Hugrekki og hógværð Maríu

Hugrekki og hógværð Maríu

Sögur þeirra Maríu, Elísabetar og Hönnu sýna okkur að reynsla kvenna er dýrmæt. Við værum fátækari ef saga þeirra hefði ekki verið skráð, en því miður liggur saga kvenna í mannkynssögunni og í Biblíunni oftast í þagnargildi, ósögð.

Ó, faðir, Guð, vér þökkum þér. Vér þiggjum allt sem dýmætt er, úr helgri hendi þinni. Vér lútum þér. Vort líf er náð, ó, lát það verða sigur, dáð, og ávöxt eilífðinni.

Vér helgum þér vorn hug og sál, vorn hljóm og þrótt og vit og mál, það allt, sem ást þín léði. Það vaxi þér, að vild á jörð og vakni nýtt í þakkargjörð til þín af banabeði.

Ó, vertu, Guð, í verki manns, í vilja, draumi, anda hans, í þrá og starfi þjóða, að sagan verði sigur þinn, og signi jörðu himinninn sem gróðurreit hins góða.

Amen.

(Höf. Hr. Sigurbjörn Einarsson, biskup.)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Textar dagsins, sem voru lesnir og sungnir hér í kirkjunni áðan, fjalla um þrjár konur. Það eru þær Elísabet og María, sem sagt er frá í Lúkasarguðspjalli og Hanna sem greint er frá í fyrri Samúelsbók í Gamla testamentinu.

Á síðustu árum hefur fjöldi fræðimann um allan heim rannsakað Biblíuna m.a. með tilliti til kvenna. Hlutverk þeirra og staða, bæði meðal gyðinga í ritum Gamla testamentisins og síðan í samtíð og samfélagi Krists, hefur verið skoðuð á alla kanta. Rannsóknirnar hafa svarað mörgum spurningum en enn greinir menn á um ýmsa hluti. Var t.d. Jesús hliðhollur konum eða var hegðun hans gagnvart þeim kannski bara dæmigerð í samfélagi hans? Lét hann sig þær eitthvað sérstaklega varða eða umgekkst hann þær eins og aðra kúgaða í samfélaginu, eða voru þær kannski ekkert kúgaðar? En með nýrri tækni, meiri þekkingu og einnig með aðstoð fornleifafræðinnar færumst við í átt til meiri skilnings á ritum Biblíunnar og skiljum betur þá texta sem hafa valdið misskilningi og verið rangtúlkaðir. Þá getum við vonandi eytt fordómum sem upp úr textunum hafa sprottið, m.a. gegn minnihlutahópum eins og t.d. samkynhneigðum. En þessar rannsókir breyta ekki kjarnanum í trú okkar, sem er Jesús Kristur og hans heilögu orð. Orð Hans standa stöðug að eilífu og gefa okkur styrk til að berjast gegn ójöfnuði og öðru ranglæti.

Já, lofsöngur Maríu, sem við heyrðum hér áðan, er máttug og magnþrungin lofgjörð til Drottins frá konu sem veit að hún fær að upplifa meiri blessun en nokkurri mannlegri veru mun hlotnast. Það eitt og sér að fá að ganga með og ala barn er mikil blessun, og alls ekki sjálfgefið. Það fékk hún Hanna í Samúelsbók svo sárlega að reyna og margar kynsystur hennar allt til dagsins í dag, þar á meðal er ég sjálf.

En hún María var alveg örugglega ekki að sækjast eftir því að eignast barn, ólíkt hinum konunum í lestrum dagsins, þeim Elísabetu og Hönnu. Hún hefur trúlega verið kornung, auk þess að vera ógift og af fátæku fólki komin. Það var ekki auðvelt hlutskipti sem beið hennar. Hún hefur sjálfsagt vitað hver áhættan var sem fylgdi þessari köllun, þungun ógiftrar unglingsstúlku gat þýtt útskúfun og fordæming samfélagsins, og verið til mikillar auðmýkingar fyrir fjölskylduna hennar og mannsefnið hann Jósep. En hún beygir sig undir vilja Guðs. Hún fer til Elísabetar frændkonu sinnar sem einnig var þá þegar þunguð í elli sinni, eins og stendur í ritningunni. Og á þeirri stundu mætist gamli og nýi tíminn. Jóhannes sonur Elísabetar verður síðasti spámaðurinn, en Jesús Kristur sonur Maríu er boðberi nýrra tíma og sá Messías sem beðið hafði verið eftir.

Það fyrsta sem vekur athygli mína við lestur þessa undurfagra lofsöngs er hin mikla auðmýkt Maríu gagnvart hlutverki sínu. Hún sem var valin af Guði til mesta heiðurs sem nokkurri manneskju hefur, og mun nokkru sinni hlotnast í þessum heimi, að verða móðir Drottins, talar um sína lítilmótlegu stöðu í samfélaginu og smæð sína. Hún hreykir sér ekki af vegsemd sinni eða upphefur sjálfa sig, heldur lofar og þakkar Guði. Í sálminum sem ég las hér í upphafi leggur, Sigurbjörn Einarson, gamli biskupinn okkar einmitt áherslu á þakklætið og náðina sem við öllum njótum, hver sem við erum. Hann segir: ,,Vér þiggjum allt sem dýrmætt er, úr helgri hendi þinni. Vér lútum þér, vort líf er náð,”. Hógværð og þakklæti gagnvart vilja Guðs og því sem við þiggjum daglega. Eða eins og Páll postuli segir í Rómverjabréfinu: ,, Berið sama hug til allra, hreykið yður ekki, en haldið yður að hinum lítilmótlegu. Ætlið yður ekki hyggna með sjálfum yður.”

María játar að hún þarfnast Guðs síns eins og við öll. Við í okkar lúthersku kirkju biðjum ekki til Maríu guðsmóður og höfum hana ekki sem milligöngumann milli okkar og Guðs. Hún er ekki guðleg vera sem við tilbiðjum. En svo sannarlega getum við dáðst að hugrekki hennar og reynt að tileinka okkur auðmýkt hennar, trúartraust, kærleika og þolgæði.

Í öðru lagi skulum við veita athygli þakklæti Maríu. Sál hennar miklar Drottinn og andi hennar gleðst í Guði. Allar kynslóðir munu hana sæla segja, mikla hluti hefur hinn voldugi við hana gjört. Sjálf skulum við leitast við að rækta í okkur þakklæti. Séra Jóna Lísa Þorsteinsdóttir sem nú er prestur á Kanaríeyjum vitnar um það bók sinn sem ber nafnið ,,Mig mun ekkert bresta”, að á erfiðum stundum í þeirri miklu sorg sem hún þurfti að ganga í gegnum, tók hún uppá því þegar hún gekk til vinnu sinnar að þylja þakkarbæn til Drottins. Hún þakkar allt sem henni hafði hlotnast, þrátt fyrir allt. Og þannig fyllti hún allan göngutúrinn af setningum sem gátu verið á þessa leið: ,,Takk Guð fyrir daginn í dag. Takk fyrir að ég get gengið. Takk Guð minn að ég á föt að klæða af mér kuldann. Takk fyrir börnin mín. Takk Guð minn að þau eru heilbrigð. Hún segir að þakklætið sé sem smyrls á sárin og besta meðal við mótlæti. Í hennar sorg rofaði til um stund og hún fann hvað þakklætið gerði henni gott. Við skulum blessa og lofa Drottinn hvern einasta dag lífs okkar. Og vakna til hvers dags með þeirri fullvissu að allt það góða sem okkur hlotnast sé gjöf frá Guði.

Svo að ég víki aftur að henni Maríu þá eru áhrif Gamla testamentisins mjög greinileg í lofsöng hennar. Trúararfur hennar skín í gegnum hverja ljóðlínu. Áhrif frá Davíðssálmum eru augljós, en mest eru þó tengslin við lofgjörðarsöng Hönnu, sem áður er getið. Það flytur Hanna Drottni lofsöng eftir að hafa eignast langþráðan son sem hún nefndi Samúel. Lofsöngur þessara kvenna eins og kallast á og bergmálar til allra sem gleðjast yfir gjöfum Guðs.

Og María er einnig að tengja upplifun sína við sögu þjóðarinnar, er hún segir frá miskunn hans við þá er óttast hann og að drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað og valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja, hungraða hefur hann fyllt gæðum en látið ríka tómhenta frá sér far. Hún þekkir ritninguna og sögu þjóðarinnar. Hvernig Drottinn felldi þjóðir og konunga en upphóf fátæka almúgamenn eins og Jósep, Móses, Samúel, Davíð, Ester og Daníel. Og síðast en ekki síst, lítur hann til ambáttar sinnar, fátækrar unglingsstúlku frá Nasaret. Þar í fátækt og alsleysi finnur hann stað fyrir litla drenginn sem er frelsari okkar. Og það er einmitt svo dásamlegt og gefur okkur öllum hugrekki og von, að Drottinn skuli velja að vinna verk sín í gegnum hina fátæku og smáu.

Þessi tenging við Gamla testamenntið sýnir okkur hve mikilvægt það er fyrir þá sem vilja skilja Nýja testamenntið, líf Krists og heilög orða Hans, auðga og dýpka trú sína, að þekkja rit Gamla testamenntisins og þann trúararf sem Jesús Kristur fæddist inní.

,,Far þú og rek för hjarðarinnar” segir í Ljóða ljóðunum, þannig skulum við skoða aftur í tímann, fletta upp í Gamla testamenntinu, rekja förin og leita skýringa á því sem virðist torskilið í Nýja testamentinu.

Að lokum skulum við skoða hvað lofsöngur Maríu gefur okkur fyrirheit um. Í lokin segir hún, hann hefur minnst miskunnar sinnar og tekið að sér Ísrael, þjón sinn, eins og hann talaði til feðra vorra , við Abraham og niðja hans ævinlega. Enn kemur trúararfur hennar í ljós og þekking hennar á fyrirheitunum sem Abraham voru gefin í fyrstu Mósebók, þar sem segir: ,, allar þjóðir munu af honum blessun hljóta” Og hún veit að með fæðingu sonar síns munu þessi fyrirheit rætast.

Allar þjóðir heimsins eru í þeirri hjörð, sem er lýður Drottins og niðjar Abrahams. Það er ekki bara átt við þjóðina fyrir botni Miðjarðarhafsins sem stöðugt á í stríði og við köllum Ísrael, heldur er hér átt við okkur öll, við allir menn sem játumst Kristi, erum hans útvalda þjóð sem munum af honum blessun hljóta.

Sögur þeirra Maríu, Elísabetar og Hönnu sýna okkur að reynsla kvenna er dýrmæt. Við værum fátækari ef saga þeirra hefði ekki verið skráð, en því miður liggur saga kvenna í mannkynssögunni og í Biblíunni oftast í þagnargildi, ósögð. Kannski er það vegna þess að saga kvenna vitna ekki um auð og völd heldur um tilfinningar, mannlega þrá, vonir og drauma. Í sögum Biblíunnar getum við þó greint að konur voru og við öll erum fullgildir lærisveinar Jesú og njóta sannalega blessunar Hans í öllum okkar störfum og kjörum. Við erum öll eitt í Kristi. Eins og stendur í Galatabréfinu. Og þau störf sem síðustu aldir og árþúsund, hafa að mestu verið á höndum kvenna, við hjúkrun, uppeldi og umönnun, njóta örugglega mikillar blessunar. En það er svo undarlegt að það eru þau störf sem hafa verið vanmetin af samfélaginu hingað til. Þau hafa verið vanmetin vegna þess að þau skapa ekki veraldlegan auð eða með öðrum orðum peninga. En þessi störf gefa þann auð sem öllum auð er dýrmætari þegar upp er staðið, auð hjartans og minninganna, fullvissu um að verið sé að gera öðrum gagn, létta öðrum lífið. En þessi auður dugar samt skammt þegar þarf að borga reikningana. Það vantar ennþá réttlæti í launakjör á Íslandi og það vantar jafnrétti á svo mörgum sviðum. Og það vantar umfram allt frið og sátt.

En hún María litla sem kennir okkur að auðmýkt og þakklæti kennir okkur líka að vera hugrökk og djörf og hirða ekki um almenningsálitið þegar við berjumst fyrir réttlætinu.

Já María er okkur öllum fyrirmynd, hún efaðist aldrei eða brást Drottni sínum. Hún sem var svo ung og smá, var var samt svo stór, sterk og hugrökk. Hún sem var svo auðmjúk, á samt alla okkar dýpstu virðingu. Hún sem var svo full þakklætist, á alla okkar þökk fyrir sitt blessunarríka líf.

Að lokum skulum við taka með okkur orð hennar og gera að okkar er hún segir: ,,Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.”

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.