Léttmeti eða sundurrifið hjarta hins iðrandi manns.

Léttmeti eða sundurrifið hjarta hins iðrandi manns.

Við virðumst eiga erfitt með að samþykkja galla okkar og þá staðreynd að við þurfum hjálp. Þess í stað leitum í skyndilausnir og léttmeti. En lausnina er að finna í Kristi og kostar þá mikið að tileinka sér hana, en gefur þess meira.

Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki? Sá sem er af Guði, heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki, vegna þess að þér eruð ekki af Guði." Gyðingar svöruðu honum: "Er það ekki rétt, sem vér segjum, að þú sért Samverji og hafir illan anda?" Jesús ansaði: "Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn, en þér smánið mig. 50Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til, sem leitar hans og dæmir. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð, skal aldrei að eilífu deyja." Þá sögðu Gyðingar við hann: "Nú vitum vér, að þú hefur illan anda. Abraham dó og spámennirnir, og þú segir, að sá sem varðveitir orð þitt, skuli aldrei að eilífu deyja. Ert þú meiri en faðir vor, Abraham? Hann dó, og spámennirnir dóu. Hver þykist þú vera?" Jesús svaraði: "Ef ég vegsama sjálfan mig, er vegsemd mín engin. Faðir minn er sá, sem vegsamar mig, hann sem þér segið vera Guð yðar. Og þér þekkið hann ekki, en ég þekki hann. Ef ég segðist ekki þekkja hann, væri ég lygari eins og þér. En ég þekki hann og varðveiti orð hans. Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn, og hann sá hann og gladdist." Nú sögðu Gyðingar við hann: "Þú ert ekki enn orðinn fimmtugur, og hefur séð Abraham!" Jesús sagði við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham fæddist, er ég." Þá tóku þeir upp steina til að grýta Jesú. En hann duldist og fór út úr helgidóminum. Jóhannesarguðspjall 8:46-59

Það er merkilegt með okkur mannfólk. Þrátt fyrir öll gæði heimsins og betri lífsaðstæður, erum við sífellt leitandi. Leitandi eftir því sem er betra. Leitandi að sátt. Við getum verið blessuð af efnislegum gæðum og barnaláni og öðrum gæðum sem gefa okkur hið innra, en ávallt kemur sú stund að við leitum að því sem vantar. Enginn kemst í gegnum lífið án þess. Það er tómarúm í okkur sem þarf að fylla. Stundum finnum við ekki fyrir því, stundum verkjar okkur vegna þess og allt annað gleymist. Leit fólks í vímu er dæmi um flótta úr veruleikanum, því meðvitað eða ómeðvitað er tómarúmið of stórt og þrengir að sálinni. Hví væri annars þörf á vímu? En skýrari merki um tómarúmið er hin trúarlega leit. Spíritisminn var alsráðandi hér fyrr á öldinni, og er enn við lýði. Það er nóg að segja frá að maður sé miðill og flestir hlaupa til handa og fóta og borga honum háa fjárhæð til að uppfræðast af öndum. Látnir menn sem áður var lítið mark tekið á, en nú pælt í hverju orði sem miðillinn segir, eins og stafur á bók. Menn flykkjast einnig til huglækna og reikimeistara til lækninga fyrir stórum sem smáum kvillum. Oft er meira mark tekið á slíkum læknum, en þeim sem stunda læknavísindi og jafnvel ekki leitað til slíkra. Menn eru hræddir við pillur, en tilbúnir að borga offjár fyrir orð spámanna. Allt er þetta merki um að tómarúmið er mikið og þörf á að fylla það. Margir leita því að auðveldri lausn og vissulega er boðskapur margra spámanna auðskilinn og léttmeltur. Hann er oft sá sem við viljum heyra. En fyllir hann upp í tómarúmið? Er nóg að vita hvernig hinir dánu hafa það til að öðlast sátt við Guð og sjálfan sig? Gefur slíkur boðskapur okkur sátt við Guð, menn og okkur sjálf? Er hann peninganna virði, en hann sálu okkar virði? Eða er hann kannski aðeins til að fela tómarúmið og auka það? Skiptir sá boðskapur einhverju máli? Eða er hann falskur spádómur, sem hrekur okkur lengra inn í myrkrið?

Ljósið kom í myrkrið. Þess minntumst við nú á síðustu stórhátíð, jólunum. En það er eins og við sjáum ekki ljósið eftir að slökkt var á jólaljósunum. Því að það er ekki til ljóssins sem flestir leita í neyð myrkursins. Við erum hætt að hlusta á þann boðskap sem er sjálfur Kristur. Við erum hætt að nema ljósið. Við heyrum ekki orðin sem orð Guðs og veitum þeim ekki viðtöku í hjarta okkar. Þannig fyllir það ekki tómarúmið í okkur. Það veitir okkur ekki sáttina. Þess í stað leitum við í léttmetið. Það er auðveldara og krefst minna af okkur. Það kostar bara peninga, ekki sundurrifið hjarta hins iðrandi manns. Það kallar ekki á miklar breytingar og við höfum það of þægilegt. Ekkert er eins erfitt og að viðurkenna annmarka sína og leita hjálpar. Við Íslendingar lögðum áður fyrr mest upp úr því að hjálpa öðrum, allavega svona á blaði og gerum jafnvel enn. En í raun var það of oft mikilvægast að bjarga sér sjálfum og í neðsta sæti var að þiggja hjálp. Það var helst aldrei gert, jafnvel ekki í neyð. Fræg er saga Halldórs Laxness um brauðið dýra, um konuna sem var send eftir rúgbrauði og tíndist og varð nærri úti. Hún snerti ekki brauðið því henni var treyst fyrir því. Það hefði þó getað haldið í henni lífinu lengur. Brauðinu var svo hent eftir að henni var bjargað. Ekki þáði hún hjálpina. Það er enn svo að sjálfstæði er mikilvægast og í öðru sæti að hjálpa, þó fúsleiki til að hjálpa er minni í dag enn áður, því menn eiga að sjá um sig sjálfir. Menn eru þó tilbúnir að þiggja af öðrum ýmislegt, ekki síst samfélaginu, en þá er litið á það sem réttindi, ekki hjálp. Menn jafnvel svindla á kerfinu til að fá meira en þeim í raun ber, og telja það réttindi sín. Þessi hugsun er svo sterk að hún hefur áhrif á leit manna að sátt. Léttmetið heillar meira, því að þar er ekki sagt að við þurfum hjálp og séum annmörkum háð. Nei, það þarf kannski handaryfirlagningu eða góð ráð, en í raun erum við það fullkomin að það þarf aðeins einbeitingu og fallegar hugsanir og allt verður gott. Við þurfum ekki hjálp, en við eigum rétt á að finna okkar eigin leið og þá hljóta allar leiðir að vera réttar. Annars þyrftum við hjálp. Þessi hugsun er svo sterk að menn vilja stjórna trúarbrögðunum. Menn vilja til dæmis breyta upprisu holdsins í trúarjátningunni í upprisu mannsins, því að það hentar betur. Það sem er óþægilegt á að fara út. Menn tala um að lýðræði eiga að ráða í kirkjunni, líka í kenningarlegum málum. Hentistefna skal ríkja. Hvílík fásinna. Siðferðisstaðall manna á ekki að vera upplýstur af Kristi, kærleikanum, heldur einhverju óljósu umburðarlyndi og frelsi. Sem er í raun aðeins dulbúinn leið til að samþykkja allt sem við viljum gera og í raun afneitun þess að við þurfum hjálp. Léttmetið skal valið. Auðveldara er að segja að allt sé í lagi, en að iðrast synda sinna, leita til Guðs og biðja um hjálp. Því að við höfum það of gott og erum blinduð af mýrarljósum.

Málið er það að við erum hjálpar þurfi. Við þurfum að sættast við okkur sjálf og Guð. Þar dugar ekkert léttmeti eða skyndilausnir. Þar dugar aðeins útrétt sáttarhendi Guðs. Boðskapur Krists er að svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eina til þess að hver sem honum treystir og þráir, glatist ekki, heldur hafi eilíft líf, líf í sátt við Guð, menn og sjálfan sig. Allt það þarf að haldast í hendur. Ef einhver ásakar okkur gengur Kristur fram fyrir okkur og tekur á sig hegningu okkar. Hann elskar okkur það mikið. Ekkert er of stórt í augum hans. Hann elskar okkur eins og við erum og vill gefa okkur sátt. Hann er útrétt sáttarhönd Guðs. Hann segir: Guð elskar þig, hví elskar þú ekki sjálfan þig? Ég er tilbúinn að ganga í dauðann fyrir þig og ég gerði það. Það sem meira var, ég reis upp frá dauðum og býð þér eilíft líf, sátt við Guð. Hví þiggur þú hana ekki? Hví hleypur þú mér ekki inn í hjarta þitt til að fylla upp í tómarúmið með kærleika Guðs? Við heyrðum frá því er Móse bjó til eirorm, að boði Guðs, og setti hann upp á stöng. Fyrir vikið lifðu þeir sem horfðu á orminn á stönginni af höggormsbitin. Löngu seinna var Sonur Guðs negldur upp á kross. Þar gildir það sama er við lítum á krossinn og heimtum réttlæti og að menn uppskeri eins og þeir sá, þá sjáum við augu Krists. Þrátt fyrir syndir okkar og ófullkomleika er í augum hans aðeins kærleikur í okkar garð. Hann fyrirgefur okkur og er tilbúinn að deyja fyrir okkur á krossinum. Hann elskar líka hin börnin sín, sem jafnvel hafa brotið á okkur, og er tilbúin að fyrirgefa þeim. Hví elskar þú þau ekki og ert tilbúin að fyrirgefa þeim. Ef þú fyrirgefur þeim ekki hið smáa, hvernig getur þú þá fyrirgefið sjálfum þér í stóru? Það er í raun aðeins ein synd, að láta kærleika Guðs ekki stjórna verkum sínum. Hún er alltaf jafn stór og allir sekir af henni. Ekki fara í meting um hver syndgar minna, það er aðeins ein synd og allir sekir. En með því að þiggja Guðs útréttu sáttarhönd býðst okkur sátt og fyrirgefning. Hana þáðum við í skírninni er Guð tók okkur að sér sem sitt barn. Kristur opnaði okkur leiðina til sáttar og til Guðs. Fetum hana með kærleika í hjarta, veljum ekki breiða veginn með léttmeti í för, heldur treystum Guði og þiggjum hjálp hans.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.