Réttlæti Krists er lífsnauðsyn manna

Réttlæti Krists er lífsnauðsyn manna

Sá kærleikur Guðs sem af þessu ljómar og skín er bjartari en sólin á heiðum degi. Í nýjum morgunljóma lífs og réttlætis gengu lærisveinar hans af stað með vitnisburðinn um Krist svo einnig aðrir fengju notið náðargjafar Guðs í honum. Og lykillinn að þeirri gjöf er trúin sem kemur á sambandi við hann og það sem hans er; - kemur á samtali við hann í hverri gleði og hverri þraut.

Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust. En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“ Mark 16.1-7

Gleðilega hátíð kæru landar, góð systkin í Drottni.

Á páskum heiðra kristnir menn lifandi minningu kirkjunnar um krossdauða og upprisu Drottins Jesú Krists. Því þessi minning kirkjunnar er lifandi og vakir í hjörtum mannanna í mismunandi myndum og við mismikla trú. Atvikin í Jerúsalem þar sem Jesús er handtekinn, hæddur og meiddur vísa okkur á veruleikann í heimi manna, veruleika sem iðulega sýnir grimmd sína og kærleiksleysi manna á meðal. Ef að er gáð lögðust allir á eitt við réttarmorðið sem Jesús lét yfir sig ganga án þess að veita sjálfur nokkra mótspyrnu: Hin rómversku yfirvöld með Pílatus í fararbroddi, trúarlegir og veraldlegir leiðtogar fólksins í Landinu helga, svo og fólkið sjálft. Allir lögðust á eitt. Jesús var einn í klóm varga í mannsmynd sem létu hann loks bera krossinn út til Golgata þar sem hann var krossfestur ásamt tveimur glæpamönnum.

Þessi atvik föstudagsins langa með öllum þeim blóðuga dauðans hryllingi sem fylgdi urðu undanfari þess óviðjafnanlega sigurs sem við svo gleðjum sálir okkar við í dag. Upprisu Krists Jesú frá dauðum. Hún er gleði,- og þakkarefni páskanna og tilefni lifandi vonar öllum kristnum mönnum. Ekkert getur jafnast á við þessa gleðifregn svo einstök er hún hvar sem að er komið.

Allt sem lifir á jörðu eða lífsanda dregur er dauðanum merkt í jarðneskri gerð þess. Fyrr eða síðar mætir allt þeim endalokum sem dauðinn stendur fyrir. Segja má að mennirnir lifi í skugga hans og verji ævidögum undir angistarvaldi hans. Jesús kom og breytti þessu, hann breytti því á þremur dögum fyrir alla þá sem við honum taka og þiggja gjöf trúarinnar, hvort heldur hún er veik að sterk. Trúin dregur úr angistarvaldi dauðans og þegar best lætur eyðir hún því algerlega með vissu þess að Guð er líf og sannleikur, að hann mun í óumræðilegum kærleika gæta sálna barna sinna og þess lífs sem hann hefur gefið þeim. Lífið er ljós mannanna, segir Jóhannes í upphafi guðspjalls síns og tengir gjöf þess og dýrð við góðan Guð, við Krist sjálfan. Og svo einfalt er það ef að er gáð, að án lífs er enga merkingu að hafa. Því er það lífsins Guð og sigur Krists sem gefur öllu nýtt innihald og tilvera manna fær nýja merkingu og markmið, með því að lífsvon manna er ekki deydd og slökkt heldur fær hún fjör og kraft í trú upprisunnar og í ljóma þeirrar sigurgleði sem hún veitir. Kristin trú er upprisutrú, hún er trú á upprisu Jesú Krists frá dauðum, hún er trú á upprisu þína og upprisu mína, trú á leyndardóm Guðs sem á hagstæðum tíma mun standa við sérhvert orð sitt og fyrirheit.

Þegar allt var afstaðið og lærisveinar Jesú fengu litið inn í tóma gröf hans runnu á þá tvær grímur. Önnur gríman sýndi svip þess manns sem veit ekki hvað hann á að halda og hin birti þreytu og sorg eftir helgi mikilla hörmunga. Þess var ekki langt að bíða að lærisveinar Jesú, karlar og konur sem honum höfðu fylgt fengju fullvissu um þann ósegjanlega atburð sem átt hafði sér stað. Hann sem var dáinn var aftur lifandi og birti sig þessum vinum sínum í dýrðarlíkama upprisu sinnar.

Mín elskanlegu. Hvað gerir sá maður við heiminn sem þetta reynir? Hvaða augum horfir hann á náunga sinn? Með hvaða þanka rennir hann huga til eigin lífs? Allt er á augabragði gjörbreytt og rúmast varla í vitund manns. Sá maður sem þetta reynir situr ekki lengur í myrkri og skugga dauðans, jafnvel þó hann viti að hann muni safnast til feðra sinna einn daginn. Sá maður er baðaður ljósi og lífi þar sem hann stendur og hefur fengið nýja sjón, ný augu sem sjá að heimur manna, jarðríkið er harðangur mæðu, ofbeldis og ranginda, sama hversu fagurt landslagið er. Sá maður sér að Guð elskar hann og ætlar honum líf. Enda breyttist allt í lærisveinahópnum eftir þetta. Þeir sem höfðu skriðið í felur af ótta við að hljóta sömu örlög og meistari þeirra komu nú óttalausir fram í dagsljósið á ný og hófu að boða Krist og hann krossfestan, hófu að vísa mönnum á veg lífsins og réttlætisins í Jesú nafni.

Þeir meiddu engan og níddu engan, hugguðu marga, þoldu órétt og illa meðferð og litu á það sem heiðurslaun að mega þola illt fyrir gott, allt vegna Jesú Krists og nafns hans. Það blasir við að þessir elstu boðberar trúarinnar á Krist gerðu þetta ekki að gamni sínu, heldur vegna þess að það var nauðsynlegt og vegna þess að þeir höfðu átt samfélag við hinn upprisna Drottin. Nær allir voru drepnir fyrir að boða Krist. Þeir höfðu umgengist hann og snert lífið sjálft, Guð sem gerst hafði maður og búið við mannleg kjör ásamt þeim. Þjáningar Jesú og krossdauði hafði þar á ofan fengið svo dýrmætt inntak að engu varð til jafnað. Þetta undirgekkst hann nefnilega fyrir mig og þig. Tók út makleg málagjöld okkar á sjálfum sér, á eigin líkama okkur til lífs og réttlætingar. Þessarar refsingar sem hann undirgekkst saklaus hafði hann því ekki unnið til, heldur við.

Sá kærleikur Guðs sem af þessu ljómar og skín er bjartari en sólin á heiðum degi. Í nýjum morgunljóma lífs og réttlætis gengu lærisveinar hans af stað með vitnisburðinn um Krist svo einnig aðrir fengju notið náðargjafar Guðs í honum. Og lykillinn að þeirri gjöf er trúin sem kemur á sambandi við hann og það sem hans er; - kemur á samtali við hann í hverri gleði og hverri þraut. Og hvergi ætti maðurinn að vera ærlegri en í einrúmi bænarinnar þar sem hræsni og fals getur ekkert skjól fundið jafnvel þó reynt sé. Við komum fram fyrir Guð sem þau sem við erum þá og þegar, - og hann heyrir og býður okkur náð sína, fyrirgefningu og réttlætingu. Það er skrýtið orð réttlæting en skilst þegar við fáum að vita að lífið eilífa gengur hönd í hönd við réttlætið og að ranglátur maður hlýtur að fyrirfarast, - því ranglætið og dauðinn ganga hönd í hönd. Þess vegna er náðargjöfin fólgin í því, að eins og svangur maður hlýtur saðningu, þá hljótum við sem ranglát erum réttlætingu og matur okkar er í því sambandi Kristur sjálfur og réttlæti hans sem hann gefur okkur óverðskuldað - og fyrir það erum við réttlát í augum Guðs sem eindregið ætlar þeim líf sem við Syni hans taka. Aftur er það trúin sem er lykilatriði hér.

Kæru systkin. Það er upprisuhátíð páskanna.Við sitjum ekki lengur í myrkri og skugga dauðans, heldur erum við böðuð lífi og ljósi. Við búum ekki lengur við fátækt ranglætisins heldur auð réttlætisins í Kristi. Við erum ekki lengur börn næturinnar, heldur dætur og synir dagsins. Kristur er upprisinn. Amen.

Dýrð sé Guði, Föður, Syni og Heilögum Anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.