega aðventutíð. Í Jesú nafni. Amen.