Innlifunaríhugun 4: Elskar þú mig?

Innlifunaríhugun 4: Elskar þú mig?

Við bíðum eftir svari Péturs, dálítið spennt, skyldi þessi dugmikli og hvatvísi fiskimaður getað játað Jesú ást sína? Og já, það getur hann, og þá getum við það líka: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“
Mynd

Kyrrðarstund 5.5.20 í streymi frá Grensáskirkju: Innlifunaríhugun 4

Fjórða þriðjudaginn í röð mætum við Jesú upprisnum í innlifunaríhugun að hætti Ignatíusar Loyola. Við erum enn á sama stað og síðast, á ströndinni við Tíberíasvatn, þar sem Jesús hefur boðið vinahópnum sínum grillaðan fisk og glóðvolgt brauð eftir velheppnaða veiðiferð. Það er enn árla morguns, örlítill andvarinn ferskur og allt að vakna, fuglar kvaka og sólin er að byrja að hita upp umhverfið.

Við drögum andann meðvitað, finnum jarðsamband með iljunum og himnasamband með höfðinu, leyfum líkamanum að hvíla á stólnum, lokum augunum og búum okkur undir að virkja innri skynjun, sjón, heyrn, ilm, snertingu. Hér er öruggt rými og okkur er óhætt að fara á vit innlifunarinnar. 

Þarna sitjum við þá við eldinn með Jesú og vinunum, hluti af hópnum, eins og ekkert sé sjálfsagðara. Andrúmsloftið er notalegt og afslappað, okkur líður vel, við erum mett á sál og líkama eftir nærandi máltíð og hlýja nærveru Jesú, ilmur í lofti af nýsteiktum fiski og brauði. Við látum fara vel um okkur, höllum okkur upp að grastá eða bara í sandinn, það er gott að hvílast eftir erfiði fiskveiða næturinnar. Samtalið hljóðnar um stund, við njótum þess að vera þarna, orð eru óþörf. Kyrrðin umfaðmar okkur, ekkert heyrist nema morgunsöngur fuglanna.

Þá rífur Jesús þögnina og við hlustum öll, viljum ekki missa af einu orði. „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“ segir hann og beinir orðum sínum til Símonar Péturs. Við vitum að Pétur er í forystu fyrir hópinn, fæddur leiðtogi, kallaður af Jesú sem sér hvað í okkur öllum býr. Fremstur meðal jafningja, er stundum sagt, og við vitum að það sem Jesús segir við Pétur á við um okkur öll innan þeirrar köllunar sem við höfum, hvert á okkar stað í lífinu. Elskar þú mig? spyr Jesús, og ekki nóg með það, elskar þú mig meira en þau sem hér eru með okkur á ströndinni? Við vitum að erfitt er að mæla ástina en hér er Jesús að prófa Pétur, reyna hann til að vita hvort kærleikur Péturs dugar til að vera hirðir hjarðar, sinna hópnum sem játast Jesú, varðveita þau og okkur sem sjáaldur augans, vernda og gæta og annast um líkt og Guð gerir, í kærleika Guðs, í köllun Guðs.

Við bíðum eftir svari Péturs, dálítið spennt, skyldi þessi dugmikli og hvatvísi fiskimaður getað játað Jesú ást sína? Og já, það getur hann, og þá getum við það líka: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Svar Jesú segir okkur að tilgangurinn með spurningunni er einmitt sá að fela Pétri hirðishlutverkið: „Gæt þú lamba minna,“ segir Jesús, og við finnum að orð hans eiga líka við okkur sem kannski elskum minna eða öðruvísi eða finnum til undan ástarskorti, en viljum samt vera með í kærleiksliðinu, sem elskar og annast og gætir.

Aftur spyr Jesús: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Og Símon Pétur svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Við fylgjumst með af athygli og erum aðeins hissa eins og Pétur, afhverju spyr Jesús aftur? En þá segir Jesús við hann: „Ver hirðir sauða minna.“ Þetta eru falleg orð, að gæta lamba Jesú og vera hirðir sauða Jesú og minna okkur á hirðislíkingarnar í Biblíu Gyðinganna, um að Guð sé eins og hirðir sem mun halda hjörð sinni til haga, taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu en leiða mæðurnar (Jes 40.11), um Guð sem fylgist með sínu fé og sér því fyrir hvíldarstað (Esekíel 34) og líka orð Jesú um sjálfan sig: Ég er góði hirðirinn sem legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina (Jóh 10). Kannski er Jesús núna að kanna hvort kærleikur Símonar ristir jafn djúpt? Er hann tilbúinn að leggja líf sitt í sölurnar fyrir hjörð Guðs? Við hugsum um okkar eigin kærleika sem oft er svo takmarkaður. Getur verið að viðleitni okkar til að elska á sama hátt og Jesús elskar tengi okkur við þann kærleika sem er víðari og lengri og hærri og dýpri en nokkur önnur elska? Getur verið að Jesús í þér og Jesús í mér geti rótfest okkur í slíkum kærleika? Getur verið að kærleikur Guðs sé sú uppspretta sem við þörfnumst öll því það er svo erfitt að vera alltaf að reyna að elska í eigin mætti?

Við erum kölluð úr þessum hugrenningum aftur að glæðunum á ströndinni þar sem við situm með Jesú og vinahópnum í vaxandi hlýju morgunsólarinnar þegar Jesús segir í þriðja sinn og horfir nú djúpt í augun á Símoni Pétri: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“

Við skotrum augunum til Péturs, hvernig skyldi honum líða að fá spurninguna í þriðja sinn? Honum er greinilega farið að líða óþægilega. Getur verið að þrítekin beiðni Jesú um ástarjátningu minni Pétur á þegar hann afneitaði Jesú fyrir skömmu þegar Jesús hafði verið handtekinn og Pétur þóttist ekki þekkja hann í þrígang þegar fólk spurði hann? Við sjáum að Pétur er hryggur. Honum finnst óþægilegt að vera minntur á svikin. Það myndi okkur líka þykja. En Jesús geri þetta á svo nærfærinn hátt. Með því að gefa Pétri kost á að játast sér jafnoft og hann afneitaði frelsara sínum fær Pétur reisn sína og virðingu til baka. Traustið sem var farið er nú endurreist. Og Pétur svarar: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist að ég elska þig.“

Þá segir Jesús við hann: „Gæt þú sauða minna.“ Nú veit Pétur til hvers Jesús ætlast af honum. Hann á að halda áfram því verki sem Jesús hóf og byggir á nærveru Guðs og kærleika allt frá upphafi vega. Símon Pétur og þau vinirnir þarna á ströndinni og við með þeim og öll þau sem elska Jesú óháð tíma og rúmi höfum hlotið þá köllun að vernda og gæta og annast um allt sem er, lifir og hrærist. Og við finnum hvað það er gott að Jesús spyr þrisvar og að við fáum að játast Guði sem gefur lífið, endurreisir lífið og viðheldur því einmitt þrisvar, að við fáum að vera Símon Pétur hvert á okkar stað, vera hann og hún sem elskar meira af því að við erum tengd ást Guðs, ekki vegna tilfallandi tilfinninga heldur vegna þess að Guð rótfestir okkur og grundvallar í sönnum kærleika, í gegn um en aðallega þrátt fyrir allar tilfallandi tilfinningar. Mættum við líka fá að sannreyna þennan kærleika og fyllast allri Guðs fyllingu, mættum við með Pétri og öllum hinum fá að taka við kærleikskrafti Jesú Krists sem verkar í okkur og megnar að gera langt fram yfir allt það sem við biðjum eða skynjum (Ef 3.14-21).

Þríeinn Guð gefi þér líf, kærleika og frið til að miðla áfram til þeirra sem á vegi þínum verða í dag. Góðar stundir. 

Guðspjall: Jóh 21.15-20

Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“ Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Ver hirðir sauða minna.“ Hann segir við hann í þriðja sinn: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Pétur hryggðist við að hann skyldi spyrja hann þriðja sinni: „Elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú sauða minna. Sannlega, sannlega segi ég þér: Þegar þú varst ungur bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir en þegar þú ert orðinn gamall munt þú rétta út hendurnar og annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki.“ Þetta sagði Jesús til að kynna með hvílíkum dauðdaga Pétur mundi vegsama Guð. Og er hann hafði þetta mælt sagði hann við hann: „Fylg þú mér.“