Hyggið að sjóðum hjarta ykkar!

Hyggið að sjóðum hjarta ykkar!

Það vakti talsverða athygli þegar einn kunnasti búddatrúartrúarleiðtogi heims, Dalai Lama hélt fyrirlestur um „lífsgildi, viðhorf og leiðir til lífshamingju“ í Laugardalshöllinni, þann 2. júní í vor. Sama dag fyrir 20 árum hélt Jóhannes Páll II páfi útimessu á Landakotstúni, en hann er eini páfinn sem heimsótt hefur Ísland.

„Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku og geymir boðorð mín hjá þér, svo að þú ljáir spekinni athygli þína, hneigir hjarta þitt að hyggingum, já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin, ef þú leitar að þeim sem að silfri og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum. Þá munt þú skilja, hvað ótti Drottins er, og öðlast þekking á Guði. Því að Drottinn veitir speki; af munni hans kemur þekking og hyggindi; hann geymir hinum ráðvöndnu gæfuna.“ Ok 2.1-7

„...því að öll skepna Guðs er góð, og engu ber frá sér að kasta, sé það þegið með þakkargjörð; því að það helgast af orði Guðs og bæn.“ Tím 4.4-5

„Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið. Seljið eigur yðar og gefið ölmusu, fáið yður pyngjur, er fyrnast ekki, fjársjóð á himnum, er þrýtur ekki, þar sem þjófur fær eigi í nánd komist né mölur spillt. Því hvar sem fjársjóður yðar er, þar mun og hjarta yðar vera. Verið gyrtir um lendar, og látið ljós yðar loga, og verið líkir þjónum, er bíða þess, að húsbóndi þeirra komi úr brúðkaupi og þeir geti lokið upp fyrir honum um leið og hann kemur og knýr dyra.“ Lk. 12.32-36

Það vakti talsverða athygli þegar einn kunnasti búddatrúartrúarleiðtogi heims, Dalai Lama hélt fyrirlestur um „lífsgildi, viðhorf og leiðir til lífshamingju“1 í Laugardalshöllinni, þann 2. júní í vor. Sama dag fyrir 20 árum hélt Jóhannes Páll II páfi útimessu á Landakotstúni, en hann er eini páfinn sem heimsótt hefur Ísland.

Á svipuðum tíma og Dalai Lama hélt sinn fyrirlestur var kvikmyndaleikstjórinn David Lynch hér á ferð og kynnti og seldi námskeið og bækur um innhverfa íhugun, að hætti upphafsmannsins Maharishi Mahesh Yogi. Í fréttatilkynningu sagði: „áætlun Lynch miðar að því að bjóða öllum Íslendingum að læra innhverfa íhugun á lágmarksverði ásamt því að leggja grunninn að stöðugum friðarhópi 200 iðkenda sérstakrar framhaldstækni sem, [...] mun skapa samstillingu í þjóðarvitundinni og færa íslensku þjóðinni áður óþekkt lífsgæði á öllum sviðum. „Íslenska þjóðin mun upplifa framfarir sem erfitt er fyrir hana að ímynda sér í dag.”2 Þetta eru sannarlega fögur fyrirheit.

Fólk flykktist til að hlusta á þá Lynch og Lama. Eflaust að hluta til af forvitni, en líka í einlægri leit að leiðinni til lífshamingunnar - og til að huga að lífsgæðunum, einu og sönnu.

Af einhverjum ástæðum er enginn leiðtogi kristinna manna nú á tímum, sem nýtur viðlíka hylli og búddamunkurinn Dalai Lama, nema ef vera skyldi páfinn, en íhaldssöm gildi kaþólsku kirkjunnar eiga þó hreint ekki upp á pallborðið í þeim löndum þar sem mótmælendakirkjur eru ríkjandi og hafa mótað viðhorf fólks, eða hafa ölluheldur mótast sjálfar eftir lýðræðislegri þróun samfélaganna, líkt og gerst hefur um öll Norðurlönd, í Englandi og víðar.

Hvernig stendur á því að kristin íhugun og spekihefð er eins og týnd í sölutilboðum andlegrar eflingar og troðin niður af íhaldssömum túlkunum? Það virðist að minnsta kosti vera eins og fólki finnist hálf pínlegt að minnast Jesú Krists sem „leiðtoga lífs síns“, sem flestir játuðust þó undir á fermingardegi sínum.

Margir eru á því að trúarbókin, Biblían, sé vandamálið. Í þessum doðranti er samansafn rita sem endurspegla áherslur á löngum tíma, og hún á líka að segja tilurðarsögu kristninnar. Kannski að þar standi hnífurinn í kúnni! Hefur inntak kristinnar speki ekki einmitt goldið fyrir það ofhlaðna samhengi sögutúlkunar sem hún situr föst í? Vantar kannski SECRET-lausn eða sjálfshjálparbók Jesú Krists?

Nei, við þurfum ekki einfaldar tæknilausnir. En það er sannast sagna, mikilvægt að greina kjarnann frá hisminu!

Hver messa í Þjóðkirkjunni er bundin ákveðnum textum Biblíunnar sem mælt er fyrir um í handbók kirkjunnar. Og predikunin á að vera skynsamleg ritskýtring eða svokölluð heimfærsla textanna til nútímanns - en predikunin þarf líka að vera farvegur trúartilfinningarinnar, eins og aðrir þættir guðsþjónustunnar. Því ef messan snertir ekki hjarta þitt og trúartilfinningar, þá er hætt við að kirkjubekkirnir tæmist alveg og leitin að lífshamingjunni og lífsgæðunum verði eingöngu utan kirkjudyranna.

Hér áðan heyrðum við lesið úr Orðskviðunum og Lúkasarguðspjalli, en saman veita þessi rit mjög góða innsýn í spekihefð, sem vissulega á hlutdeild í visku-fjársjóði allra tíma, hvort heldur sem er innan heimspeki eða trúarbragða. Áherslurnar eru bæði skýrar og afdráttarlausar – og þessar eld-fornu brýningar standast fyllilega tímans tönn og tala inn í núverandi aðstæður samfélagsins með sérlega skýrum hætti, en það er einmitt eiginleiki sannrar þekkingar að hún er tímalaus, sönn og algild, ef við nennum að greina kjarnann frá hisminu.

Guðspjallið er vissulega saga. Það hefst með því að birta Jesú sem þann Messías, eða Krist sem gyðingarnir vænta sífellt og það lýsir þeim fögnuði að Kristur sé Leiðtoginn! sem muni færa hinum fátæku og hrjáðu, sár-þráða hjálp og lausn undan ánauð ríkjandi valds. Fólkið trúr því að þarna sé hann loksins kominn „hinn heilagi“ Kristur sem kallaður verði „sonur Guðs“ af því að með honum muni Guð loksins láta rætast sáttmálann sem regnboginn er einmitt tákn fyrir og sem Hann gerði upphaflega við Nóa og ættföðurinn mikla Abraham – um gæfu hinna ráðvöndu.

Við skynjum að fólkið hefur hlustað eftirvæntingarfullt á Meistarann Krist – en hann minnir á að „engum spámanni er vel tekið í sínu landi“, enda kemur fljótt í ljós að fylgi menn ekki ríkjandi siðum og hefðum vekur slíkt í besta falli undrun og andúð, en endar í versta falli með útskúfun eða aftöku af einhverju tagi.

Meistarinn er þó ótrúlega óhræddur. Hann situr hiklaust hjá þeim sem honum sýnist og vingast við þá sem hefðin dæmir „bersynduga“ og hann nýtur þess að eta og drekka á gleðidögum og uppsker auðvitað uppnefnin „átvagl og vínsvelgur“. Hann brýtur hiklaust stirðnaðar reglur um hvíldardag gyðinga og talar af myndugleik gegn auðmönnum og hræsnurum. „Vei yður“ sagð‘ ann: Heimtið ekki meira en fyrir yður er lagt og hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum. Hyggið að hver sjóður hjarta ykkar er og hræsnið ekki. Þið skulið taka eftir bjálkanum í ykkar eigin auga, áður en þið bendið á flísina í auga næsta manns!

En hann sagði líka það sem flestum hefur reynst erfiðast að kyngja: Verið miskunnsamir og dæmið ekki. Elskið óvinveitta, blessið þá sem bölva yður og biðjið fyrir þeim sem misþyrma yður því „svo sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, svo skuluð þér og þeim gjöra“. Hvílík krafa um þroska og mannlega reisn!

Við íhugun guðspjallsins getum við auðveldlega skynjað, að jafn heillandi sterkur karakter og Jesús, hafi framkallað ást í hjörtum þeirra kvenna og karla sem fengu að vera næst honum. Hvílíkur eldmóður hefur fylgt þessum leiðtoga! Hann húðskammar hræsni þeirra sem skipa sér til æðstu metorða, en eru ekkert nema sjálfumgleði og yfirgangur hið innra – og lögvitringana snuprar hann fyrir að leggja níðþungar byrðar á fólk, án þess að leggja nokkuð á sjálfa sig! „Vei yður“ sagð‘ann að krefjast blóðs þessarar kynslóðar og stela lykli þekkingarinnar. Og hræsnin mun koma í bakið á hræsnaranum: „því ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, er eigi verði kunnugt“ því það sem hvíslað er í herberjum, verður kunngjört á þökum uppi (Netinu?) og gætið yðar á ágirndinni, því enginn auðgar líf sitt með veraldlegum auði, heldur með því að deila kjörum og hafa ekki sífellt áhyggjur af veraldlegu vafstri...

Á ferðum hópsins talaði Jesús og fylgismenn hans um leynda dóma guðsríkisins og æ síðan, á öllum tímum höfum við glímt við þá gátu hvar þetta ríki er, eða hvers eðlis það sé. Sumir álíta að það sé einhverskonar handanheimur – ? En hvað sagði Jesús hjá Lúkasi?

Hann sagði: Margir munu vilja sjá það sem þér sjáið, en sjá þó ekki, og heyra það sem þér heyrið, en heyra þó ekki: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig og biðja, leita og knýja á, því sá sem það gerir mun uppskera eftir hyggindum sínum og visku. En þar sem úlfúð og ósætti ríkir, þar mun auðn verða – en þar sem miskunnsemi ríkir og ástúð er í öndvegi - sjá „þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið“. Hyggið að sjóðum hjarta ykkar! Hver sem hefur eyru, hann heyri!

Jesús hvetur okkur til að gæta þess að ljósið í okkur, lífsneistinn, slokkni ekki. „Verið gyrtir um lendar, og látið ljós yðar loga.“ Horfið til náttúrunnar. Notið skilningarvitin sem ykkur eru gefin og skynjið hið fíngerða jafnvægi og þá ríku auðlegð sem þar má hvarvetna njóta. „Vertu ekki hrædd litla hjörð“ segir Meistarinn því Ríkið er ykkar – leitið hins sanna fjársjóðs, sem aldrei þrýtur og hvorki mölur né þjófar fá spillt – því hvar sem fjársjóður yðar er, þar mun og hjarta yðar vera!

Það er hér sem við erum stödd, í guðspjalli þessa sunnudags. Látum orðið tala til okkar; verum ekki hrædd; látum ekki ljós okkar slokkna, heldur kostum kapps um að njóta þess ríkidæmis sem fyllir hjörtun – ef við bara opnum skilningarvitin og hleypum að þeirri auðlegð sem birtist í ást, gleði og þakklæti. Ef við leitum og knýjum á, í auðmýkt, af festu og sjálfsaga, án hroka og yfirgangs, þá uppskerum við ríkidæmi sem við getum virkjað til góðs – með því að gefa og þiggja á svo mörgum sviðum – því guðsríkið er innra með yður og það flæðir fram ef þú keppir að því. Og sá fjársjóður hjartans er eins og glóð sólarinnar sem knýr, vekur og virkjar með afli sínu, lífið eilífa – sem líka er hér og nú!

Svo sem var í upphafi, er og verður, um aldir alda. Amen.

Tilvísanir

1 Fréttablaðið 10.02.09

2 http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/06/19/david_lynch_styrkir_ihugunarnam_islendinga/