Fæðubótarefni frá Jesú

Fæðubótarefni frá Jesú

Þótt við skiljum minna en lærisveinarnir og miklu minna en samverska konan við brunninn, sem fékk að tala sjálf við son Guðs, þá þurfum við ekki að örvænta. Við þurfum alls ekki að finna upp hjólið né bestu auglýsingatæknina til að laða að okkur áhangendur eða matreiða fagnaðarerindið ofaní fólk.

Mikið er nú gaman að við skulum hafa aðgang að Jóhannesarguðspjalli. Hin þrjú eru ósköp fín líka, þau sem kölluð eru samstofnaguðspjöllin, því að í þeim eru sömu sögurnar sagðar með tilbrigðum. En Jóhannesi guðspjallamanni er oft líkt við örn, sem hefur sig á flug yfir lönd og höf og greinir frá leyndardóminum um Jesúm Krist frá því sjónarhorni, þ.e hann setur allt í víðara samhengi.

Mér fannst því við hæfi að athuga hvert samhengi texta dagsins er hjá Jóhannesi. og mér fannst það fyndið og skemmtilegt, svolítið ólíkindalegt meira að segja. Textinn okkar er stuttur í dag og hefst svona:

Jesús sagði við þá: „Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans. (Jóhannes 4.34)

Samhengið er þetta. Jesú barst til eyrna að Farísearnir tóku það óstinnt upp hversu margt fólk aðhylltist kenningar hans, fylkti sér um hann og tók skírn. Það voru lærisveinar Jesú sem skírðu fólkið, Jesús gerði það ekki sjálfur, segir Jóhannes. Sama er, Jesús fær veður af afbrýðisemi farísea og dregur sig í hlé. Við vitum ekki hvort honum stóð beinlínis ógn af þeim, hvort hann vildi sýna hógværð, vonaði að öldur lægði svo að hann fengi vinnufrið. Jóhannes er ekkert að sinna um slík smáatriði. En þá gerist Jóhannes margmáll um konu eina sem verður á vegi Jesú. Lesarinn athugi það, ritarar þessa tíma voru nánast aldrei margmálir um konur, svo að þetta eru tíðindi. Jesús fer semsé hálfpartinn huldu höfði, verður að fara um Samaríu á leið sinni frá Júdeu til Galíleu, og hann sest við brunn, Jakobsbrunn, um hádegisbil í sólarbreiskjunni. Konu ber þar að. Jesús biður hana að gefa sér vatn. En lærisveinarnir höfðu farið inn í borgina að sækja vistir, bætir Jóhannes við, og ég skil það þannig að það hafi enginn orðið vitni að þessum ósóma, að karlmaður af ætt gyðinga ávarpi þarna konu og það útlenska. Hún tekur því þannig, sýnist mér, því að hún spyr hann margliðuspurningar. - Hvernig stendur á því að þú, Gyðingurinn, skulir biðja mig, samverska konu, um vatn að drekka?

Þessa sögu þekkjum við vel og munum án efa oft ræða um hana, fyrst hún rataði í Biblíuna. Við getum þá velt því fyrir okkur enn einu sinni hvers vegna Jesús tók sér það bessaleyfi að tala við konu, hvað hann átti við þegar hann talaði um lifandi vatn sem aldrei þrýtur. Jesús sem var vanur að tala við mannfjölda trakteraði þarna eina einustu konu á meiri háttar guðfræði og lýsti því yfir að hann væri Messías. „Ég er hann, ég sem við þig tala.“

Og þessi kona sem átti skrautlega fortíð í karlamálum og var ekki alveg með allt sitt á hreinu, og var þar með tekin enn þá minna trúanleg en aðrar konur, nefnilega núll komma ekki neitt, hún gaf Jesú kannski ekki dropa að drekka, en skildi skjólu sína eftir, sneri vatnslaus aftur til bæjarins með þessi ótrúlegu tíðindi að hún hefði trúlega hitt Krist. Blessuð konan, þetta var ekki auðvelt, fólk hló ábyggilega að henni.

Og þá dúkka lærisveinarnir upp, vitandi ekkert um þessar þrungnu samræður og afleiðingar þeirra. Þeir koma að Jesú í hádegishitanum og segja. - Rabbí, fá þér að eta.

Sjálfsagt réttu þeir honum þá vistirnar sem þeir höfðu farið að sækja. En Jesús svaraði þeim nánast út í hött: „Ég hef mat að eta sem þið vitið ekki um.“ Og þeir hugsuðu: kom einhver að gefa honum mat meðan við vorum í burtu? Og þá kemur að texta dagsins, Jesús mælir þessi fleygu orð: „Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans.

Grey lærisveinarnir, þeir og reyndar þær, - það skulu hafa verið konur þarna-, voru búin að leggja á sig langa kaupstaðaferð og voru ekki nema umhyggjan ein við Jesúm, en hann var í ham, búinn að eiga langar og innihaldsríkar guðfræðilegar samræður þarna við brunninn, og sneri sér frá því að tala um lifandi vatn yfir í heimspekilegar umræður um mat. Eða er það kannski grey Jesús, sem er einmitt búinn að traktera lærisveinana mánuðum saman á trúarlega upplyftandi samræðum um andlega fæðu, en þau sjá bara fisk og brauð. Þau stóðu honum allra næst og áttu að vita betur, en þau bara náðu þessu ekki.

Við eigum þetta til líka, við sjáum ekki alveg hvernig trúin fléttast inn í daglegt líf. Við öflum okkur upplýsinga um hollan mat, ég skrifaði t.d. hjá mér um daginn upp úr glansblaði, að það væri svo lifandis ósköp gott fyrir minnið að borða bláber, lauk, brokkólí, spínat, rófur og rósmarín, og fyrir sjónina eru það laukar, appelsínugult grænmeti, belgjurtir, hnetur og fræ, bláber, rúsínur og vínber, sem hreinlega efla nætursjón.

En Herdís Andrésdóttir orti á annan hátt um sjónina í sálminum sem við sungum áðan:

Upp hef ég augu mín, alvaldi Guð til þín, náð þinni er ljúft að lýsa, lofa þitt nafn og prísa.

Hvar værum við ef konan við brunninn og Herdís hefðu ekki þorað að lýsa fundum sínum við Jesúm? Eða ef Jóhannes hefði ekki tekið sig til flugs og greint eilítlu öðruvísi frá Jesú en við erum vön annars staðar frá?

Eins og ég sagði í upphafi fannst mér textinn fyndinn þegar ég las hann í þessu samhengi núna fyrir þessa prédikun. Jesús talar svona svolítið út í hött, hirðir ekki um þorsta og hungur, en hirðir samt um það á sinn sérstaka hátt. Hann virðist vera að tala um svo miklu afdrifaríkari þorsta og hungur en lærsiveinarnir geta nokkuð gert í með vistum sínum. Í skugga afbrýðisemi faríseanna eru þau komin út í óbyggðir. Tökum það til athugunar að farísearnir voru trúmenn miklir, Jesús hefði svo vel getað fyllt þeirra flokk, því að sameiginlegt baráttumál þeirra var að tilbiðja Guð á réttan hátt. Hann bara fór öðru vísi að, svo að hans eigin trúsystkin grunuðu hann um græsku og öfunduðu hann sárlega af vinsældunum. Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá, var ekki bara sagt um Silla og Valda, heldur mátti glöggt sjá af þeim sem flykktust að Jesú, að hann bauð upp á bestu fæðuna, ekki endilega fyrir minni, sjón eða gegn stressi (undanrenna, bláber, grófar kornvörur, kjúklingur, en meira um það síðar ef þið viljið) heldur fyrir lífið sjálft, fyrir andann, fyrir konuna við brunninn, fyrir þig og mig, núna. Eitthvað áður ósagt, eitthvað alveg nýtt. Af hverju í ósköpunum sáu farísearnir það ekki? Af hverju varð Jesús að flýja? Af hverju skildu ekki hans allra bestu vinkonur og vinir hann? Og hvað erum við að gera hérna í dag? Höfum við ekki fjarlægst ætlunarverk Guðs sem Jesús kom til að fullkomna?

Það, mínir kæru vinir, fer allt eftir því hvað við gerum núna. Við eigum eftir að syngja hér tvo sálma. Sá fyrri, númer 549, er ósköp einfaldurog segir svo margt gott um trú, hvernig Guð hefur stund til að tala við okkur og uppræða okkur um trúna, svona eins og Jesús við brunninn forðum. Og hinn er svona stærri og meiri, Í öllum löndum lið sig býr í ljóssins tygi skær. Hugsum um trú okkar þegar við syngjum þessa sálma og þegar við göngum til altaris.

„Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans. „Ég sendi ykkur að skera upp það sem aðrir hafa unnið við.“

Með öðrum orðum: þótt við skiljum minna en lærisveinarnir og miklu minna en samverska konan við brunninn, sem fékk að tala sjálf við son Guðs, þá þurfum við ekki að örvænta. Við þurfum alls ekki að finna upp hjólið né bestu auglýsingatæknina til að laða að okkur áhangendur eða matreiða fagnaðarerindið ofaní fólk. Akrarnir eru tilbúnir til uppskeru, fólk þarf á Guði að halda, og hér erum við, hvert fyrir annað, sumpart með nóg að gefa, sumpart með óseðjandi þarfir, sem aðeins Guð getur mætt. Við eigum ekki að reyna að vera Jesús, bara að segja frá kynnum okkar af honum og gera svo það sem leiðir af því. Hvað það er finnum við út í sameiningu, ef við skuldum hvert öðru aðeins það eitt að elska hvert annað. Og berum fram mat Jesú, sem er að gera vilja Guðs og fullna verk hans. Og bætiefnin þar þekkjum við, þau eru: kærleiki, gleði, friður, gæska góðvild langlyndi, trúmennska hógværð og bindindi. Allt þetta bætir heyrn og mál og sjón, bætir líka minnið og ver gegn stressi, eða hvað haldið þið?

Við getum ekki lyft okkur á vængjum arnarins yfir atburði daglegs lífs, en Guð getur upplokið augum okkar fyrir víðara sjónarhorni og hugsunarhætti Jesú. Göngum að þessari messu lokinni út í þessa nýju viku og treystum á vináttu Guðs, sem við skulum nú syngja um.