Snilldartextar

Snilldartextar

Textar dagsins eru tær snilld og boðið er upp á allt litróf Biblíunnar frá mínu sjónarhorni séð. Þá á ég við:Texta sem ég skil og opna hjarta mitt fyrir og texta sem ég skil ekki. Texta sem ergja mig og texta sem gleðja mig. Texta sem ég vil tala um, liggja mér á hjarta og hina sem ég vil ekki vita af.

Enn sagði hann við lærisveina sína: Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann, og var sá sakaður við hann um það, að hann sóaði eigum hans. Hann kallaði hann fyrir sig og sagði við hann: Hvað er þetta, er ég heyri um þig? Gjör reikningsskil ráðsmennsku þinnar, því þú getur ekki verið ráðsmaður lengur. Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: Hvað á ég að gjöra, fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla. Nú sé ég, hvað ég gjöri, til þess að menn taki við mér í hús sín, þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni.

Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum? Hann svaraði: Hundrað kvartil viðsmjörs. Hann mælti þá við hann: Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu. Síðan sagði hann við annan: En hvað skuldar þú? Hann svaraði: Hundrað tunnur hveitis. Og hann sagði honum: Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu.

Og húsbóndinn hrósaði rangláta ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins.

Og ég segi yður: Aflið yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir. Lk 16.1-9

Kæru kirkjugestir

Textar dagsins eru tær snilld og boðið er upp á allt litróf Biblíunnar frá mínu sjónarhorni séð. Þá á ég við:

  • Texta sem ég skil og opna hjarta mitt fyrir og texta sem ég skil ekki.
  • Texta sem ergja mig og texta sem gleðja mig.
  • Texta sem ég vil tala um, liggja mér á hjarta og hina sem ég vil ekki vita af.
Nú mætti auðveldlega segja: Bíddu, stopp. Hvar erum við stödd? Erum við ekki í kirkju, er djákninn ekki að tala, á hann ekki að vita þetta allt saman?

Einfalt svar?

Svarið er ekki svona einfalt. Jú djákninn getur talið upp hvað hann lærði í ritskýringu, velt því upp hvort atriði úr sögu samtíma Jesú gætu skýrt tyrfinn textann, bent á samhengi textans í Orðskviðunum við köllun Abrahams, jafnvel bent á misræmi í íslenskum texta og frummálinu. Og hvað? Skil ég textann betur? Skilur þú textann betur? Kannski og kannski ekki.

Að veita viðtöku

Lexían sem við heyrðum úr Orðskviðunum tekur einmitt þetta upp: ,,Sonur minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku” Við skulum aðeins staðnæmast við þessa setningu. Lítum í eigin barm, spyrjum sjálf okkur hvort við séum tilbúin að veita Orði Drottins viðtöku. Tengt já-inu eða nei-inu eða kannsk-inu sem bærist innra með okkur er spurningin: HVERNIG? Þarf ég ekki að kunna eitthvað? Hvernig tek ég á móti Guðs orði?

Jú ég kann að hlusta á fólk – held ég – ræð við að lesa texta sem mér berst í tölvupósti – ef vírusvörnin hefur ekki ruglað táknin, bækur er eitthvað sem ég skil – og stundum ekki.

Til þess að læra að hlusta á fólk þigg ég leiðbeiningar og vonast eftir viðbrögðum, vonast eftir því að fólk kvarti ef ég hlusta ekki.

Hvort ég fer á tölvunámskeið eða nota leiðbeiningabækling, einhvern veginn læri ég að taka á móti, lesa, skrifa og senda tölvupóst. Hins vegar vandast málið ef vírusvörnin hefur ruglað táknunum hjá mér.

Ég lærði að lesa í skóla. Þar lærði ég einnig nokkur tungumál og því eru bækur á þeim tungumálum eitthvað sem ég skil. Þó ekki alltaf. Þannig ímynda ég mér að ég ætti erfitt með að skilja leiðbeiningar um geometríu vetrarbrautarinnar. Ég veit ekki einu sinni hvort hún er til, ég hef aldrei pælt í vetrarbrautinni og ég þoli ekki geometríu.

Að hlusta á Biblíutextann

Svo kemur að Biblíutextanum. Get ég borið hann saman við það að hlusta á fólk? Já ég get það því Biblían hefur að geyma lifandi Orð Drottins. Það að Orð Hans sé lifandi þýðir að Orðið er hluti af því samfélagi sem ég á við Guð og hann við mig. Hér er bænin lykilatriði. Ég tala við Guð í bæn, ég hlusta eftir svari hans og verð óléttur með orð hans. Fyrirgefið mér ef ykkur líkar ekki þessi líking. Hún er eitthvað sem hefur hjálpað mér að skilja. Því það er svo oft þannig að þegar ég les í Biblíunni þá skil ég ekki það sem þar stendur. Þá ákveð ég að nú hefjist meðganga með þennan Biblíutexta. Meðgöngutíminn er misjafnlega langur. Á meðan á honum stendur les ég sama textann aftur og aftur, ég skrifa hann á stórt blað, ég les hann upphátt, í hljóði, ég strika undir það sem mér þykir vænt um í textanum, jafnvel yfir það sem truflar mig og ég spyr Guð í bæn hvað textinn þýði. Textinn og ég erum komin í samskipti, eða miklu frekar Guð er kominn í samskipti við mig í gegnum Orð sitt. Lifandi Orð sem fær kannski slíka þýðingu að mér þykir sem það sé talað til mín.

Að sjá samhengið

En hvernig er með Biblíutextann og leiðbeiningabæklinginn fyrir tölvupóstinn. Er þar eitthvað samhengi. Já, samhengið er í raun fólgið í samhenginu. Án tölvunnar og forritsins fyrir tölvupóstinn er bæklingurinn til lítils gagns og öfugt. Þessa hluti verður að sjá í samhengi. Að öðru leyti er alls kostar óvíst að tölvupósturinn sem ég ætlaði að senda skili sér af því að áður en ég sá tölvuna, tölvupóstinn og bæklinginn hafði ég aldrei séð neitt slíkt áður. Biblían er ekki orðabók sem hefur að geyma snillisetningar, heldur er snilldin fólgin í tengingunni sem okkur gefst kostur á að upplifa milli Guðs og manns. Og hér er komið að vírusvörninni. Það er margt sem getur brenglað samband okkar við Guð og við þurfum sífellt að spyrja okkur hvort allar stillingar hjá okkur séu réttar þannig að líf okkar sé í takti við það samhengi sem Orð Guðs boðar okkur.

Að tilheyra samfélagi

En hvernig er þetta með skólagönguna og Biblíulesturinn? Á nú að fara að senda okkur öll á Biblíuskóla? Þó það sé ágætishugmynd að fara á Biblíuskóla þá er það ekki í forgrunni þess sem ég vil segja hér. Öll höfum við á einhvern hátt gengið í skóla, þau elstu okkar hér inni kannski aðeins í örfáa mánuði, jafnvel á eigin heimili þar sem farandkennarinn og presturinn voru einu kennararnir ásamt foreldrunum, við hin í skólahús með misjafnlega mörgum öðrum, krökkum og fullorðnum. En skóli tengist alltaf samfélagi þar sem við lærum – kannski mismikið – en lærum þó. Og þannig er þetta með Orð Guðs. Það er hluti af samfélagi okkar við hann. ,,Þar sem tveir eða þrír eru samankomnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal ykkar.” Við getum ekki tekið Orð Guðs og horft á það sem einkaeign. Það er sameign okkar.

Saman er þetta fyrsta skrefið

Þetta er semsagt fyrsta skrefið! Ekki fyrstu þrjú skrefin, heldur fyrsta skrefið að því að nálgast Biblíutextann. Ég tek ekki eitt af fyrrnefndu atriðunum út, ég þarf á þeim öllum að halda þegar ég nálgast Orð Guðs. Bænin, lesturinn, bænin, meðgangan, bænin, samhengið, bænin, samfélagið: ,,þá munt þú skilja, hvað ótti Drottins er, og öðlast þekking á Guði.”

Pistill dagsins

Nú skulum við aðeins skoða pistil dagsins. Í upphafi textans erum við minnt á hve stutt lífið er, við erum hvött til gætni, hvött til þess að íhuga vel bænir okkar. Fyrst og fremst er okkur upplagt að bera kærleika hvort til annars. Það er gert með þeim rökum að þá sjáum við það góða í manneskjunni sem við mætum í stað þess að einblína á það sem miður fer hjá henni. Við erum hvött til að sýna gestrisni og hvött til að njóta gestanna. Í textanum minnir Guð okkur einnig á að hann hefur gefið hverju og einu okkar stórkostlega hæfileika. Það er ekkert ,,copy og paste” dæmi, heldur höfum við fengið einstakar gjafir sem hæfa persónu okkar og hlutverki. Að lokum erum við minnt á að gefa Guði dýrðina fyrir það sem við gerum.

Bíddu, stopp. Hvar erum við stödd? Áðan þegar við spurðum hvor við værum ekki í kirkju, hvort djákninn væri ekki að tala, og hvort hann ætti ekki að vita þetta allt saman þá fengum við svarið: Nei. Og nú endursegir djákninn allan pistilinn eins og við eigum bara að gleypa við því hvernig hann skilur textann.

Í samfélaginu fáum við samhengið staðfest

Einmitt. Þarna erum við komin að samfélagsþættinum sem var nefndur hér rétt áðan. Við komum saman í Jesú nafni, signum okkur, biðjum saman og eigum samfélag um ORÐ Drottins. Það þýðir að við eigum samskipti okkar á milli og við Guð um Orðið hans. Þannig byggjum við okkur upp í trúnni og treystum undirstöðurnar í skilningi okkar á því hvað Guð við segja við okkur.

Kærleikurinn er lykillinn

Nú skulum við skoða guðspjall dagsins. Hér er sögð saga sem hefði getað gerst á Akureyri í gær. Stjórnarformaðurinn kallar á framkvæmdastjórann og segir honum upp. Bara sisona. Einn, tveir og þrír. Eftir því sem sagan segir er ástæðan einföld. Endurskoðandi hafði farið yfir nokkur verkefni sem framkvæmdastjórinn hafði sinnt og tjáð stjórnarformanninum að þau bæru ekki nægan arð, mörg jafnvel í mínus.

Einhver uppsagnarfrestur er þó í sögunni því að framkvæmdastjórinn hefur tök á því að hóa í verktakana og aðra sem tengjast umræddum verkefnum og ,,redda” málunum. Það er sérstaklega þessi partur þegar hann ,,reddar” málunum sem mér finnst sagan verða alíslensk. Í stað afskrifta var nú í mesta lagi tap á verkefninu, í öllu falli ekki sá hagnaður sem vænst hafði verið. En málunum hafði verið reddað fyrir horn.

Og fyrir dugnaðinn, fyrir reddingarnar fékk framkvæmdastjórinn hrós og gott ef hann fékk ekki að halda stöðunni.

Fínn endir?

Allt gott og endirinn góður. Amen.

Nei ekki alveg. Nú kemur rúsínan í pylsuendanum, parturinn sem hvert okkar þarf að taka með sér í langa meðgöngu. Nú erum við eiginlega framkvæmdastjórinn og Jesús sem talar þessi orð kominn í hlutverk stjórnarformannsins.

Hálf sneypulegur

Ég sit hálf sneypulegur og hlusta á Jesú segja þessi orð við mig. Því ég veit uppá mig skömmina, ég hef staðið sjálfan mig að því að blanda ekki geði við fólk sem er fyrir neðan mína virðingu, þóst ekki sjá fólk sem ... , að ég tali nú ekki um þá ... , flýtt mér inní búð til að hitta ... sem mér mislíkar ekki á götunni, skipt um dagmömmu af því að hún var kannski ..., hætt að senda Önnu frænku jólakort af því að hún ...

Svona mætti lengi telja. Hlustum á þennan lista. Er hann ýktur? Er hann sannur? Hvað segir það um mig að velja þennan lista? Hvað set ég í eyðurnar? Hvað á við um mig? Get ég séð með kærleiksaugum Jesú sem breiðir yfir syndirnar, sér það góða í manneskjunni. Dæmt ekki.

Í lokin – þetta er alvöru endir núna – ein spurning handa þér til umhugsunar: Hugsar þú í skúffum?

Guð gefi þér góða daga.